Aldursmismunun að segja fólki upp störfum vegna aldurs

Landssamband eldri borgara stendur að baki dómsmáli þar sem Reykjavíkurborg er stefnt vegna sjötugs kennara, sem var sagt upp vegna aldurs. Uppsögnin byggir á reglu sem felur það í sér að starfsfólk borgarinnar verður að láta af störfum sjötugt. Landssamband eldri borgara telur aftur á móti að aldur segi ekkert til um hversu hæfur viðkomandi einstaklingur sé til að sinna tilteknu starfi.  Það sé ómálefnalegt að ákveða að 70 ára fólk geti ekki sinnt starfi vegna aldurs.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

Niðurlægjandi að fá uppsögn vegna aldurs

En hvernig stóð á því að Landssambandið ákvað að fara í mál við borgina? Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir formaður LEB segir að ástæðan sé sú, að sífellt fleiri eldri borgarar hafi leitað til sambandsins vegna aldurstengdra uppsagna sem þeim finnst niðurlægjandi. Þessi mál hafi líka verið í deiglunni í Evrópu og þar sé þetta talin aldursmismunun. „Eftir að hafa skoðað þetta mál og rætt við nokkra aðila, ákváðum við að ræða við Daníel Ísebarn Ágústsson lögmann. Við höfðum líka samband við konu sem okkur fannst heppilegur kandidat, en hún var kennari hjá borginni. Í haust var svo höfðað dómsmál með því að Reykjavíkurborg var birt stefna í máli sem var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur“.

Er enn að störfum 75 ára gamall        

Þórunn telur að það eigi ekki að vera neitt aldurstakmark, þegar kemur að störfum fólks á vinnumakaði. „Lífaldur fer hækkandi og margir eru við góða heilsu. Við þurfum því að horfa öðruvísi á efri árin en við höfum gert. Það var læknir í Bretlandi sem fór í mál þegar honum var sagt upp vegna aldurs. Hann vann málið og er enn að störfum 75 ára gamall. Niðurstaðan í Bretlandi var að þetta væri aldursmismunun og það er verið að afnema þetta víða. En flest ríki eru með aldurstakmark þegar kemur að eftirlaunaaldrinum“.

Alltaf spurning um val

En er ekki hætta á að eldra fólk vinni of lengi og þekki ekki sinn vitjunartíma þegar kemur að því að hætta störfum? Þórunn segir að þessi tónn hafi heyrst lengi. „Þetta er alltaf val fólks“, segir hún. „Heilsan er misjöfn þannig að þetta verður alltaf spurning um val. Það eru líka mýmörg dæmi um að eldra fólk hafi reynst ómetanlegt í sínum störfum og jafnvel verið beðið um að vinna lengur“. Þórunn bendir á dæmi bæði frá Húsasmiðjunni og BYKO. „Horfðu svo á bændur, það segir þeim enginn að hætta að vinna þegar þeir eru sjötugir og þetta er hópur sem er yfirleitt við mjög góða heilsu“.

Drjúgur hópur eldra fólks enn í vinnu

Þórunn segir að sumum finnist vont að hætta að vinna, en öðrum ekki. „Menn meta þetta útfrá heilsunni. Sumir vilja afla meiri tekna ef þeir geta, aðrir vilja hafa félagsskap og vera innanum fólk. Það er enginn að segja að allir eigi að vinna eftir sjötugt“, segir hún og bætir við að það sé nokkuð drjúgur hópur eldri borgara sem sé enn að vinna. „Þetta er stærri hópur en við höldum, svo sem leiðsögumenn og fólk sem situr yfir í prófum. Þeir hafa margir stofnað fyrirtæki í kringum sín störf og teljast því ekki með launþegum. Sumir fá að vera áfram í hlutastörfum á sínum vinnustað þegar þeir eru hættir, en þá er fólk að missa réttindi. Það fylgja því líka ókostir fyrir vinnuveitandann og þess vegna þarf að finna lausnir“.

 

Ritstjórn janúar 24, 2020 12:10