Tengdar greinar

Vondir menn og góðir

Er manneskjan góð í eðli sínu eða leynist illskan undir niðri hjá okkur öllum? Það má segja að Robert Louis Stevenson hafi ætlað sér að svara þeirri spurningu í nóvellunni Hið undarlega mál Jekylls og Hydes. Sagan er löngu orðin klassísk og þykir enn í dag ómetanleg tilraun til að að skoða inn í sál manna og velta fyrir sér uppsprettu grimmdar og miskunnarleysis.

Sagan kemur fyrst út árið 1886. Á þeim tíma eru heimspekingar og menntamenn farnir að draga í efa tilvist guðs og spurningin um hvernig menn haldi siðareglur og virði mannlega reisn verður áleitin þegar ekki er lengur neitt yfirvald til að hafa eftirlit með þeim. Robert Louis Stevenson hafði svo sem áður skoðað tvíeðli mannsins og velt fyrir sér þeirri staðreynd að allir eru færir um að fremja illvirki. Enginn er algóður né alvondur. Rómantíska stefnan er þarna að líða undir lok með sögum sínum af göfugum einstaklingum sem rísa yfir og skína þrátt fyrir að vera í hræðilegum aðstæðum. Rithöfundar Viktoríutímans eru efagjarnari. Þeir trúa ekki að menn fæðist góðir eða vondir né heldur að göfgi erfist. Á sama tíma eru vísindamenn teknir að skoða sálarlíf mannsins og skilgreina gerðir hans út frá öðrum forsendum.

Sagan af Dr. Jekyll og Mr. Hyde talar inn í þennan samtíma og sýnir hvernig einstaklingur getur verið í senn góður og vondur og lifað tvöföldu lífi. En hér er einnig verið að skoða hvernig vísindi og trú togast á og erfitt getur verið að sameina þetta tvennt. Almennt töldu menn að trúin væri nokkurs konar siðferðilegur ventill og setti mönnum skorður. Þegar efahyggja varð útbreiddari áttu þeir því erfitt með að sjá fyrir sér hvað myndi þá taka við og halda aftur af almennri ringulreið.

Hr. Hyde er illmenni og einstaklega ófríður og óaðlaðandi í útliti. Honum er lýst að sumu leyti eins og apa eða dýri en varla nægir útlit hans eitt og sér til að skýra hvers vegna hann er svo grimmur. Að mati höfundar er augljóst að illskan blundar í öllum þar til eitthvað vekur hana. Þetta er áhugavert ef menn hafa í huga að fjórum árum eftir að nóvella Roberts Louis kemur út sendir Oscar Wilde frá sér söguna, Myndin af Dorian Grey, en þar mæta menn illsku í fögru skinni sem nær að dyljast vegna þess að málverk á háaloftinu hylur hið raunverulega eðli Dorians fyrir öðrum.

Í Glæp og refsingu eftir Fjodor Dostojevskíj drepur ungur maður, stúdentinn, Raskolnikov, gamla kerlingu og stelur peningunum hennar. Hún er samviskulaus okurlánari og hann réttlætir glæpinn með því að líf hans og framtíð séu verðmætari en líf kerlingar og því hafi hann í raun ekki gert annað en það sem honum var nauðugur einn kostur til að lifa af. Ákveðin landhreinsun hafi einnig verið að því að leysa kerlinguna úr þessum heimi. En samviskan lætur hann ekki í friði. Enn í dag eru þær áleitnu siðferðisspurningar sem þarna eru settar fram lesendum tilefni til vangaveltna og ígrundunar. Eiginlega er nauðsynlegt að taka reglulega fram þessar sögur, ræða þær og velta fyrir sér boðskap þeirra ekki síst vegna þess að núorðið virðast menn eiga ótrúlega auðvelt með að réttlæta fyrir sér alls konar illvirki.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 20, 2024 07:00