Ein lítil pilla

Hildur Finnsdóttir

Hildur Finnsdóttir

Hildur Finnsdóttir skrifar

Um áramótin síðustu tókum við hjónin upp á því að færa okkur frá prívat heimilislækninum okkar til þrjátíu ára yfir til heilsugæslu miðbæjarins sem er í mjög þægilegu göngufæri. Okkur var tekið með kostum og kynjum og fyrr en varði vorum við komin með okkar eigin fasta lækni, yndislega dugnaðarmanneskju. Það virðist líka eiga við um allt hitt starfsfólkið; allir boðnir og búnir að aðstoða mann – með bros á vör og ekki vott af óþolinmæði í augunum. Nú vona ég auðvitað að svona sé þetta á sérhverri heilsugæslustöð landsins. Ég hafði bara satt að segja ekki reiknað með að að manni gæti liðið svona vel þegar manni liði illa – eða þannig.

Svo gerðust ósköpin. Þetta leit svo sem ekkert illa út í byrjun. Hafandi verið atvinnusjúklingur í nokkur ár er ég komin í þá ávanabundnu rútínu að skella í mig hálfri svefntöflu á kvöldin og fæ svo náðarsamlegast að taka hinn helminginn ef ég skyldi losa svefninn um miðja nótt (sem er auðvitað löngu orðið að rútínu líka). Hingað til hef ég vitaskuld með góðum fyrirvara haft samband við góðu konurnar í móttökunni og beðið þær að biðja lækninn að endurnýja birgðirnar á hinni stórkostlegu rafrás. Og í þetta sinn voru þær sem sagt uppurnar. Ekki að það ylli mér minnstu áhyggjum; hringdi bara á réttum lyfjaendurnýjunartíma að morgni og átti uppbyggjandi og gott spjall við konuna í búrinu um ástandið í heiminum, verkfallið sem hún var að fara í og spítalaaðgerðina sem ég á að fara í morguninn eftir að allsherjarverkfallið á að skella á. Ég varð heldur ekki hið minnsta óróleg þegar hún upplýsti mig um að það væri svokallaður námsdagur hjá lækninum mínum þennan dag en þarna væri sko enginn hörgull á góðu fólki sem færi lafhægt með að verða við óskum mínum. Svo gæti ég bara sótt nammið í næsta apótek þegar liði á daginn. Auðvitað; þannig gengur þetta fyrir sig.

Ég á fjarska góðan mann sem telur sko ekki eftir sér að skjótast fyrir konuna sína í apótekið og það var einmitt það sem hann gerði þennan tiltekna eftirmiðdag, skömmu fyrir lokun. Einmitt mátulega frískandi göngutúr fyrir roskinn mann. Þess vegna krossbrá mér þegar ég sá svipinn á honum við heimkomuna. Það hafði augljóslega eitthvað skelfilegt komið fyrir. Já, einmitt; þetta var mjög ekta skelfingarsvipur sem við mér blasti. Góðu konurnar í apótekinu höfðu nefnilega ekki fundið neitt nammi á rafrásinni á mínu nafni.

Nú var bara að taka jákvæðnina á þetta. Það fyrirfannst ekki betri aðferð til að komast að raun um hvort frúin væri raunverulega jafnháð þessum litlu hvítu pillum og hún taldi. Og svo hófst biðin eftir næsta lyfjaendurnýjunartíma. Morguninn eftir stóð ég auðvitað á því fastar en fótunum að ég hefði ekki sofið hímu alla nóttina en eiginmaðurinn, sem mér fannst vitaskuld að ætti að vorkenna mér ógurlega, var svo ósmekklegur að halda því fram að sjálfur hefði hann vaknað einhvern tíma um nóttina og þá hefði ég hreinlega verið sofandi.

Ég sofandi! Ég vissi ekki hvert ég ætlaði að komast – þetta hefði nú bara verið lauflétt mók sem hvert mannsbarn vissi að engin hvíld væri í, hvorki fyrir sál né líkama. Svo endurtók ég leikinn með góðu konunni í móttökunni (reyndar ekki þeirri sömu og daginn áður en sú var líka að fara í verkfall svo að samtalið varð áþekkt) og þar fékk ég loks umhyggjuna og samúðina sem maki minn til hálfrar aldar hafði ekki fattað að splæsa á mig fyrr um morguninn. Síðan tók við biðin eftir að tímabært væri að fá sér annan frískandi göngutúr út í apótek. Í þetta sinn kom hann í minn hlut og það var syfjuð og lúin manneskja sem kom heim úr þeirri ferð. Hún var þó geislandi glöð á svipinn og var mest lítið að vorkenna sér biðina eftir háttatímanum því að hún vissi að þá fengi hún hálfa hvíta pillu sem myndi gjörbreyta líðan hennar til batnaðar.

Hildur Finnsdóttir október 26, 2015 10:31