Félag eldri borgara og Grái herinn efna til útifundar á Austurvelli á morgun klukkan 17:00. Það er gert til að leggja áherslu á kröfu félagsins um mannsæmandi laun fyrir allt eftirlaunafólk. Grái herinn sem er baráttuhópur FEB telur brýnt að hækka sérstaklega laun þeirra verst settu og afnema skerðingarnar í tryggingakerfinu, sem gera til dæmis að verkum að fólki er gert ókleift að bæta kjör sín með því að vinna lengur. Félagið og Grái herinn telja að frumvarp Eygóar Harðardóttur húsnæðis- og félagsmálaráðherra gangi of skammt í þessum efnum, lægstu eftirlaun séu enn of lág, skerðingar of miklar og afnám frítekjumarks muni virkja letjandi á það að eldra fólk vinni lengur, alveg öfugt við það markmið stjórnvalda að fólk vinni lengur. Grái herinn telur að eldra fólk hafi dregist verulega aftur úr í kjörum á síðustu árum og það þurfi að leiðrétta strax. Á Facebook síðu Gráa hersins eru menn hvattir til að mæta á útifundinn. Hernum barst þessi póstur þar sem lífi og kjörum 72ja ára gamals karlmanns á höfuðborgarsvæðinu er lýst.
Ég geri ekkert frá morgni til kvölds nema hanga í tölvu. Ég bý einsamall. Ég er ekki í FEB. Spariféð kláraðist fljótt eftir að ég hætti að vinna 2011. Ég þarf lyf sem kosta að jafnaði um 3.000 krónur á mánuði , sótt í lyfjabúð á 3ja mánaða fresti. Það er ekkert eftir nema biðin. Ég hef ekki farið í miðbæ Reykjavíkur í um 25 ár og fer varla að staulast til að hlusta á jafnaldra mína reyna að koma vitinu fyrir daudumba alþingismenn sem hafa ekki í hyggju að rétta gamla fólkinu „mannsæmandi“ eftirlaun. Þrasað hefur verið um þetta málefni síðan ég fór á eftirlaun og ekkert hefur áunnist. Þrátt fyrir styrkari krónu lækkar ekki maturinn. Íslensku grænmeti er hent á haugana tonnavís í stað þess að lækka verðin og gera þeim efnaminni kost á að kaupa það. Allir vita þetta en loka augum og eyrum. Það er ekki nóg að hafa fjöldafund í miðbæ Reykjavíkur í 1 klukkustund. Það ætti að stofna stjórnmálaafl sem setti málefni eldri borgara á Íslandi á stefnuskrá sína. Þá myndi ég vita hvað ég ætti að kjósa. Það er ekkert afl í framboði nú sem ÉG treysti.
Grái herinn er ekki að stofna stjórnmálaflokk, að minnsta kosti ekki að sinni, en hvetur til samstöðu eldra fólks um að sækja leiðréttingar á kjörum sínum til stjórnvalda. Að öðrum kosti muni lítið gerast. Síðar í þessum mánuði, þann 28. September, verður haldinn borgarafundur í Háskólabíói, þar sem forystumenn stjórnmálaflokkanna sitja fyrir svörum varðandi það sem þeir eru tilbúnir að gera til að bæta kjör elstu kynslóðarinnar í landinu. Grái herinn hvetur fólk einnig til að mæta þar. Framkvæmdastjóri Félags eldri borgara bendir á að eftirlaunamenn hér á landi eru nú um 40.000, sem jafngildir 40.000 atkvæðum.