Ætla að styðja málaferli Gráa hersins vegna skerðinganna

„Ég eignaðist fyrsta barnið 17 ára. Þetta var hneyksli“, segir Valgerður Sigurðardóttir og hlær, en bætir svo við. „Það er kannski réttara að segja að margir hafi tekið það nærri sér. Ég átti ömmusystur sem voru mér mjög nánar þar sem að þær voru barnlausar og voru væntingar þeirra til mín ekki þær að ég færi að eignast barn svona ung.  Hugmyndin var frekar sú að ég færi í langskólanám, en ekki að ég yrði mamma“. Hún segir að allir hafi verið góðir við sig, en þetta hafi verið ákveðið áfall í fjölskyldunni.

Það er notalegt að búa á Norðurbakkanum

Hafa ekki þroskast sitt í hvora áttina

Valgerður var þá búin að eignast kærasta, Friðbjörn Björnsson. Þegar þau voru búin að eignast elstu dótturina fluttu þau í Hafnarfjörð og fóru að sjá fyrir sér sjálf og Valgerður segir að foreldrahlutverkið hafi verið þeim mjög kært þrátt fyrir ungan aldur. Á þeim tíma voru engar blokkir í Garðahreppi og þess vegna flutti margt ungt fólk þaðan í norðurbæinn í Hafnarfirði þegar það fór að búa, en þar var hægt að kaupa blokkaríbúðir.  Þau giftu sig og búa í dag á Norðurbakkanum í Hafnarfirði.  „Við erum svo heppin að hafa ekki þroskast í sitt hvora áttina. Við eigum sameiginleg áhugamál, en höfum jafnframt veitt hvort öðru svigrúm. Hann er veiðimaður, útivistarmaður og golfari en ég tileinkaði mér félagsmál og pólitík mjög snemma.“, segir Valgerður sem er núna formaður Félags eldri borgara í Hafnarfirði.

Fjölskyldan

Valgerður fæddist á Sólvallagötu 33 í Reykjavík í húsi föðurafa síns og ömmu. „Pabbi var einn átta systkina. Þetta er mjög hresst og skemmtilegt fólk. Við höldum vel hópinn. Þegar hún var 10 ára fluttu foreldrar hennar í Garðahrepp. Foreldrar Valgerðar hétu Sigurður Örn Hjálmtýsson og Erna Geirlaug Árnadóttir Mathiesen en hún var úr Hafnarfirði. Móðurfólk föður hennar eru afkomendur Bernhöfts bakara í Bernhöftsbakaríi sem var stofnað 1834. Föðuramma hennar hét í höfuðið á þremur móðursystrum sínum, Lucinde Franziska Vilhelmina. Valgerði þótti óskaplega vænt um hana og segir að hún hafi verið þekkt fyrir góðmennsku og verið dugleg við að senda matargjafir til fátækra og þeirra sem áttu í erfiðleikum. „Þá hef ég heyrt sögur af móðurafa mínum hér í Hafnarfirði, Árna sem dó svo ungur en hann lét sig varða stöðu fólks í bænum og var mörgum innan handar á erfiðum tímum“, segir hún.

Amma Valgerðar skráði hana í Sjálfstæðisflokkinn

Amma skráði hana í Vorboðann

Valgerður segist ekki geta nefnt eitthvað sérstakt sem varð til þess að hún fetaði félagsmálabrautina í lífinu, en mamma hennar var í félagsmálum og var formaður Kvenfélags Garðahrepps þegar hún var stelpa. „En þegar Valgerður og Friðbjörn fluttu kornung í Hafnarfjörð vorið 1972, skráði Svava móðuramma hennar hana 21 árs gamla í kvenfélag Sjálfstæðisflokksins í bænum, Vorboðann. Þar með má segja að teningunum hafi verið kastað. Með árunum fór Valgerður að starfa að jafnréttismálum var kjörin formaður Jafnréttisnefndar Hafnarfjarðar 1982 og varð um líkt leyti fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Kvennréttindafélags Íslands. Hún vann mikið innan flokksins, tók að sér formennsku í Vorboðanum og fleiri trúnaðarstörf, sat í ráðum, nefndum og miðstjórn flokksins. „Ég fór ekki í alvöru framboð fyrr en árið 1990, þegar ég var orðin 36 ára“, segir hún, en þá bauð hún sig fram til bæjarstjórnar í Hafnarfirði.

Urðu að selja allt

Valgerður og Friðbjörn voru fiskverkendur, með saltfiskvinnslu og skreiðarverkun frá 1986-2001.  Eftir að SÍF lagðist af 1992 fóru þau sjálf að flytja framleiðsluna til Bandaríkjanna og Mexíkó.  Það var oft gaman á þessum árum. „Við vorum með verkunina á annan áratug, en smám saman þrengdi að í sjávarútveginum, greiðslur fyrir afurðirnar bárust ekki og við vorum í persónulegum ábyrgðum fyrir okkar rekstri. „Það endaði með því að við urðum að selja húsið okkar, fiskverkunarhúsið, tækin og fleiri eignir, vegna erfiðleika í rekstrinum  til að greiða upp okkar skuldbindingar“. Á þessum tíma var Valgerður forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og gegndi ýmsum fleiri trúnaðarstörfum.  Hún dregur ekki dul á að þetta hafi verið erfiður tími, sérstaklega þegar hún þurfti að mæta víða með athyglina í lagi og vera með bros á vör.

Hætti að loknu fimmta prófkjörinu

Valgerður segist vera hægri jafnaðarmaður „Einstaklingsfrelsi og jafnrétti í reynd, þessi gömlu slagorð Sjálfstæðisflokksins, það er mitt mottó“, segir hún. „Árið 1994 varð hún fyrst kvenna í bænum formaður hafnarstjórnar Hafnarfjarðarhafnar.  Hún fór í gegnum fimm prófkjör fyrir bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði, en tók þá ákvörðun að hætta að loknu fimmta prófkjörinu. Þar gaf hún kost á sér í fyrsta sæti, en fékk það ekki. Hún var afar ósátt við prófkjörsbaráttuna og taldi að þar hefði orðið  alvarlegur trúnaðarbrestur. Hún ákvað því að taka ekki annað sætið á listanum fyrir kosningarnar, hætti í bæjarmálapólitíkinni eftir 24 ára nefndarstörf og 12 ár í bæjarstjórn.

Krabbameinsmeðferð og BA próf í sagnfræði

Valgerður dreif sig  í Háskólann og tók próf í sagnfræði. Þegar hún var að ljúka náminu var hún í krabbameinsmeðferð, en hún greindist með brjóstakrabbamein árið 2013. Hún lauk BA ritgerðinni þrátt fyrir það. Valgerður þurfti að fara bæði í lyfja- og geislameðferð. Hún segist vera  við góða heilsu í dag og eiga einungis eitt ár eftir í eftirliti.

Fjórir ættliðir

Fékk hlýlegar móttökur í Hafnarfirði

Valgerður og Friðbjörn bjuggu í Garðabænum í fimm ár á árunum 2009-2014 en þá fluttu þau aftur í Hafnarfjörð, á Norðurbakkann. Dætur þeirra þrjár, Lucinda Svava,Theódóra og Ólafía eru allar fluttar að heiman og búnar að stofna fjölskyldur. Barnabörnin eru átta og þau hjónin eiga einnig tvö langömmubörn og það þriðja á leiðinni. Það skipti engum togum að þegar Valgerður var flutt aftur til Hafnarfjarðar, var hún beðin um að koma í stjórn sóknarnefndar Víðistaðakirkju og í aðalstjórn Hauka. Þegar hún var var svo eitt sinn að  halda fyrirlestur hjá Félagi eldri borgara í bænum, var hún spurð hvort hún vildi gefa kost á sér til að taka við formennskunni í félaginu og sló til. „Ég fékk hlýjar móttökur þegar ég kom aftur í bæinn og þótti innilega vænt um það“, segir hún.

Einstakt fólk í Félagi eldri borgara

Valgerður er ánægð með að vera í stjórn Félags eldri borgara og starfa með því fólki sem þar er. „Þetta er einstakt fólk. Það eru allir svo glaðir, áhugasamir og hugmyndaríkir. Tengingin við bæinn er mjög góð og ég vil meina að Hafnarfjörður standi framarlega í málefnum eldri borgara“, segir hún. Þau mál sem helst brenna á félaginu í Hafnarfirði er að halda úti félagsstarfi og hreyfingu. „Okkur er í mun að fólk finni sér skemmtilega og gefandi afþreyingu, en sitji ekki eitt heima eftir að það hættir að vinna. Við bjóðum uppá fjölbreytta og áhugaverða dagskrá og svo kemur líka fólk hingað til að leita ráða“, segir hún. Félagið bendir fólki þá á hvaða rétt það hefur og hvert það getur leitað með sín mál. Valgerður sem er einnig formaður Öldungaráðs Hafnarfjarðar, segir að með þátttöku FEBH þar geti þau fylgst með og tekið þátt í því sem fram vindur í málefnum eldri borgara í bænum. „Hér er frítt fyrir eldri borgara á bókasafnið og í sund og svo er hreyfing og heilsuefling með Janusi Guðlaugssyni styrkt af bænum“.

Danshátíð FEBH síðast liðið vor

Skerðingin 15 árum of snemma á ferðinni

„Fólkið á Alþingi virðist of ungt eða vanta þekkingu á aðstæðum eldra fólks. Það virðist vanta meiri breidd í aldurshópinn, þekkingu og reynslu til að taka ákvarðanir fyrir alla þjóðina“ segir Valgerður og bætir við að tekjutengingarnar í almannatryggingakerfinu brenni á eldri borgurum og þær snerti mjög marga með einum eða öðrum hætti.  „Ég held að skerðingin vegna lífeyristeknanna sé 15 árum of snemma á ferðinni því það eru enn mjög margir sem hafa litlar lífeyrissjóðstekjur og skerðingin er alveg skelfileg fyrir það fólk. Áður voru hjón tekjutengd í Tryggingastofnun og var þá ellilífeyrir maka rýrður væri yngri makinn enn á vinnumarkaði. Þegar sú skerðing var lögð af,  var farið að skerða þá sem lagt höfðu fyrir í lífeyrissjóð en sá sparnaður er boðaður með lögum. Þegar einnig er búið að skerða ellilífeyrinn frá Tryggingastofnun verður svo lítið eftir. Fólk talar kannski ekki um að það sé fátækt, en maður skynjar það“ segir hún. Valgerður segir ótrúlega lítinn skilning á þessum málum hjá stjórnmálamönnum.

Búið að snúa almannatryggingakerfinu á hvolf

Það er búið að snúa almannatryggingakerfinu á hvolf að mati Valgerðar, kerfinu sem átti að tryggja kjör fólks á efri árum. „Það hefur orðið ótrúlega mikil breyting á almannatryggingakerfinu sem hefur ekki farið hátt. Þau sem hafa samþykkt breytingarnar í þá veru sem þær eru í dag eru ekki láglaunafólk og eiga ekki eftir að fá ellilífeyrir frá Tryggingastofnun, því þau eiga góðan lífeyrissjóð í vændum“, segir hún.

Hver á að lifa á þessu?

„Ellilífeyrir frá Tryggingastofnun er 248.105 krónur á mánuði. Skatturinn er 91.650 kr. Persónuafslátturinn er 56.447 kr. Eftir standa til mánaðarframfærslu 212.902 kr. Við 25.000 kr. eign í lífeyrissjóð fyrir skatt byrjar þessi tala að rýrna.  Árs ráðstöfunartekjur ellilífeyrisþega eru 2.613.820 kr. eigi hann ekkert í lífeyrissjóði. Hver getur lifað á þessu? Væri ekki ráð að miða ellilífeyri við viðurkenndar lágmarkstekjur! Ef þær eru taldar lágmark til að geta lifað fyrir vinnandi fólk, hlýtur það sama að gilda fyrir eldri borgara.  Hvaða viðmið er notað fyrir upphæð Tryggingarstofnunar á ellilífeyri? Ekki er það framfærsluviðmið, því það er mun hærra.  Það þarf að hækka ellilífeyrinn frá Tryggingastofnun og afnema skerðingarnar næstu 15 árin og leyfa þeim sem eiga sparnað í lífeyrisjóðum að njóta þess. Næsta kynslóð þarf í litlum mæli á Tryggingarstofnun að halda þegar kemur að ellilífeyri því að sjóðfélagaeign verður þá næg til framfærslu.

Menn þurfa að hugsa út frá heildinni, en ekki út frá sjálfum sér þegar þeir eru í pólitík“, segir Valgerður og greinir frá því að stjórn FEB í Hafnarfirði hafi ákveðið að styðja málaferli Gráa hersins vegna skerðinganna. Það á að vera sómi hverrar þjóðar að sjá til þess að þeir sem eldri eru geti lifað mannsæmandi lífi“, segir hún.

Valgerður í stofunni heima. í baksýn sófi Svövu móðurömmu sem sagði að einungis tveir svona sófar væru til í heiminum. Hinn í eigu Francos á Spáni

 

Ritstjórn ágúst 16, 2019 10:15