Við 70 ára aldur þarf að endurnýja almenn ökuréttindi en áður en sótt er um endurnýjun á almennum ökuréttindum þarf að framvísa læknisvottorði og mynd. Valgerður Bjarnadóttir þingmaður spurði Ólöfu Nordal innanríkisráðherra að því á Alþingi í vikunni hvort það væri ekki ástæða til að endurskoða ákvæði um endurnýjun ökuskírteina eftir 65 ára aldur. „Mér fannst kostulegt að sjá í reglugerð um endurnýjun ökuskírteina eða útgáfu ökuskírteina fyrir fólk sem hefur náð 65 ára aldri að gerð var krafa um læknisvottorð en fram að þeim aldri nægir heilbrigðisyfirlýsing . Það þýðir þá væntanlega að fólk lýsi því yfir að ekkert hrjái það sem hindri að það geti ekið bíl. Ég skil ekki almennilega hvers vegna þetta aldursviðmið er sett. Við eftirgrennslan sá ég að í Danmörku er þessi krafa gerð við 75 ára aldur.“ sagði Valgerður og vildi fá að vita hvort einhverjar vísindalegar ástæður liggi þar að baki þessu aldurstakmarki. „Eða hvort einhver hafi einfaldlega rétt puttann upp í loft og sagt: Já, það er sniðugt að hafa þetta við 65 ára aldur. Hér á landi þurfa allir að endurnýja ökuskírteini sín við 70 ára aldur og fá þá lengst framlengt í fimm ár. Í Danmörku er þessi þröskuldur settur við 75 ára aldur. Þegar fólk er 75 ára fær það aftur framlengt ökuskírteini í fimm ár eða til áttræðs. Eftir það þarf að endurnýja ökuskírteinið einu sinni á ári. Og af því að ég hef tekið mið af Danmörku hér að framan þá gildir það sama þar, eftir áttræðisaldur þarf að endurnýja ökuskírteini árlega,“ sagði Valgerður
Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði að það hefði verið ákveðið árið 1997 að fólk yrði að skila læknisvottorði við 65 ára aldur. “ Fram til 1997 var í gildi mun strangari regla en þá þurfti umsækjandi um endurnýjun að framvísa læknisvottorði óháð aldri. Við endurskoðun reglna um ökuskírteini og samræmingu við reglur innan EES-svæðisins var sú ákvörðun hins vegar tekin að í stað læknisvottorðs mætti styðjast við yfirlýsingu umsækjanda um eigið heilbrigði.“Innanríkisráðherra sagði að reglum um endrunýjun ökuskírteina hefði verið breytt á síðasta ári. „Áður gilti að sá sem endurnýjaði ökuskírteinið fyrir 70 ára aldur fékk ekki framlengingu nema til 70 ára aldurs. Núgildandi reglur kveða á um að endurnýjun sé ætíð veitt til fimm ára þegar til endurnýjunar kemur, frá 65 ára aldri og þar til 70 ára aldri er náð. Eftir það styttist endurnýjunartíminn í áföngum.“ Og ráðherrann telur að þessar reglur megi endurskoða. „Mér finnst að það eigi að skoða hvernig reynslan hefur verið hérlendis í samanburði við önnur lönd. Það mætti t.d. skoða hvort ekki sé eðlilegt að miða við 70 eða 75 ára aldur. Mér finnst reyndar alveg eðlilegt að skoða 75 ára aldur þegar krafist er læknisvottorðs við endurnýjun ökuskírteinis. Við sjáum að það er í samræmi við þær reglur sem við horfum á í Danmörku og Noregi þar sem þessi aldur var nýlega hækkaður í 75 ár,“ sagði Ólöf og bætti við að engin vinna vær í gangi í ráðuneytinu er varðaði þetta mál. „Hins vegar finnst mér full rök til þess að það verði skoðað.“