Wilhelm W.G.Wessman 16. október 2017
Sá tími ársins var genginn í garð þegar skorpnaður jarðvegur Zimbabwe á hásléttu Afríku beið eftir regni til að geta klætt rauðu moldina í grænan búning á örskotsstund. Frumbyggjar landsins segja að litur moldarinnar stafi af blóðinu sem úthelt hefur verið fyrir fósturjörðina.
Himinninn hafði verið þakinn kólguskýjum dag eftir dag og gengið á með þrumum og eldingum, en ekki komið dropi úr lofti. Dagsbirtan minnti á desemberdag í Reykjavík með hríðarhraglanda. Gvendarbrunnar okkar Harare búa, Lake Chivero, voru að þorna upp og vatnið í morgunsturtunni var ryðrautt. Regntíminn lét standa á sér.
Við Ólöf kviðum hálfpartinn fyrir jólunum. Þau yrðu einmanaleg. Vinir okkar breskir og sænskir ætluðu að fara til síns heima að halda jól. Verkefnastaðan hjá mér leyfði það ekki að við færum heim í frí. Yfirbragð þessarar miljón manna borgar breyttist í drunga svefnbæjar á stórhátíðum, allir sem gátu fóru heim í þorpin sín, veitingahús voru flest lokuð og lítið um aðra afþreyingu en að sitja á hörðum kirkjubekkjum.
Ég átti erindi í Barclays bankann á First Street skömmu fyrir jól. Þegar ég kom inn í götuna heyrði ég ákafa skothríð og sá þrjár manneskjur falla af völdum skothríðar frá lögreglunni, en allir lögreglumenn eru vopnaðir vélbyssum. Ég forðaði mér í skjól. Daginn eftir var lítil klausa á þriðju síðu í The Herald, málgagni ríkistjórnarinnar, þar sem skýrt var frá því að lögreglan hefði handtekið þrjá þjófa á flótta sem rænt höfðu ritvélum úr búð með notaða muni á First Street. Því miður hefðu þrír vegfarendur fallið í aðgerðum lögreglunar, þar af ein barnshafandi kona sem var komin átta mánuði á leið. Eftir að hafa lesið fréttina tók ég upp símann og hringdi í SAA (South African Airways) og pantaði flug til Cape Town 22. desember. Um kvöldið settumst við Ólöf niður og skipulögðum fríið. IHG er með mörg hótel í Suður- Afríku undir sínum merkjum og átti ég því rétt á starfsmannaafslætti þar. Við pöntuðum okkur herbergi á Holiday Inn Greenmarket Squre, en þar höfðum við oft búið. Við pöntuðum borð á aðfangadagskvöld á heimilislegum portúgölskum veitingastað í hæðunum fyrir ofan borgina, með útsýni yfir þessa undirfögru borg sem geymir alltof marga glæpi og ofbeldi. Áramótunum ætluðum við að eyða í Wilderness við Indlandshafið.
Við komuna til Cape Town komumst við að því að Desmond Tutu ætlaði sjálfur að syngja jólamessu á miðnætti á jólanótt í Dómkirkjunni, en hann var að mestu hættur messugerð. Við ákváðum að fara og er þetta einhver áhrifamesta messa sem við höfum hlýtt á. Hann skammaði alla þjóðarleiðtoga heims og hjálparstofnanir fyrir hræsni, sagði þessa aðila vera að nota neyð sinna smæstu bræðra og systra til að upphefja sjálfa sig og til friðþægingar, en ekki til að stuðla að útrýmingu á fátækt og neyð. Dreifðu peningum með annarri hendinni og afhentu vopn með hinni.
Á jóladag borðuðum við kvöldverð á Mont Nelson Hotel, einu af þessum flottu hótelum frá byrjun tuttugustu aldar. Okkur leið eins og í bíómynd frá fjórða áratugnum, allt virtist hafa staðið í stað, matseðillinn, þjónustan og stórhljómsveitin, sem spilaði lög frá þessum tíma. Það vantaði bara að Fred Astaire og Ginger Rogers kæmu dansandi inn á gólfið.
Á þriðja í jólum flugum við með SAA til George smábæjarins í Wilderness, en þaðan var um tveggja tíma akstur á hótelið við Indlandshafið. Þegar vélin kom inn til lendingar tilkynnti flugstjórinn að flugvél hefði brotlent á vellinum (tæplega hægt að kalla þetta flugvöll, ein braut og skúr í stað flugstöðvar). Hann tilkynnti að floginn yrði hringur og ef ekki yrði búið að ýta flakinu út af flugbrautinni mundi hann fljúga áfram til Jóhannesarborgar. Eftir rúman hálftíma lentum við, en þá tók ekki betra við. Leigubíllin sem við höfðum pantað fyrirfram var hvergi sjáanlegur. Ég rétt náði í skottið á afgreiðslumanninum sem hringdi á leigubílastöðina í George, en þar kannaðist engin við pöntunina okkar. Hann sagði að við fengjum næsta lausa bíl, en það gæti tekið tíma og með það fór hann. Bíllinn kom eftir tvo tíma og þá var komið svarta myrkur, allt umhverfið frekar skuggalegt bara, einn ljósastaur við afgreiðsluskúrinn og hvergi ljós að sjá. Við voru því orðin þreytt og slæpt þegar við komum á hótelið. Pöntuðum okkur samloku upp á herbergi og fórum síðan að sofa.
Ég vakna snemma morguninn eftir, dreg myrkvunartjöldin frá glugganum og opna svalahurðina, en svalirnar vísa út að Indlandshafinu. Ég geng út og finn ferskan og saltan andvarann fylla vit mín. Dásamleg tilfinning hríslast um mig. Ég kalla á Ólöfu og um leið og hún kemur út heyrum við kunnuglegt hljóð „Krí, krí“ Við lítum bæði til himins og sjáum fuglinn undurfagra, sem kominn er að heiman eftir 90 daga flug, sveima yfir höfðum okkar. Við verðum ekki einu íbúarnir frá norðurhvelinu sem höldum áramót við Indlandshafið.