Landsmenn fái að fresta töku ellilífeyris til áttræðs

Nefnd um lífeyrirsmál sem Pétur H. Blöndal alþingismaður veitir forstöðu telur rétt að hækka ellilífeyrisaldur úr 67 árum í 70 ár, á 37 árum. Önnur athyglisverð tillaga er sú að ríkisstarfsmenn geti unnið til 75 ára aldurs en nú verða þeir að hætta störfum við 70 ára aldur. Þá eru  hugmyndir um að almennt eigi fólk að geta frestað töku lífeyris til 80 ára aldurs, þeir sem það kjósa.

Hækka ellilífeyrisaldur

„Það er nauðsynlegt að hækka ellilífeyrisaldur með hliðsjón af lægri dánarlíkum og lengri ævi. Fólk er orðið svo miklu sprækara um sjötugt nú en það var fyrir þrjátíu árum,“segir Pétur í samtali við Lifðu núna.

Pétur Blöndal

Pétur Blöndal

Nefnd um lífeyrismál var skipuð fyrir réttu ári og átti að skila af sér í vor en það hefur dregist. Nefndinni var meðal annars falið að kanna hvernig lífeyrisþegum Tryggingastofnunar hefur vegnað frá hruni í samanburði við aðra hópa. „Árið 2008 fengu þeir sem höfðu ekkert annað en greiðslur frá Tryggingastofnun 20 prósenta hækkun með svokallaðri framfærsluuppbót. En hún var skert krónu á móti krónu til dæmis vegna lífeyris úr lífeyrissjóðum á móti greiðslum frá TR. Þeim sem hafa greitt í lífeyrissjóði í 40 ár finnst ósanngjarnt að þeir beri lítið meira úr bítum en þeir sem ekki greiddu í lífeyrissjóðina“,segir Pétur

 Starfsgetumat í stað lífeyrismats

Annað sem hefur verið til umfjöllunar í nefndinni er að taka upp starfsgetumat. „Við höfum mikið rætt hvort það sé ekki rætt að taka upp starfsgetumat í stað lífeyrismats. Nú er fólk annað hvort 75 prósent öryrkjar og fær þá bætur en sá sem er 74 prósent öryrki fær mjög litlar bætur. Réttara væri að horfa til þess hvað fólk getur en ekki til þess hvað það getur ekki,“ segir Pétur. Um starfsgetumatið er einhugur í nefndinni en ekki hvaða leiðir skuli farnar.

Fólk fái að vinna fram undir áttrætt

Aðrar breytingar á kerfinu eru að gera starfslok sveigjanleg. „Það þarf ekki að setja alla undir sama hatt. Að mínu mati á að leyfa fólki að velja, sumir hafa heilsu til að vinna fram undir áttrætt, aðir vilja fara í hlutastarf og taka lífeyri á móti. Það þarf að gera fólki þetta kleift,“ segir hann og bætir við að þetta sé kannski ný hugsun að fólk geti unnið í hálfu starfi, fái 50 prósent ellilífeyri frá TR og lífeyrissjóði en fresti því að fá hinn helminginn alveg fram undir áttrætt. Fer eftir heilsu hvers og eins,“ segir Pétur.

Það styttist í að nefndin skili af sér og þá kemur í betur í ljós hverjar endanlegartillögur nefndarinnar verða.

 

 

Ritstjórn nóvember 19, 2014 13:29