Er skynsamlegt að hjón fari saman á eftirlaun?

Mörg hjón reyna að samræma það hvenær þau hætta að vinna og fara á eftirlaun og um fjórðungur hjóna hættir störfum á sama ári. Þetta sýnir bandarísk könnun sem greint var frá á vefnum considerable.com.  „Það hljómar vel að fara saman á eftirlaun, sérstaklega ef þú ert í hamingjusömu sambandi“, segir í greininni sem fer hér á eftir stytt og staðfærð.  „Já, hvers vegna ekki að byrja á því sem þið  ætlið ykkur hvort eð er að gera í framtíðinni, ferðast saman, verja meiri tíma með fjölskyldunni og njóta allra þeirra skemmtilegu hluta sem þið höfðuð ekki tíma til að njóta á meðan þið voruð alveg upptekin í vinnunni. Vandinn er bara sá að það getur farið illa með fjárhaginn“, segir ennfremur í greininni.

Karlmaðurinn tók ákvörðun um starfslok og eftirlaun

„Þetta á einkum við, ef það er mikill aldursmunur á parinu eða ef annað þeirra varði einhverjum árum í að vera heima og ala upp börnin, eða hugsa um aldraða foreldra. Konurnar – sem eru í flestum tilvikum yngri makinn, eru einnig líklegri til að hafa styttri starfsaldur að baki og það getur komið illa niður á þeim þegar þær fara á eftirlaun.  Þess vegna er mikilvægt að fólk taki þá ákvörðun saman að fara á eftirlaun á sama tíma.   Venjan hér áður fyrr var sú að þegar sá sem sá fyrir heimilinu, oftast karlmaðurinn, var tilbúinn til að fara á eftilaun, þá tók hann um það ákvörðun fyrir hjónin. Eftir því sem konum fjölgaði á vinnumakaði, breyttist þetta og það varð meira ákvörðun allrar fjölskyldunnar hvenær tímabært væri að fara á eftirlaun“  Þetta segir Dorian Mintzer sálfræðingur, sem hefur sérhæft sig í málefnum eftirlaunafólks.

Hér eru þrjú atriði sem, samkvæmt greininni, er gott að hafa í huga þegar hjón eða sambýlisfólk taka ákvörðun um starfslokin.

Höfum við efni á að fara á eftirlaun á sama tíma?

Ef annað hvort ykkar byrjaði seint að safna í lífeyrissjóð, eða er yngra og ekki búið að greiða í lífeyrissjóð jafn lengi og makinn, getur skipt máli að vinna nokkur ár í viðbót til að tryggja meiri tekjur á eftirlaunaárunum. Hér á Íslandi skiptir séreignasparnaður fólks líka máli. Það er ástæða til að hafa það einnig í huga að ef konan er yngri en eiginmaður eða sambýlismaður, er líklegt að hún lifi lengur og þurfi að láta sparnað eftirlaunaáranna endast lengur.

Bandaríska könnunin sem vitnað var til í upphafi greinarinnar, sýndi líka að um helmingur fólks vissi ekki hvað það þyrfti háa upphæð til að lifa af, þegar það færi á eftirlaun. Það gildir kannski ekki hér á landi þó vissulega heyrist þær raddir að fólk kynni sér ekki fyrirfram hvaða kjör það fær þegar það fer á eftirlaun. Flestir sem nú eru að fara á eftirlaun hér, eiga rétt á einhverjum greiðslum úr lífeyrissjóðum, einnig mismunandi háum greiðslum frá Tryggingstofnun og svo eiga flestir sem hafa verið á vinnumarkaði einhvern séreignasparnað og sumir jafnvel meira en það. Það er mjög mikilvægt að par sem vill fara á eftirlaun saman,  fari vel yfir fjármálin. Skoði bæði tekjur og útgjöld.  Það er ástæða til að fá upplýsingar bæði frá lífeyrissjóðum sem menn hafa greitt í og hjá TR um væntanleg eftirlaun, þannig að menn hafi glögga mynd af því hverjar tekjur þeirra verða þegar þeir hætta á vinnumarkaðinum. Og ekki gleyma að greiðslurnar hækka ef menn bíða með að taka þær út. Þannig að maki sem er enn á vinnualdri, getur hækkað eftirlaunin sín með því að bíða með að fara á eftirlaun. Fáið lífeyrissjóðinn eða TR til að reikna það út, hverju það breytir að bíða, í stað þess að fara strax á eftirlaun. Stundum breytir það litlu þegar á heildina er litið.  Hjá sumum lífeyrissjóðum er hægt að byrja að taka lífeyri áður en menn ná 67 ára aldri, en hjá öðrum ekki fyrr en 67 ára. Þetta er mismunandi eftir sjóðum og ástæða til að kynna sér það.

Hvernig breytast hlutverkin?

Það eru ekki eingöngu fjármálin sem skipta máli ef þú og maki þinn ákveða að fara saman á eftirlaun.  Ef þið eruð að hugsa um að fara á eftirlaun um svipað leyti eða sitt í hvoru lagi, ræðið þá hvaða áhrif slíkt myndi hafa á daglegt líf ykkar. Hvort sem þið hættið bæði að vinna, eða annað ykkar, gerið þá ráð fyrir að hlutverkin breytist.  „Ef þið eruð að hugsa um að fara saman á eftirlaun, ræðið þá um hversu miklum tíma þið mynduð vilja eyða saman á hverjum degi og hversu löngum tíma þið mynduð vilja verja í áhugamál og samvistir við vini. Það er mikilvægt að ræða þetta, þannig að báðir séu á sömu blaðsíðu“, segir Mintzer.  En ef það er þannig að annar makinn vinnur 10 klukkustundir á dag á meðan hinn hættir að vinna, þarf  að ræða hvað makinn sem ekki er í vinnu gerir á daginn,“segir annar ráðgjafi sem rætt er við í greininni.  Og enn eitt atriði sem bent er á að þurfi að skoða er, hvort makinn sem er heima taki þá að sér meira af heimilisstörfunum.

Erum við bæði raunverulega tilbúin til að hætta að vinna?

Jafnvel þó fólk hafi gert ráð fyrir því lengi, að það myndi hætta að vinna samtímis og fjárráðin leyfi það, getur komið upp sú staða að annar aðilinn sé ekki tilbúinn að hætta alveg að vinna, að minnsta kosti ekki strax. Sumir velja að vinna lengur, einfaldlega venga þess að þá langar ekki að hætta og það er í góðu lagi, að mati ráðgjafa. Enn aðrir geta ekki beðið eftir því að fara á eftirlaun.

Samkvæmt bandarískri Gallúp könnun, vilja um 60% Bandaríkjamanna halda áfram að vinna í hlutastarfi eftir að þeir ná eftirlaunaaldri og um 11% vilja halda áfram í fullu starfi. Það er ástæða til þess þegar eftirlaunaaldurinn nálgast að ræða málin og fullvissa sig um hvað fólk vill gera.

 

Ritstjórn september 11, 2019 07:54