Vill tryggja jöfnuð í tæknibreytingum

Svonefnd framtíðarnefnd tók í fyrsta sinn til starfa á Alþingi sl. haust, í kjölfar þingkosninganna í september. Hún var skipuð í samræmi við bráðabirgðaákvæði í þingsköpum og mun starfa til loka kjörtímabilsins og í henni eiga sæti fulltrúar allra flokka á þingi. Nefndinni er aðallega ætlað að „fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu.“ Með öðrum orðum: Hlutverk hennar er meðal annars að halda áfram þeirri kortlagningu mögulegra afleiðinga fjórðu iðnbyltingarinnar á íslenzkt samfélag sem hafin var með skýrslu sérfræðinganefndar sem kom út fyrir þremur árum. En hlutverkið er þó víðtækara, þar sem það nær til fleiri þátta framtíðarþróunar íslenzks samfélags.

Formaður framtíðarnefndar Alþingis fyrsta starfsárið er Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. Lifðu núna ræddi við hann um verkefni nefndarinnar, en með því er botninn sleginn í greinaflokk um fjórðu iðnbyltinguna og væntanleg áhrif hennar á líf eldra fólks á Íslandi.

„Við stöndum frammi fyrir stórkostlegum breytingum, sem sennilega munu valda meiri breytingum á samfélaginu en við höfum áður séð,“ hefur Logi mál sitt á að segja. Hann vísar með þessum orðum sínum til þeirra tæknibreytinga sem fyrirséð þykir að verði á næstu árum og áratugum og eru almennt kenndar við fjórðu iðnbyltinguna. Ekki sízt síaukin notkun gervigreindar muni valda miklum breytingum á vinnumarkaði og skipulagi bæði hagkerfisins og samfélagsins.

Framtíðarnefnd fundar. Nefndarformaðurinn Logi Einarsson t.v.

Stórar áskoranir, mikil tækifæri

Logi segir þessa tækni nú þegar vera að vaxa í veldivexti, „á meðan almenn þekking okkar, þegar kemur að siðferðislegum álitamálum og fleiru þessu tengdu, er bara að vaxa línulega í bezta falli.“ Áskoranirnar séu því stórar, og það veiti sannarlega ekki af því að Alþingi Íslendinga einbeiti sér að því að skoða þessa hluti með skipulegum hætti, en það sé einmitt ætlunin með starfi framtíðarnefndarinnar.

En Logi bætir við að ef vel tekst til geti þessi nýja tækni „leitt af sér meiri framleiðniaukningu sem er mjög mikilvægt vegna þeirra lýðfræðilegu breytinga sem eru að verða, þar sem fleiri og fleiri sem hlutfall af þjóðinni eru eldri og lægra hlutfall þarf að standa undir framleiðslunni.“

Fjórða iðnbyltingin geti líka minnkað vistspor allrar framleiðslu. „Þetta er sérstaklega áhugavert fyrir Ísland, sem er eyja langt frá mörkuðum, með tiltölulega fáar vinnandi hendur. Þessi stafræna framleiðsla er eðlisólík. Hún getur orðið til með tilkomu færri handa, með virkjun hugaraflsins. Henni er hægt að koma á markað á augabragði, án flutninga yfir höf og lönd. Svo getur auðvitað ný tækni, ef við ákveðnum að nýta hana þannig, orðið til þess að minnka bilið á milli efnaðra og hinna snauðari, bæði innan landa en líka milli heimshluta. Og það hlýtur auðvitað að vera markmiðið,“ segir Logi.

Stórar siðferðislegar spurningar

Logi segir að það sé nefnilega viss hætta á því að arðurinn af framleiðniaukningu fjórðu iðnbyltingarinnar færist „á enn meiri hraða á enn færri hendur“ ef stjórnvöld sofa á verðinum. „Það er mikilvægt að við séum á varðbergi og stjórnvöld á hverjum tíma séu meðvituð um það og reynum að stýra þessari þróun í góða átt. Þess vegna er þessi nefnd stofnuð hjá okkur. Okkur er ætlað að taka fyrir stafrænu byltinguna og hvernig hægt er að nýta hana í þágu grænnar og sjálfbærari þróunar,“ segir hann.

Nefndin skoði þetta allt líka með tilliti til þeirra lýðfræðilegu breytinga sem eru að verða. „Við erum sem betur fer að eldast, sem þjóð,“ vekur Logi athygli á og heldur áfram með vangaveltur þar um: „Ég held að við séum að upplifa tíma sem svipar til sjötta og sjöunda áratugarins, þegar fjölgaði um einn kynslóðahóp: Þar sem unglingar/ungmenni urðu sér aldurshópur í félagsfræðílegu tilliti, og bættist þannig við fyrri skiptingu samfélagsins í aðeins þrjá kynslóðir: yngstu kynslóðina (börn), fullorðna og gamla. Nú stefnir í það að jafnvel stærsti þjóðfélagshópurinn verði á milli tveggja síðastnefndu hópanna. Fólk á aldursbilinu 60 til 85, sem er fullfrískt og fært um að lifa mjög virku lífi, en ekki dvelja bara á elliheimili eða þ.u.l. fram á grafarbakkann.“

Bjartsýnn á farsæld eldra fólks í framtíðarkerfinu

Logi leggur áherzlu á að verkefni íslenzkra stjórnvalda á komandi árum muni ekki sízt snúast um að tryggja að Ísland haldi samkeppnishæfni sinni í samanburði við grannþjóðirnar og það sem bezt gerist í veröldinni. Og til að vel takist til verði að finna leiðir til að þessi stóri hópur eldra en virks fólks finni sér hlutverk við hæfi í hinu breytta samfélagi fjórðu iðnbyltingarinnar.

Logi segist bjartsýnn á að þetta muni takast farsællega, ekki sízt vegna þess að hann hefur tröllatrú á þrótti og nýsköpunargetu hins norræna velferðarmódels. Mikilvægur þáttur verði hvernig tæknin muni gera fólki kleift að búa sjálfstætt lengur, styðja við sjálfstæðan og sjálfbæran lífsstíl eldra fólks lengra fram eftir aldri. „Við munum það þegar ömmur okkar og afar, frændur og frænkur voru slitin af vinnu og álitin gömul fyrir sjötugt. Nú er þetta gerbreytt,“ segir Logi, og valdi því meðal annars hve brýnt það sé að þróa fjölbreyttari búsetuúrræði fyrir eldra fólk.

Hann segist sammála því mati að mannlegi þátturinn verði eftir sem áður mikilvægastur í veitingu allrar umönnunarþjónustu, ekki sízt við aldraða. Huginn Freyr Þorsteinsson, sem er doktor í vísindaheimspeki og var formaður sérfræðinganefndarinnar sem samdi skýrsluna um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna, lýsti þessu mati sínu í viðtali í síðustu grein þessa greinaflokks.

Alþjóðasamvinna mikilvæg

Logi telur að nauðsynlegt sé að skoða þessa þróun líka í alþjóðlegu ljósi. „Það er kannski að opnast möguleiki á að við getum búið öllu mannkyninu góð skilyrði. Þótt þessi þingnefnd hafi fyrst og fremst það hlutverk að fjalla um þetta útfrá íslenzkum aðstæðum þá finnst mér rétt að við höfum þessa hnattrænu sýn líka í huga.“ Alþjóðasamvinna sé og verði Íslendingum gríðarlega mikilvæg, og bætir við í því sambandi að „við gleymum því stundum að þjóðríkið og bíllinn eru ekki nema um 150 ára gömul fyrirbrigði“.

Um sína hnattrænu sýn í þessu samhengi segir Logi: „Við verðum að horfast í augu við það að ójöfnuður, sama hvernig hann birtist, er orsök alls þess versta sem við upplifum, ófriður, fátækt eða annað. Við getum ekki lengur lokað augunum fyrir því að mannkynið er í einhverjum skilningi ein stór fjölskylda, við berum öll ábyrgð hvert á öðru.“

Þótt hlutverk þjóðkjörinna þingmanna Íslands sé að sjálfsögðu fyrst og fremst að huga að hag fólks hér innanlands segir Logi það vera sannfæringu sína að „við verðum að vera meiri þátttakendur í alþjóðastarfi, ekki bara af siðferðislegum ástæðum. Ég held að á endanum sé það til hagsbóta fyrir alla.“

Og hann er bjartsýnn á að fjórða iðnbyltingin muni hjálpa til við að jafna lífskjör í heiminum: „Ef við tökum af ábyrgð á þessum áskorunum sem felast í þessari nýju tækni að þá getum við leyst þetta vandamál, ég er alveg sannfærður um það.“

Möguleikar hinnar nýju tækni eru enn að mörgu leyti ófyrirséðar, en búast má við að á þeim verði líka skuggahliðar, ekki sízt siðferðislegs eðlis. Dæmi: með hinni nýju tækni er líklegt að gerlegt verði til að mynda að „hanna afkomendur sína“. En viljum við það? Eins og áður segir verður hér við stórar siðferðilegar spurningar að glíma.

Logi talar á fundi framtíðarnefndar Alþingis með framtíðarnefnd finnska þingsins í marz sl. Joakim Strand, formaður finnsku nefndarinnar, hlustar.  Ljósm./Alþingi

Framhaldið: Sjálfbær þróun og sanngjörn umskipti

Frá því framtíðarnefnd Alþingis tók til starfa hefur hún haldið níu fundi, þar á meðal einn með framtíðarnefnd finnska þingsins í Helsinki, en hún er elzta slíka nefndin á Norðurlöndum, hefur starfað í yfir 20 ár og er nú orðin ein a fastanefndum Finnlandsþings. Nefndin hefur líka fundað með framtíðarnefnd litháíska þingsins, á fjarfundi. Á síðasta fundi sínum nú í júní ræddi nefndin starfsáætlun sína fyrir komandi vetur.

„Við munum í haust kalla saman sérfræðinga og hagsmunaaðila af mjög ólíkum sviðum og ræða spurninguna: hvernig geta tækibreytingar leitt til sjálfbærra og sanngjarnra umskipta í þágu velsældar?,“ segir nefndarformaðurinn.

Með „sanngjörnum umskiptum“ sé átt við að tryggja jafnvægi milli hinna ýmsu þjóðfélagshópa í þessu breytingaferli sem framundan er, þ.e. milli kynja, aldurs, búsetu, kynslóða o.s.frv. Umskiptin verði sanngjörn í þeim skilningi að þau bitni ekki á tilteknum hópum og að einn hópur umfram annan beri ekki óeðlilega mikið úr býtum.

„Fjórar framtíðir“ teiknaðar upp

Undirbúningsvinnan sem unnin var í nefndinni á vetur og vor hafi leitt til þess að til standi að nefndin ætli sér á komandi vetri að „teikna upp fjórar mögulegar „framtíðir“,“ og Logi orðar það, þ.e. dragi upp fjórar mismunandi sviðsmyndir sem lýsi mögulegum þjóðfélagsbreytingum samfara tæknibreytingum fjórðu iðnbyltingarinnar. „Tilgangurinn er að búa fólk undir hvað kann að gerast,“ segir Logi.

Þessar ólíku sviðsmyndir, og sérstaklega túlkun þeirra, mun óhjákvæmilega litast af því hvaða lífsskoðun og stjórnmálalegu sýn fólk aðhyllist. En Logi segir óháð því vonir standa til að þessi vinna muni „nýtast sem verkfæri sem stjórnvöld á hverjum tíma geta notað.“ Því eigi að vinna þessar ólíku sviðsmyndir í fullri sátt allra flokka á þingi. „En hvert og eitt okkar getum svo dregið sínar ályktanir af þessu,“ bætir Logi við.

Í þessu sambandi vekur Logi athygli á því að Finnar hafi farið þá leið að finnsku ríkisstjórninni sé gert að gefa út skýrslu um framtíðina að jafnaði einu sinni á hverju kjörtímabili og þær áskoranir og tækifæri sem sjá megi fyrir, og framtíðarnefnd þingsins þar hafi það hlutverk að gefa álit á þeirri skýrslu.

Hann segist líka binda vonir við að stjórnvöldum og Alþingi auðnist að vinna vel saman að þessum málum; sér finnist mjög mikilvægt að „við komum okkur upp þannig vinnulagi að stjórnarráðið sé ekki að vinna í sínu horni og þingið í öðru,“ heldur sé stunduð markviss samvinna. Til mikils sé að vinna, enda gerir Logi ráð fyrir að þessi vinna geti „dregið sóknarfærin enn skýrar fram en áður og sýnt hvaða leiðir stjórnvöld geti valið varðandi þróun atvinnuvega, skólakerfisins o.s.frv. til að búa fólk undir breytt atvinnulíf framtíðarinnar.“ Undir þetta falli líka aðgerðir til að tryggja hinum stóra hópi eldra fólks hlutskipti við hæfi í framtíðarsamfélagi fjórðu iðnbyltingarinnar.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn júní 15, 2022 07:00