Fólk sem telur sig hafa misst vinnuna vegna aldurs snýst til varnar

Á síðu bandarísku eftirlaunasamtakanna www.aarp.org er rætt við þrjá eldri launþega sem telja að sér hafi verið sagt upp störfum vegna aldurs, þar af tvær konur. Önnur þeirra starfaði sem sölumaður hjá fyrirtæki sem stundar rannsóknir í læknisfræði. Hún var 52 ára þegar henni var sagt upp eftir 26 ár hjá fyrirtækinu. Þar hafði reynsla og þekking verið mikils metin, en svo var skipt um stjórnendur. Skipulagi starfsins sem hún gengdi var breytt, þannig að hún átti erfiðara en áður með að mæta kröfunum sem voru gerðar og á endanum var henni sagt upp fyrir að standa sig ekki nógu vel. Hún fór í mál við fyrirtækið, á þeim forsendum að uppsögnin hefði verið liður í að losa sig við eldri starfsmenn, en ráða í stað þeirra yngra fólk sem minni kröfur voru gerðar til. Lögmaður hennar segir að fyrirtækið hafi vísvitandi brotið lög, með því að reka hana og 100 aðra eldri starfsmenn fyrir lélega frammistöðu í starfi til að þurfa ekki að gera við þá starfslokasamning. Hann segir að taka þurfi hvert og eitt mál út af fyrir sig, því enginn sé svo vitlaus að segja við fólk, „þér er sagt upp vegna aldurs“.

Tekur peningana og lætur sig hverfa

Karlmaður sem starfaði hjá stóru heilsugæslufyrirtæki Johnson&Johnson beið eftir að fá viðurkenningu eftir tíu ára starf hjá fyrirtækinu, en fékk í staðinn uppsagnarbréf. Hann hefði átt rétt á eftirlaunagreiðslum ef fyrirtækið hefði tekið með í reikninginn þau 8 ár sem hann vann hjá lyfjafyrirtæki sem Johnson&Johnson keypti og tók yfir. „Maður fer að velta fyrir sér að fara í mál á grundvelli mismunar vegna aldurs, en fyrirtækið bauð starfslokasamning gegn því að menn afsöluðu sér rétti til málshöfðunar. Það er eins og að láta setja á sig gyllt handjárn, maður tekur peningana og lætur sig hverfa“.

Erfitt að kenna gömlum hundi að sitja

Þá hefur Wal-Mart keðjunni í Bandaríkjunum verið stefnt fyrir að brjóta gegn starfsmanni og segja honum upp vegna aldurs. Það er Jafnréttisnefnd atvinnumála (EEOC) í Bandaríkjunum sem rekur málið. Atvikið átti sér stað í verslun félagsins í Texas. Jafnréttisnefndin segir að verkstjóri í búðinni hafi gert lítið úr David Moorman sem var þar stjórnandi. Hann var kallaður „gamli maðurinn“ (Hann var 52 ára þegar atvikið átti sér stað) og „maður gamla matarins“. Verkstjórinn sagði líka við hann að það væri „erfitt að kenna gömlum hundi að sitja“. Þegar Moorman kvartaði undan þessu við mannauðsstjórann, gerðist ekkert. Þvert á móti jókst áreitnin og að lokum var Moorman rekinn úr starfi. Jafnréttisnefndin heldur því fram að hann hafi verið rekinn vegna aldurs.

Ekkert þeirra fyrirtækja sem þarna um ræðir hafa viljað segja neitt um ásakanir um að þau hafi beitt fólk mismunun vegna aldurs, þegar því var sagt upp störfum. Það skal líka skýrt tekið fram að  þeim málum sem voru höfðuð er ekki enn lokið fyrir dómstólum.

Ritstjórn ágúst 22, 2014 14:56