Missti vinnuna og kötturinn dó

Nora Seed hætti við að giftast Dan tveimur dögum fyrir brúðkaupið. Hún lét glæsilegan sundferil sinn lönd  og leið þegar hún var unglingur og einnig drauminn um að slá í gegn á heimsvísu með hljómsveitinni Labyrinths.  Á tímabili langaði hana að verða jöklafræðingur. Hún lærði í heimspeki  í London en sneri aftur til heimabæjarins Bedford og fékk vinnu í hljóðfæraverslun. Svo var henni sagt upp. Kötturinn hennar dó. Hún var blönk. Nora var orðin dauðuppgefin á lífinu og ákvað að stytta sér aldur.

Þannig má í stórum dráttum lýsa ævi aðalsögupersónunnar í alþjóðlegu metsölubókinni Miðnæturbókasafnið eftir Matt Haig sem Benedikt bókaútgáfa gaf út. Valgerður Bjarnadóttir þýddi bókina.

Þegar Nora tekur tekið of stóran skammt til að enda líf sitt, lendir hún á Miðnæturbókasafninu þar sem Frú Elm, sem var bókavörður í skólabókasafninu í Bedford þegar Nora var að alast þar upp, ræður ríkjum. Þetta er ekkert venjulegt  bókasafn og það kemur fram strax í upphafi bókarinnar.

Það er bókasafn milli lífs og dauða,“ sagði hún. Hillurnar á bókasafninu taka engan enda. Sérhver bók veitir tækifæri á annarri ævi sem maður hefði getað átt. Til að sjá hvernig hlutirnir hefðu getað orðið ef maður hefði breytt öðruvísi….Hefðir þú gert eitthvað öðruvísi ef þú ættir möguleika á að breyta því sem þú sérð eftir?“.

Þannig getur Nora lesið bækur um hinar ýmsu ævir sem hún hefði getað átt, ef hún hefði tekið aðrar ákvarðanir en hún gerði. Við grípum niður í bókinni þar sem Nora er þar stödd, að hún hefur í stað þess að hætta í Labyrinths orðið heimsfræg með hljómsveitinni.

Það var æðislegt til þess að hugsa að þessi ævi væri til ásamt öðrum ævum hennar í fjölheiminum, rétt eins og hver annar tónn í hljómi.

Noru fannst ógerlegt að trúa því að á sama tíma og hún átti í erfiðleikum með að borga húsaleiguna vekti hún á annarri ævi svona mikla hrifningu fólks um allan heim.

Nokkrir aðdáendur sem höfðu kvikmyndað komu hennar á hótelið biðu nú eftir að fá eiginhandaráritanir. Þeir virtust ekki hafa áhuga á hinum í hljómsveitinni, en voru ólmir í að eiga samneyti við Noru.

Noru varð starsýnt á eina stúlkuna þegar hún gekk til þeirra svo brakaði í mölinni. Hún var með húðflúr og leit út eins og kvikmyndastjarna frá þriðja áratugnum sem hafði óvart ratað inn í dystópíska framtíðarmynd. Hún var með alveg eins hárgreiðslu og Nora, meira að segja hvíta strípu.

Nora! Noraaaah! Hæ! Við elskum þig drottning! Takk fyrir að koma til Brasilíu! Þú rokkar! Síðan hófst taktfast sönglið: Nora! Nora! Nora!

Á meðan hún gaf eiginhandaráritanirnar, ólæsilegt krass, fór rúmlega tvítugur maður úr stuttermabolnum og bað hana að skrifa á öxlina á sér.

„Ég ætla að láta tattóvera það,“ sagði hann.

„Í alvörunni?“ sagði hún og skrifaði á skrokk mannsins

„Þetta er hápunktur lífs míns,“ gusaðist út úr honum. „Ég heiti Francisco.“

Nora velti fyrir sér hvernig mætti vera að það væri hápunktur tilveru hans að hún skrifað með tússpenna á húðina á honum.

„Þú bjargaðir lífi mínu. „Fegurð himinsins“ bjargaði lífi mínu. Þetta lag. Það er svo mikill kraftur í þvi.“

„Ó, Ó, vá. „Fegurð himinsins“?. Þekkirðu „Fegurð himinsins“?

Aðdáandinn hló móðursýkislega. „Þú ert svo fyndin! Ég bókstaflega elska þig! Þekki ég „Fegurð hiinsins“‘ Algjörlega frábært!“

Nora vissi ekki hvað hún ætti að segja. Þetta litla lag sem hún hafði samið nítján ára gömul í Háskóla í Bristol hafði breytt lífi manneskju í Brasilíu Þetta var yfirþyrmandi.

Þetta var greinilega ævin sem var ætluð henni Hún efaðist um að hún þyrfti nokkru sinni að fara aftur á bókasafnið. Hún réð mjög vel við að dáðst væri að henni. Það var betra en að vera í Bedford í strætó númer 77 raulandi dapra söngva fyrir rúðuna.

Þetta er bara ein af mörgum ævum sem Nora hefði getað átt, en í bókinni er því einnig lýst hvernig ævi hennar hefði orðið ef hún hefði gifst Dan, ef hún hefði haldið áfram að synda og komist á Olympíuleikana, ef hún hefði orðið jöklafræðingur og svo framvegis. Þetta er forvitnileg lesning og til að vita meira um örlög Noru er bara að útvega sér Miðnæturbókasafnið og halda áfram að lesa, en bókin er virkilega vel skrifuð og þýdd. Aftan á  bókarkápunni  segir:  „Þetta er falleg saga sem vekur til umhugsunar um hvernig öll breytni okkar hefur afleiðingar. Og við höfum val“.

 

Ritstjórn október 25, 2022 14:41