Einar Sigurmundsson skrifar
Veitingahúsið Röðull var stofnað í Skipholti 19 í Reykjavík árið 1957, nánar tiltekið á horni Skipholts og Nóatúns, en áður var staður með því nafni rekinn að Laugavegi 81. Í Fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar segir að Ólafur Ólafsson veitingamaður hafi innréttað tvær hæðir sem hvor um sig var um 300 fermetrar að stærð. Samtals rúmaði staðurinn 220 gesti. Vegna þess að innréttingin tók lengri tíma og var dýrari en áætlað var, lenti Ólafur í fjárhagsörðugleikum og varð að lokum að selja Helgu Marteinsdóttur staðinn.
Kalt borð fyrir ball
Á Röðli voru ávallt skemmtikraftar og hljómsveit sem lék fyrir dansi og má þar nefna hljómsveitarstjóra svo sem Árna Elfar, Magnús Ingimarsson og Hrafn Pálsson. Söngvarar voru meðal annarra Haukur Morthens, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Þuríður Sigurðardóttir sem minnist Helgu í viðtali síðar:
Það var yndislegt að vinna fyrir Helgu Marteinsdóttur, sem átti Röðul. Hún var oft frammi í anddyrinu á kvöldin í peysufötum. Röðull varð eins og annað heimili manns. Alltaf matur á kvöldin og reiknað með því að við kæmum í mat. Helga hugsaði vel um fólkið sitt og ég á t.d. dýrindis hálsmen frá henni sem hún gaf mér þegar ég varð tvítug. Ég starfaði með hljómsveit Magnúsar á Röðli í fimm ár
Ekki var bara boðið upp á söng og dans heldur var líka matur til sölu og í blaðagrein frá árinu 1962 segir frá því að „…Röðull hafi tekið upp þá nýlundu í rekstrinum að framreiða kalt borð milli 7-9 hvert kvöld.“ Var þar einnig boðið upp á „veigar dýrar sem vel voru drukknar“. Fimm árum síðar er Helga spurð hvað sé vinsælasti rétturinn á Röðli og þá er það „Röðuls special“ sem er stór brauðsneið með humri, rækjum, skinku og salati sem sé alveg heil máltíð.
Röðull of vinsæll?
Helga rak staðinn ásamt tengdasyni sínum Ragnari Magnússyni, en hún var 66 ára þegar að hún tekur við Röðli. Hún mætti á hverjum degi á Röðul um klukkan þrjú og fór alltaf síðust og var þá búin að gera upp við starfsfólk og listamenn sem tróðu upp, ásamt því að panta það sem til þurfti. Hún vakti nokkra athygli því hún var alltaf klædd í íslenskan búning og stýrði sínum stað af röggsemi. Hún segir í viðtali að bæði ungt og gamalt fólk sæki staðinn og bætir við:
Við hleypum engum inn, sem ekki er 21 árs. Ég hef alltaf lagt mikla áherzlu á það. Röðull er afskaplega vinsæll staður, stundum of vinsæll liggur mér við að segja. Það er takmarkað hvað hægt er að hleypa mörgum inn. Hingað kemur gott fólk. Unga fólkið er yndislegt, afar elskulegt og gott. Við höfum alltaf fengið gott fólk til okkar.
Einnig þakkar hún góðu starfsfólki sem hún segir allt vilja fyrir sig gera og hafi starfað hjá sér í langan tíma.