Lífsspeki Kúa eftir Rosamund Young er óvenjuleg bók, sem lýsir venjum og tilfinningalífi kúa. Ingunn Ásdísardóttir þýddi bókina, sem Benedikt bókaútgáfa gaf nýlega út. Höfundur bókarinnar er kúabóndi og hefur verið það allt sitt líf. Aftan á bókarkápunni er þessi texti um hann:
Ást er allt sem þarf. Rosamund þekkir hverja einustu skepnu á bænum með nafni, kann ættartölur þeirra utanbókar og veit hvað þeim líkar og mislíkar. Hún elskar hverja kú. Og það er bláköld staðreynd að kýr elska hver aðra. Margt má læra af blessuðum skepnunum.
Þá höfum við það. Kýr geta elskað hver aðra. Sögurnar í bókinni sýna fram á það. Þær sýna líka að það er vinskapur milli kúa og milli mæðra og dætra í kúahópnum. Feðurnir koma skiljanlega lítið við sögu. Kýr eru vitrar og sumar heimskar. Kýr syrgja kálfa sína og kálfarnir mæður sínar. Og kýr geta gengið fram af öðrum kúm eins og þetta dæmi sýnir.
Samband Stephanie og Oliviu dóttur hennar var náið og eðlilegt og þær héldu sig saman hvert sem þær fóru, allt þar til Olivia bar sínum fyrsta kálfi. Þegar Olivia var komin að burði var Stephanie henni til halds og trausts, ráðlagði henni og róaði og hálpaði henni að velja sér góðan stað til að bera, rétt hjá litlum tærum læk. Stephanie kom sér fyrir í hæfilegri fjarlægð, ekki of nálægt en þó þannig að hún gæti verið til taks. Olivía bar kálfinum áreynslulaust og varð umsvifalaust gagntekin af þessum fallega rjómalita nautkálfi sem við nefndum Orlando. Hún sleikti hann skraufaþurran, mjólkaði honum og sá hreinlega ekki sólina fyrir honum. Að nokkrum tíma liðnum kom Stephanie til að líta á kálfinn og hélt sig nærri í nokkra daga í þeirri von að get komið að gagni og orðið virkur meðlimur þessarar litlu fjölskyldu. Nýbornir kálfar sofa mikið fyrstu dagana og þá eru ömmurnar oft til staðar til að gæta þeirra. Stundum eru meira að segja óskyldar kýr fengnar til að gæta nýburanna. Það er algengt að ein kýr gæti nokkurra kálfa í senn;kýrnar deila þessu verkefni gjarnan með sér og skiptast á.
Nú brá því miður svo hryggilega við að Olivia vildi bara alls ekkert með þjónustu Stephanie hafa. Hún hvikaði ekki frá Orlando. Hún stóð á beit eins nærri honum og hún framast gat og hvenær sem hann færði sig til kom hún á eftir. Hún neitaði móður sinni meira að segja um að snyrta hann og snurfusa með hrjúfri tungunni; hún kom skammarlega fram við hana. Á fórða degi var Stephanie nóg boðið. Særð og hissa sneri hún baki við dóttur sinni, stökk yfir næstu girðingu og fór yfir í annan bitahaga til að vera á beit með fyrri vinkonum sínum.
Eftir því sem ég best veit töluðust þær aldrei við eftir þetta.