Ekki gleyma að endurnýja ökuskírteinið fyrir sjötugt

Þegar menn verða sjötugir þarf að endurnýja almenn ökuréttindi. Umsækjandi sem er orðinn 65 ára eða eldri þarf að framvísa læknisvottorði frá heimilislækni þegar hann sækir um endurnýjun. Gefi annar læknir vottorðið út þarf umsækjandi að upplýsa hvers vegna. Vottorðið má ekki vera eldra en þriggja mánaða þegar sótt er um.  Einnig þarf að koma með nýlega passamynd með sér til að nota við fyrstu endurnýjun skírteinisins.

Kjartan Þórðarson sérfræðingur hjá Samgöngustofu segir að áður fyrr hafi þeir sem endurnýjuðu ökurskírteinið fyrir sjötugt, kannski 68 ára, einungis fengið skírteini sem gilti í tvö ár, eða fram að sjötugu. Nú sé það breytt og þeir sem endurnýji rétt fyrir sjötugt fái nýtt skírteini sem gildi í fimm ár.

Hér má sjá töflu frá Samgöngustofu yfir það hvernig endurnýjunin gengur fyrir sig.

Það er ástæða til að fylgjast með því að ökuskírteinið renni ekki út. Kjartan segir að renni ökuskírteinið út og meira en tvö ár líði þar til sótt sé um endurnýjun, þurfi menn að fara í próf í aksturshæfni áður en skírteinið fáist endurnýjað. Það sé samt ekki þannig að menn þurfi að taka bílprófið uppá nýtt, bæði skriflegt og verklegt. Einungis próf í ökufærni.

Samgöngustofa hefur ásamt Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, haldið námskeið fyrir eldri borgara um öryggi í akstri. Kjartan segir þetta gert til að gera eldra fólkið öruggara og gera því kleift að vera lengur á bílnum.

Það er mismunandi hversu erfitt það er fyrir fólk að hætta að keyra, þegar þar að kemur. „Sumir eru mjög þrjóskir“, segir Kjartan. „Sérstaklega karlar. Rannsóknir hafa sýnt að konur eru raunhæfari í sjálfsmatinu þegar kemur að ökufærni en karlar“.

Sótt er um endurnýjun ökuskírteinis hjá sýslumönnum landsins. Almennt ökuskírteini kostar núna 5.900 krónur, en ökuskírteini fyrir 65 ára og eldri kostar 1.650 krónur.

 

 

 

Ritstjórn apríl 27, 2017 14:46