Mennska og auðmýkt – yfirgangur og hroki

Gullveig Sæmundsdóttir

Gullveig Sæmundsdóttir fyrrverandi riststjóri skrifar

Ég finn alltaf fyrir klökkva í brjóstinu þegar „Nú árið er liðið í aldanna skaut“ hljómar á öldum ljósvakans og síðustu sekúndur ársins renna saman við þær fyrstu á komandi ári. Enn eitt árið er liðið sem aldrei kemur til baka. En sem betur fer yfirgnæfir þakklæti og auðmýkt söknuðinn og tregann; Þakklæti fyrir farsæld fólksins míns, þakklæti fyrir að búa í landi þar sem almenningur býr við betri kjör en þekkjast víðast hvar annars staðar, þakklæti fyrir alla möguleikana á námi og starfi sem unga fólkinu okkar bjóðast og þakklæti fyrir að geta tekið á móti nýju ári og öllum þeim áskorunum sem því fylgja. Ég gæti tínt til ýmislegt fleira sem full ástæða er til að þakka fyrir og sýna auðmýkt gagnvart.

Þrátt fyrir þau góðu og jákvæðu merki sem greina má allt í kringum okkur er ýmislegt sem verður að ráða bót á. Í því sambandi er ég ekki að hugsa um öll verkefnin sem stjórnvöld hafa á sinni könnu heldur þá ömurlegu umræðuhefð og þau neikvæðu viðhorf sem því miður virðast ráða ferðinni og yfirgnæfa alla málefnalega umræðu. Verst finnst mér þegar ráðist er á stofnanir eins og lögreglu og Alþingi og gert lítið úr mörgu sem þar er sagt og gert. Og satt að segja hef ég enga trú á að „ráð“ þeirra sem þar fara fremstir í flokki með gagnrýni sinni séu líkleg til þess að bæta samfélagið.

Bestu kveðjur til ykkar sem átt hafa með mér samleið á árinu sem er að líða með óskum um að nýju ári fylgi gæfa og gott gengi okkur öllum til handa. Megi mennska og auðmýkt einkenna komandi ár.

Gullveig Sæmundsdóttir janúar 2, 2018 11:10