Heillaðist af skútusiglingum á miðjum aldri

Þegar miðjum aldri er náð fá margir, bæði konur og karlar, þörf fyrir að máta við sig nýja hluti. Sumir breyta alveg um lífsstíl með mismunandi árangri en aðrir láta sér nægja að prófa nýtt áhugamál. Jens Pétur Jensen er dæmi um mann á þessum góða aldri sem fann nýtt áhugamál og bætti því inn í lífsstílinn með góðum árangri. Jens ræddi við vin sinn um áhugaverða íþrótt, sem hvorugur hafði nokkra reynslu af, en báðum þótti spennandi. Umræðuefnið var skútusiglingar en þegar upp var staðið fór vinurinn í mótorhjólasportið og keypti sér hjól en Jens lét vaða og fór á námskeið hjá Brokey siglingafélagi og keypti sér skútu.

Aldrei of seint að byrja

“Ég byrjaði að sigla 2013 og var þá 54 ára gamall. Ég er þess vegna lifandi sönnun þess að það er aldrei of seint að byrja,” segir Jens og brosir. Hann er núna orðinn sextugur og áhuginn og ánægjan sem hann hefur af siglingunum er ómæld og hefur vaxið með hverju ári. Hann segir að siglingarnar séu æskilegastar þegar fólk er komið á miðjan aldur, þ.e. þegar börnin eru uppkomin og frítími oft meiri. “Siglingarnar eru tímafrekar og ekki hæg að ætlast til að börn hafi þolinmæðina sem er nauðsynleg. Ég hef til dæmis ekki ýtt á strákana mína að koma með mér í siglingarnar en ég er sannfærður um að þegar réttur tími er kominn í þeirra lífi muni þeir falla fyrir þessu frábæra sporti alveg eins og ég,” segir Jens kankvís. Hann segir líka að eiginkona hans sé haldin þessum algenga ótta við hallandi skip og hafi þess vegna ekki siglt mikið með honum. Hún samþykki samt fullkomlega þessa ástríðu hans. Fyrsta skúta Jens bar nafn eiginkonunnar, Maja.

Jens um borð í skútu sinni Xenu. Jens segir brosandi frá því að hann keypti upphalið, sem hann notar um borð, af fullorðnum siglara sem hafði útbúið það fyrir eiginkonu sína sem var orðin of fullorðin til að hala hann upp í mastrið. Fólk sé að sigla fram eftir öllum aldri.

Framkvæmdastjóri Internets á Íslandi hf – Isnic 

Jens er framkvæmdastjóri Internets á Íslandi hf. – ISNIC og eins og gefur að skilja hefur vinnan verið fyrirferðarmikil í lífi hans. Hann segist  reyndar hafa tekið meðvitaða ákvörðun fyrir nokkru um að takmarka vinnudaginn við fjögur á daginn. Áður fyrr gátu vinnudagarnir orðið ansi langir en Jens segist vera meðvitaður um að vera orðinn miðaldra og kjósi að haga sér samkvæmt því, án þess að gefa eftir fyrir aldrinum. Hann kýs frekar að njóta lífsins lystisemda á skynsaman hátt.

Þegar Jens hafði lokið siglinganámskeiðinu 2013 fór boltinn strax að rúlla og þá var ekki aftur snúið. “Ég dreif mig til Englands og keypti skútu sem ég flutti heim.”

Þriðjudagssiglingarnar hjá Brokey

Jens fór á byrjendanámskeið hjá Brokey á Ingólfsgarði, mætti síðan kl. fimm í þriðjudagskeppnirnar niður á höfn og bauð sig fram í áhöfn en það geta allir gert. “Til að byrja með mætti ég bara niður á kaja á þriðjudögum því þar vantar oft fólk til að sigla á skútunum í keppninni sem er mjög gaman að fylgjast með af Skúlagötunni. Þegar ég var búin að fá eigin skútu var ég ótrúlega heppinn með leiðbeinendur, bæði hjá Snarfara og Brokey og með fólk sem ég hitti fyrir tilviljun og sagði mér til.”

Var í Snarfara með bátinn “óriggaðan”

Mynd af siglingu Thompson í keppni.

“Skútan Maja kom með skipi til landsins 2016 með mastrið niðri og ég vissi varla hvað sneri upp eða niður enda hafði ég aldrei raðað skútu saman. Böndin voru eins og spaghetti fyrir mér og þar sem ég stóð með böndin í höndunum vatt sér ungur, syfjulegur maður út úr einum bátnum þarna í Snarfara. Sá reyndist vera Bandaríkjamaður og segir með þungum, amerískum hreim: “Hello there, can I help you with this,” og þar sem ég leit örugglega út eins og ég vissi ekkert hvað ég var að gera sagði ég verulega feginn: “Yes please” og þarna upphófst mikið ástarsamband,” segir Jens hlæjandi. Þessi maður reyndist vera Jay Thompson sem bjó með fjölskyldu sinni í skútu við Kaffivanglinn með þrjú börn fyrir nokkrum árum og margir tóku eftir. Hann hafði komið siglandi í október frá Nýfundnalandi með fjölskylduna. “Ég sagði við konuna mína þegar ég kom heim að barnaverndarnefnd hlyti að koma og tala við þetta fólk og athuga með börnin. En þessi hjón vissu nákvæmlega hvað þau voru að gera því þau eru siglarar með stóru ESSI. Þetta fólk kom hingað til lands í október og í febrúar sigldi Jay skútunni einn til Ísafjarðar en konan og börnin fóru með rútu,” segir Jens. „Eiginkonan fæddi þar fjórða barn þeirra hjóna áður en þau fóru í langa siglingu til Frakklands og enduðu túrinn í siglingabænum Étel nærri Lorient í Frakklandi, sem er Mekka siglinganna.”

Maja kom til landsins

Logbók þar sem Jens skráir allt sem hann aðhefst um borð í Xenu, hvort sem hann er að dytta að skútunni við land eða í siglingum.

Jens hafði aðeins siglt í eitt sumar með siglurunum í Brokey þegar hann kynntist Jay. Skömmu síðar hafði Jay orð á því að hann þyrfti að komast til Ísafjarðar og Jens sagði: “Á ég ekki bara að skutla þér þangað?”  og sá strax kostina við að láta þennan reynda siglara gefa sér ráð á leiðinni. Jay sagði svaraði í hvelli og var hæstánægður: “Yes of course, that’s the only way for me  to travel.” Og þar með fór Jens í sína fyrstu löngu siglingu, 180 mílur frá Reykjavík til Ísafjarðar og lærði geysilega mikið af Jay. En þá voru góð ráð dýr því hann þurfti að komast til baka. Jay sagði honum að hann ætti bara að sigla skútunni einn til baka, hann gæti það alveg en Jens var ekki til í að taka þá áhættu á þessum tímapunkti. Systir hans benti honum á mann, Ragga, sem var lítt vanur siglingum en mjög hugrakkur og úr varð að þeir sigldu skútunni saman til Reykjavíkur.

Besta siglingin

Jens sigldi þá til Reykjavíkur við þennan mann og segir að sú sigling sé enn þann dag í dag sú besta sem hann hafi siglt. “Við sigldum á “spinnaker” (belgsegli) niður alla Vestfirðina, alveg niður að Bjargtöngum.”  Þeir héldu svo áfram á spinnaker yfir Faxaflóa þangað til vindurinn var orðinn of mikill fyrir svo stórt segl en þetta var bara upphafið á ævintýrinu. Jens seldi skútuna Maju að lokum sjómönnum frá Akureyri. “Ég seldi skútuna mönnum sem höfðu verið sjómenn hjá Samherja og það reyndist verða mjög auðvelt fyrir þá að ná tökum á skútusiglingunum. Ég fór með þá tvisvar út á sundin, í síðara skiptið settu þeir upp teborð úti á dekki og fengu sér kaffi og kökur og lögðu síðan af stað til Akureyrar pollrólegir.”

Tók þátt í keppni og sigraði

Jens tók þátt í úthafssiglingakeppninni „Viking Offshore Race“ í júlí 2018, ásamt Jay Thompson, Arnþóri Ragnarssyni og Árna T. Guðmundssyni. “Við sigruðum III. legginn, frá Þórshöfn í Færeyjum til Reykjavíkur, sem eru 550 sjómílur. Fimm skútur frá þremur löndum tóku þátt og Xena var eina íslenska skútan. Ég held ég fari rétt með að hún sé fyrsta seglskútan sem keppir undir íslenskum fána í alþjóðlegri úthafssiglingakepni. Siglingasamband Íslands veitti mér „Ævintýrabikar SÍL“ sl. vor fyrir vikið. Það var Arnþór Ragnarsson, úr siglingafélaginu Þyt í Hafnarfirði, sem átti hugmyndina að þátttöku Xenu og kann ég honum þakkir fyrir það.  Jens segir skútuna Xenu vera úrelta hönnun frá 1998 en skútan  hafi dugað honum vel framan af en nú er hann að leita að annarri skútu. Nútíma keppnisskip segir Jens að lyfti sér upp á skíðum (e. foils) og sigli á 25 hnúta meðalhraða um einu feti yfir haffletinum.

Hefur siglt þrisvar umhverfis Ísland

Jens keypti Xenu 2016 og hefur siglt á henni þrisvar í kringum landið. Hann hefur ekki mætti einni einustu íslenskri skútu í þessum ferðum en mörgum erlendum skútum. “Íslendingar hafa ekki verið mikið í langsiglingum en ég vonast til að á því verði breytingar núna. Nú eru komin bæði skútuleiga og siglingaskóli á Íslandi sem mun án efa auka vinsældir þessarar skemmtilegu íþróttar.”

Verðlaunagripir sem Jens hefur þegar hlotnast fyrir góðan árangur í siglingum. Annar er fyrir sigur í úthafssiglingakeppninni „Viking Offshore Race“ í júlí 2018 og hinn var honum afhentur fyrir dugnað í siglingum hér við land.

Sjómennskan Jens í blóð borin

Afi Jens og nafni var sjómaður frá Eskifirði. Hann fórst með skipi sínu, Hólmaborginni, í febrúar 1956 ásamt elsta syni sínum. “Ég fann fyrir ónotum þegar ég sigldi fyrir Langanesið í fyrstu hringferðinni minni,” segir Jens. “Þegar ég kom inn á hafsvæðið þar sem afi fórst kom yfir mig einkennileg tilfinning. Það var í öllu falli tilfinningaþrungin vakt sem ég var á þá nótt. Sjóskaðar voru svo skelfilegir á árum áður á Íslandi og ég hef velt því fyrir mér að það geti verið ástæðan fyrir því að Íslendingar séu ekki meira í skútusiglingum en raunin er.” Jens segir að seglskipin séu mjög örugg sjóskip. Hann segist til dæmis ekki myndi þora að sigla einn á trillu. “Ég hitti þessa trillukarla oft úti á sjó þar sem þeir eru einir um borð á pínulitlum bátum. Þessir menn eru hetjur hafsins í mínum augum,” segir Jens. “Skútur eru aftur á móti byggðar til að halla og geta ekki oltið ef þær eru rétt byggðar. Þær eru með mjög djúpum kili og þegar skútan hallar hellist vindurinn úr seglunum og hún réttir sig. Skúta er í raun eins og korktappi með mjög þungu lóði. En það er algert skilyrði að halda annarri hendinni í bátinn öllum stundum og það lærist fljótt.”

Langar að sigla einn í kringum Ísland

Jens segir að fram til þessa hafi enginn Íslendingur siglt einn síns liðs hringinn í kringum Ísland „án viðkomu og án aðstoðar úr landi“. Að sigla einn sé viðurkenndur skemmtilegur siglingamáti. “Það er auðvitað áskorun að ráða einn við kraftinn í náttúrunni,” segir hann.  „Þetta eru kallaðar Sólo-siglingar og í síðustu viku lauk 77 ára gömul kona, Jeanne Socrates, hringferð sinni um jörðina, alein og án viðkomu í landi og án aðstoðar úr landi. Hún er þar með elsta manneskjan til að ljúka sólósiglingu án viðkomu. Hins vegar sigldi bandaríkjamaðurinn Josua Sclocum fyrstur mann hringinn 1896-1899, en hann kom víða við og var hylltur sem þjóðhetja hvar sem hann kom. Hann var á svipuðum áldri og konan. Hann skrifaði bókina „Sailing allone arround the world“ sem er algjör biblía lang-siglingamanna. Ég væri því algjör aumingi ef ég gæti ekki siglt hringinn um Ísland einn,“ segir Jens og brosir og ef að líkum lætur á hann eftir að láta þann draum rætast.

“Mitt í öllum kraftinum er svo mikil rósemd,” 

Ævintýrið í kringum vindinn segir Jens að sé ekki síst að hann er  ósýnilegur, lyktarlaus og hljóðlátur. “Mitt í öllum kraftinum er svo mikil rósemd,” segir Jens. “Hann tekur mann áfram í þögninni og svo má ekki gleyma umhverfisþættinum sem á eftir að verða enn mikilvægari þegar fram líða stundir og mun verða hvatning fyrir fólk til að stunda þessa skemmtilegu íþrótt,” segir Jens og undirbýr enn eina siglinguna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn september 13, 2019 08:21