„Leysum ekki umönnunarvandann með vélmennum“

Hvert verður hlutskipti eldra fólks í þeirri bylgju sjálvirknivæðingar sem fyrirséð þykir að muni fylgja fjórðu iðnbyltingunni svonefndu? Í annarri grein af þremur rýnir Lifðu núna nánar í þetta atriði sérstaklega og fær Hugin Frey Þorsteinsson, sem er doktor í vísindaheimspeki, til að velta vöngum yfir því með sér.

Í fyrstu grein greinaflokksins eru niðurstöður skýrslu stjórnskipaðs sérfræðingahóps um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna tíundaðar nokkuð ítarlega, en Huginn Freyr var formaður þessa sérfræðingahóps. Í greininni var meðal annars vakin athygli á því hversu miklum umbreytingum spáð er að fjórða iðnbyltingin muni valda á vinnumarkaði. Störf eldri karlmanna, það er í elzta aldurshópnum sem enn er virkur á vinnumarkaði, 55-74 ára, munu til að mynda verða fyrir mun meiri röskun af þessum völdum en störf kvenna í sama aldurshópi.

Umönnun ekki mönnuð vélmennum

En það er annað sem tengist fjórðu iðnbyltingunni og mun að öllum líkindum hafa meiri áhrif á líf hins sístækkandi hóps eldra fólks, en það eru áhrifin á umönnunarþjónustu. Við settum fókusinn á þetta atriði í samtali okkar við nefndarformanninn fyrrverandi.

Huginn Freyr Þorsteinsson

„Bæði lifir fólk almennt lengur og stærri árgangar komast á eftirlaunaaldur; þannig er fyrirséð að fjölga mun verulega í hópi eldri borgara á næstu árum og áratugum,“ segir Huginn Freyr. Eftirspurn eftir faglegri umönnunarþjónustu mun því aukast verulega. „En við leysum ekki umönnunarvandann með vélmennum,“ segir Huginn ákveðinn.

Tækniframfarir geti vissulega stutt við umönnun og gert fólki kleift að bjarga sér sjálft lengur. Við þekkjum öll hvernig ryksuguróbótar létta undir með húsverkunum, og auðvelt er að sjá fyrir sér viðlíka vélvædda húshjálp sem létta mun undir við fleiri húsverk í náinni framtíð. Einnig til dæmis sjálfvirka lyfjaskammtara, sem minna á hvenær tími er kominn til að taka lyfjaskammtinn og svo framvegis. Alls kyns slíka aðstoð má sjá fyrir sér að tækiframfarir skili. „En kjarni allrar umönnunar er mannlegi þátturinn, og hann geta vélar ekki tekið yfir,“ segir Huginn. „Mín sýn sem heimspekimenntaðs manns er sú að með aðstoð tækninnar losni meiri tími til að sinna mannlega þættinum.“

Umönnunarstörfum muni frekar fjölga en fækka

En hvað með þann erfiða mönnunarvanda sem heilbrigðisstofnanir standa frammi fyrir (sjá umfjöllun Lifðu núna um hina hnattrænu hjúkrunarkreppu – eru einhverjar horfur á að fjórða iðnbyltingin muni eitthvað hjálpa til við að leysa hann? Það eru jú ekki sízt þær stofnanir sem sinna umönnun aldraðra sem líða krónískan skort á fagmenntuðu starfsfólki.

Huginn segist hafa fulla trú á því að fjórða iðnbyltinginu muni, ef rétt er á spilum haldið, vissulega geta hjálpað til við að leysa þennan mönnunarvanda. Með sjálfvirknivæðingu megi til dæmis sjá fyrir sér að þau sem sinni heimaþjónustu aldraðra geti varið stærri hluta vinnutíma síns í að spjalla við skjólstæðinga sína á meðan vélarnar sjái um húsverkin. Huginn telur horfur á að umönnunarstörfum muni frekar fjölga en fækka, þrátt fyrir alla sjálfvirknivæðingu fjórðu iðnbyltingarinnar.

„Tæknin á að verða vinur okkar á þessu sviði sem öðrum,“ leggur hann áherzlu á. Ef fólk vilji til dæmis búa lengur sjálfstætt þá geti tæknin stutt við það, og þannig aukið sjálfræði fólks lengra fram á efri árin.

Krefst endurskipulags samfélagsins

„Tæknibreytingar eru skipulagsmál fyrir samfélög,“ bætir Huginn við. Tæknibreytingar fjórðu iðnbyltingarinnar munu krefjast víðtækrar endurskipulagningar samfélagsins. Takist vel til við þá endurskipulagningu muni það gera samfélagið betra.

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á að þessi nauðsynlega endurskipulagning samfélagsins muni takast vel á Íslandi segir Huginn að hann sé það vissulega. Ísland sé – rétt eins og samfélögin á hinum Norðurlöndunum – vel í stakk búið til að laga sig að þessum breytingum og gera það bezta úr þeim. Hinir samfélagslegu innviðir norrænu þjóðfélaganna séu það sterkir.

„Það þarf að laga tæknina að þörfum samfélagsins, ekki öfugt,“ segir Huginn. Og hann telji Norðurlöndin vel í stakk búin að stýra tæknibreytingum fjórðu iðnbyltingarinnar þannig að þær gagnist til framfara. Til að vel takist til þurfi líka að tryggja jöfnuð, það er að tryggja að til dæmis arðurinn af aukinni framleiðni af völdum tæknibreytinga safnist ekki á fárra hendur heldur nýtist sem flestum. Þetta sé hann bjartsýnn á að takist betur á Norðurlöndunum en víða annars staðar.

Framtíðarnefnd kortleggur framhaldið

Eftir þingkosningarnar síðast liðið haust var skipuð ný fagnefnd hjá Alþingi: Framtíðarnefnd. Samkvæmt sérákvæði sem sett var inn í þingskaparlög „skal nefndin m.a. fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu.“ Með öðrum orðum er það hlutverk nefndarinnar að fylgja eftir niðurstöðum skýrslu sérfræðinganefndarinnar frá 2019 og halda áfram að kortleggja þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin mun að líkindum valda á íslensku samfélagi. Formaður nefndarinnar fyrsta starfsárið er Logi Einarsson.

Í þriðju og síðustu grein þessa greinaflokks verður rætt við þá sem eru í nefndinni,  um það hvernig þeir sjá þessar breytingar fyrir sér og um það hvert hlutskipti eldra fólks á Íslandi muni að líkindum verða í þeim.

Á snjalltæknivæddu heimili framtíðarinnar mun tæknin hjálpa til við alls kyns þjónustu við íbúana. Mannlega þættinum getur hún þó ekki sinnt.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn júní 7, 2022 13:11