Vor í Brighton

hidlur FinnsdóttirHildur Finnsdóttir skrifar

Hann fæddist ekki með silfurskeið í munni en þrátt fyrir mikla fötlun, jafnt andlega sem líkamlega, er hann – eða réttar sagt var þar til um daginn – hamingjusamur ungur maður, alinn upp af ástríkri móður. Allt þeirra líf hefur að sjálfsögðu snúist um hans þarfir en ekki síður lífsfyllingu. Ferillinn er glæsilegur; það hefur varla verið sett upp sú leiksýning – og alls ekki ópera – í Reykjavík síðustu áratugi sem þau hafa misst af. Að ógleymdum tónleikum af öllum stærðum og gerðum því að smekkurinn er dásamlega breiður. Bækur hafa þau lesið í haugum og sjónvarpsherbergið er svo sneisafullt af geisladiskum með innlendu og erlendu efni að ókunnugur trúir ekki sínum eigin augum. Þarna er sennilega að finna allt leikið barnaefni frá fyrstu tíð, íslensk leikrit og kvikmyndir, útlendar óperuuppsetningar með heimsins frægustu söngvurum og svona mætti áfram telja. Og flest er þetta í stöðugri notkun. Maður fyllist hreinlega lotningu frammi fyrir þessari einbeittu menningarneyslu.

Frá barnæsku hefur okkar maður stundað tónlistarnám hjá sömu frábæru manneskjunni og verið meðlimur í dásamlegum bjöllukór ásamt fötluðum félögum sínum sem hafa verið jafn heppnir og hann með foreldra og leiðbeinendur. Ein og sama manneskjan hefur líka haldið utan um leiklistarhópinn þeirra, að mig minnir í ein tuttugu og fimm ár. Þau hafa sett upp sínar eigin leiksýningar, leikið í kvikmyndum, haldið úti fádæma vinsælum sjónvarpsþáttum, tekið þátt í a.m.k. einni leiklistarhátíð utanlands og í vor er stefnan sett á slíkan viðburð í Brighton á Englandi. Tilhlökkunin er mikil.

Um daginn gerðist svo það sem alls ekki mátti gerast; góða mamman, sískutlandi, þaulskipulagða mamman, datt og lærbrotnaði. Ekki á hálkunni illræmdu, því að svona ofurmamma tekur enga sénsa, heldur á rennisléttu gólfi í vinnunni sinni. Nú voru – og eru – góð ráð rándýr. Þótt ekki væri nú annað, má hún ekki svo mikið sem tylla í fótinn í átta vikur. Af þeim eru liðnar tvær plús ein á spítalanum fyrir aðgerð. Og því get ég lofað þér, lesandi góður, að þetta hafa verið þrjár lærdómsríkar vikur fyrir þau mæðgin og þá sem að þeim standa. Ég er ein af þeim og gæti nú þegar skrifað heila bók um tröppur og stiga, ferðaþjónustubíla sem ýmist koma of seint, of snemma eða alls ekki; þröskulda sem þarf að fjarlægja, dyrasíma sem eru endalaust í sendingu á leið til landsins; matarbakka sem sagðir eru eiga að berast á bilinu 11-15 en koma oftast korter í fimm o.s.frv. Mér er bara svo heitt í hamsi yfir því hve erfitt líf tveggja yndislegra vina minna er um þessar mundir að ég vil ekki leggja þann lestur á þig. Hins vegar finnst mér hreinlega of margt af þessum ósköpum vera af mannavöldum. Lífið hefur auðvitað alltaf verið þeim erfitt en aldrei hafa þau kvartað heldur lifað því svo aðdáunarlega lifandi.

Nú er bara að halda í vonina um vorsól í Brighton – fyrir þau bæði.

 

Hildur Finnsdóttir mars 7, 2016 11:26