Ellilífeyrir heldur ekki í við launaþróun

Haukur Arnþórsson

Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur skrifar:

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019 kom fram í mánuðinum. Eins og vera ber eru málefni aldraðra fyrirferðarmikil. Þau fá úthlutað samtals 81,2 milljörðum króna sem skiptast í þrjá útgjaldaflokka:

1) Gjöld samkvæmt lögum um málefni aldraðra, sem einkum er ellilífeyrir. – 74,3 milljarðar.

2) Gjöld vegna laga um félagslega þjónustu, sem einkum er heimilisuppbót o.fl. – 6,8 milljarðar.

3) Gjöld vegna annarra lagaákvæða um þjónustu við aldraða, t.d. tannlæknaþjónustu. – 26 milljónir.

Hækkanir milli ára eru 6,5%. Varðandi ellilífeyri eru 3% upphæðarinnar vegna fjölgunar aldraðra, en 3,5% vegna hækkunar á ellilífeyri. Óskertur ellilífeyrir mun hækka um nálægt 8.400. Heimilisuppbótin mun einnig hækka um 3,5% eða um nálægt 2.100 kr.

Samkvæmt lögunum um aldraða er skylda að ellilífeyrir taki hækkunum samkvæmt neysluvísitölu, að teknu tilliti til launabreytinga á vinnumarkaði. Neysluvísitala hefur hækkað um nálega 2,5% þannig að í frumvarpinu er einu prósenti bætt við vegna launabreytinga. Launavísitala hefur hins vegar hækkað um 6%-7,3% milli áranna 2017-2018, eftir því hvaða viðmiðunarmánuður er notaður. Það vantar því um þrjú prósentustig upp á að ellilífeyrir haldi í við núverandi launaþróun. Segja má að viðmiðunin við neysluverð sé alls óviðeigandi, enda hafa laun hækkað töluvert meira en verðlag á síðustu áratugum. Því er byggt inn í lögin að í sundur dragi með ellilífeyri og launum á vinnumarkaði.

Ef litið er til þess hvað annað gæti komið öldruðum vel í fjárlögum ársins 2019 – og sem ekki er enn komið fram, þá er rétt að muna að starfandi er nefnd á vegum velferðarráðuneytisins um kjör aldraðra. Hún mun skila af sér seint í haust ef að líkum lætur. Formaður hennar er Haukur Halldórsson. Það er m.a. hennar hlutverk að raungera vonir og væntingar um bætur á kjörum aldraðra sem fram komu í aðdraganda síðustu kosninga.

Þá hafa einnig verið gefin loforð um að ríkið leggi fram fjármagn til þess að bæta hag þeirra lægst launuðu til að liðka fyrir gerð kjarasamninga í vetur. Þeir eru lausir frá áramótum á almennum vinnumarkaði og hjá opinberum starfsmönnum í framhaldinu. Ef um skattalækkanir verður að ræða þá munu aldraðir njóta þeirra eins og aðrir, en vissulega skiptir máli hvernig þær verða.

Ritstjórn september 26, 2018 09:43