Grái herinn í Danmörku

„Líf eldra fólks í Danmörku er auðvitað mjög keimlíkt því sem við þekkjum hér á landi, en danskt þjóðfélag er óneitanlega afslappaðra og vingjarnlegra. Þess njóta allir,“ segir Helgi Pétursson baráttumaður í Gráa hernum sem hefur dvalið undanfarin þrjú og hálft ár í borginni Horsens á Mið- Jótlandi.  „Fyrstu misserin í Horsens vorum við svolítið eins og au-pair fólk hjá eldri dóttur okkar, hennar danska manni og þremur börnum, en við höfðum góð tækifæri til þess að gera alls konar hluti, – ferðast og njóta þess sem danskt þjóðfélag býður.¨

„Maður gat staðið upp frá eldhúsborðinu þar sem ég var að sjá um Facebook síðu Gráa hersins, farið út í bíl  og ekið niður Evrópu“,  segir Helgi

Covid setti strik í reikninginn, segir Helgi og að það hafi, auk vaxandi barnabarnafjölda á Íslandi orðið til þess að þau sneru til baka.  „Og ég mundi ekki vilja vera í Danmörku eða á hinum Norðurlöndunum þessa dagana.  Ástandið hér á Íslandi er hreinn barnaleikur í samanburði við það sem þær þjóðir eru að kljást við“.

Helgi segir lífskjör eldra fólks í Danmörku á margan hátt mjög svipuð og hér, „en það segir sig sjálft að fólk sem ekki hefur búið við verðbólgu. verðtryggingu og okurvexti mestan part ævinnar getur átt ánægjulegra ævikvöld.  Það er líka viðtekin skoðun allra, líka yngri kynslóðanna, að fólk eigi að eiga ánægjulegt ævikvöld, hafa möguleika til þess að ferðast og njóta.“   Allir njóta líka lægra matarverðs, lægri húsnæðiskostnaðar og fleiri þátta.

„Eins og alls staðar er deilt um hvort norræna velferðarkerfið sé að skila sér til eldra fólksins þegar á reynir“, segir Helgi.  „Það er skortur á starfsfólki í umönnun, fólk er einmana og einangrað heima hjá sér – allt hluti af umræðu sem við þekkjum. En, – og það skiptir máli – fólk brosir til hvers annars og ég upplifði það oft að það var hliðrað til fyrir mér, af því að ég var eldri“.

Mikið er um að eldra fólki séu boðin sérkjör og afslættir.  Afgreiðslufólk í verslunum passi upp á að eldra fólk fái þann afslátt sem í boði er.  Sérkjör séu í boði fyrir eldra fólk á ákveðnum tímum í lestum, ferjum og hjá rútufyrirtækjum.  Og þá afsláttur sem muni um. „Helmingsafsláttur er vel þekktur og þá sérstaklega þegar verið er að hvetja eldra fólk til þess að ferðast um landið, – mjög hægstæð tilboð á gistingu og veitingum í miðri viku eru alþekkt“.

„Það segir sig sjálft að 5,8 milljóna manna þjóðfélag með viðurkenndan gjaldmiðil getur haldið úti meiri þjónustu en 370 þúsund manna örsamfélag við ysta haf“, segir Helgi. Hann hafi greitt mjög sanngjarnt verð fyrir þjónustu tannlæknis, en annars ekki þurft að greiða fyrir læknisþjónustu eða rannsóknir þennan tíma sem þau dvöldu í dönsku samfélagi.

„Fólk fær hér grunnlífeyri sem ekki er skertur og síðan viðbótarlífeyri sem getur verið mjög mismunandi.  Skerðingar á honum mega þó ekki fara yfir 30% og rétt er að taka fram að Danir eru líka með umfangsmikið kerfi húsnæðisbóta og tekjutrygginga“, segir Helgi. Erfitt sé að bera saman gegnumstreymiskerfi þeirra og söfnunarkerfi okkar. „Og eitt enn sem er mjög frábrugðið og við Íslendingar þyrftu að taka upp af fullri alvöru:  Menn huga að lífeyrismálum sínum frá fyrsta vinnudegi. Ungt fóllk veltir vandlega fyrir sér hvað lífeyrismöguleikar fylgja þessu og hinu starfi og mér er mjög til efs að danskur almenningur komi alveg af fjöllum þegar hann kemst á lífeyristökualdur¨.

Ritstjórn febrúar 3, 2021 09:00