Mývatns- og Möðrudalsöræfi eru uppáhaldsstaður Ingunnar Ásdísardóttur

Ingunn Ásdísardóttir

„Ég get ekki verið neitt frumleg í svari við þessari spurningu,“ segir Ingunn Ásdísardóttir þjóðfræðingur og þýðandi og hlær. Hún segist sjálf hafa ferðast mjög mikið og um gífurlega fallega staði á Íslandi en enginn jafnist á við ævintýralega fegurð Mývatnsöræfanna, fjallgarðanna þar og Jökuldalsheiðarinnar.

„Uppáhaldsstaður flestra er sá staður sem þeir koma á oftar en einu sinni og sækja í aftur og aftur af einhverjum ástæðum,“ segir Ingunn. „Í mínu tilfelli eru það Mývatnsöræfin, fjallgarðarnir þar og Jökuldalsheiðin. Þarna ek ég nokkrum sinnum á ári og í hvert einasta sinn er ég uppnumin af fegurðinni. Að ferðast um þessi fjöll á júlínótt í björtu og kyrru veðri er gjörsamlega magískt og engu líkt. Litirnir á sandinum þegar sólin er farin að hníga í bland við litbrigðin á himninum allt um kring og svo blámistruð fjöllin í fjarlægð eru bara ævintýri líkust.“

Andstæðurnar heilla

Ingunn hefur farið þessa leið á öllum árstímum, þurft að grafa sig í gegnum snjóskafla og keyra yfir rosalega pytti sem hún hélt hún kæmist ekki upp úr. Hún er alin upp á Egilsstöðum og sótti Menntaskólann á Akureyri. „Við vorum keyrð á haustin og sótt á vorin en þegar við fórum heim í jólafrí þurftum við að fljúga því vegirnir voru ófærir á þeim árstíma. Mamma var orðin mjög flink við að bakka bílnum nógu mikið þegar við komum að ófæru og gefa svo í og þrusa í gegnum pyttina. Þetta urðu oft rosalegir leysingapyttir á vorin og mikið ævintýri að komast alla leið.“

Gamla leiðin enn fegurri

Ingunn segir að ef hún er ekki að flýta sér velji hún að fara gömlu leiðina yfir öræfin sem hún segir að sé enn fegurri þótt Hánefsstaðaleiðin sé líka fögur. „Nýja vegstæðið var auðvitað valið með tilliti til akstursþæginda og þess vegna reynt að sneiða hjá háum fjallaskörðum. Að keyra um svæði eins og Geitasandinn, sem er eins og kolsvört eyðimörk, eða Víðidalinn sem er gróinn og grænn þar sem lítil á líður um er óviðjafnanlegt. Andstæðurnar eru svo áhrifamiklar,“ segir Ingunn og brosir.

Helvítis lúpínan á leiðinni

Þegar Ingunn er að fara á æskustöðvar sínar segist hún oftast velja að fara norðurleiðina. „Suðurleiðin er auðvitað mjög falleg líka, sandarnir og jöklarnir, allt er þetta mjög tilkomumikið. En fjöllin milli Mývatns og Jökuldals eru mitt svæði. Það eru þessi gráu litbrigði, allt frá svörtu og niður í ljósast grátt og svo eru allir aðrir litir þarna ef maður horfir aðeins í kringum sig. Og Herðubreið gnæfir yfir. Þetta er svo tilkomumikið að maður missir andann. Og svo að koma fram á Jökuldalsheiðarbrúnina og horfa út yfir Jökuldalinn og sjá jafnvel út á Hérðaðsflóann í góðu skyggni.

Helvítis lúpínan hefur blessunarlega ekki náð að yfirtaka landið þarna en hún er á leiðinni,“ segir Ingunn og verður svolítið æst. „Ef ég sé stakan lúpínubrúsk á ferðum mínum stoppa ég og þá rennur á mig drápsæði,“ segir hún. „Þá rýk ég út úr bílnum og ríf brúskinn upp með rótum og vona að þessi ófögnuður nái ekki að breiða úr sér en hún virðist því miður vera á leiðinni upp á öræfin.“

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn júlí 14, 2021 07:30