Seldu húsið og búa um borð í skútu hluta úr ári

 Tinna Gunnlaugsdóttir og Egill Ólafsson voru önnum kafin framan af ævinni. Þau voru með nokkuð stórt heimili á nútíma mælikvarða, eða þrjú börn og svo voru þau á fullu í leikhúsi og í kvikmyndum. Egill var auk þess út og suður að spila á tónleikum, böllum og að semja músík. “Þetta var ekki leiðinlegt líf, síður en svo,” segir Tinna en játar að þeim hafi sjaldan gefist tóm til annars en að klára daginn. “Þegar ég settist svo í stól þjóðleikhússtjóra árið 2005, hvarf ég eiginlega af heimilinu, eins og Egill orðaði það. Eftir tíu ár í embætti með öllum þeim barningi og argaþrasi sem fylgdi því að stýra stórri ríkisstofnun í gegnum efnahagshrun og viðvarandi niðurskurð, var ég komin með nóg og langaði helst að söðla algerlega um og gera eitthvað allt annað – áður en það yrði of seint,” segir Tinna og það var einmitt það sem hún gerði.

Siglingarnar heilluðu

Hún segir að Egill hafi lengi alið þann draum með sér að sigla um höfin blá. Eignast litla „fjöl“ sem hún segir hann hafa kallað það stundum. Sjálfur hafði Egill kynnst hafinu sem barn í félagi við föður sinn og afa og ætíð alið með sér drauminn um frelsið sem felst í því að sigla og hafa allt opið til allra átta. “Egill var löngu búinn að verða sér úti um pungaprófið, eða skipstjórnarréttindi á minni skip og var gjarnan með bátablöð á náttborðinu, en lengra hafði þetta ekki náð. Svo gerist það að við erum stödd í Hollandi og meira af rælni en beinlínis í alvöru ákveðum við að kíkja á báta til sölu. Þetta varð að vera alvöru tréskúta, ekki plastbátur og bæði með mótor og seglum, og hún mátti alveg vera komin til ára sinna, þess vegna áratuga gömul.”

Óskafleyið var eimitt til sölu

Eftir eftirgrennslan á netinu, virtist bara einn bátur koma til greina fyrir Tinnu og Egil. “Þessi bátur var lengst upp í Fríslandi. Og jú, fyrst við vorum byrjuð á þessu, því ekki að skella sér þangað. Og á Fríslandi beið okkar tæplega 90 ára gömul tvímöstruð eikarskúta, 49 fet að lengd og glæsilega innréttuð, en illa vanrækt.

Sameinuðum drauma okkar

Egill spurði mig álits og ég svaraði: „Getur þú, ég meina getum við tvö siglt þessari stóru skútu?“ Og hann svaraði með afdráttarlausu jái. Ég varð eiginlega kjaftstopp og það eina sem mér datt í hug að segja var að mér fyndist skútan „sæt“. Við fórum heim til Íslands og hugsuðum okkur um í nokkrar vikur, fengum menn til að taka ástand bátsins út og skoðuðum fjárhaginn. Við vissum bæði að nú var að hrökkva eða stökkva. Ég hafði stundum sagt að einhvern daginn langaði mig að eignast athvarf eða sumarbústað þar sem sæi til hafs og við sáum fyrir okkur að þarna gætum við sameinað drauma okkar. Eignast athvarf, ekki við sjóinn, heldur á sjónum með margbreytilega útsýn  Ég vissi ekki hvað ég var að fara út í þá, sá fyrir mér að ég yrði örugglega skíthrædd og sjóveik, algjör ónytjungur til sjós, en Egill var staðfastur og hvetjandi og mér fannst ómögulegt að fara að guggna svona fyrirfram,” svo Tinna og Egill stukku og sjá ekki eftir því. Þau ákváðu að selja húsið við Grettisgötuna, fyrst og fremst til að minnka við sig. „Fjölskylduhúsið var orðið óþarflega stórt fyrir okkur tvö og ríflega aldargamalt hús kallar auk þess á umhyggju og viðvarandi viðhald, engu síður en gamall bátur.“

 

Sjófuglinn orðinn okkar annað heimili

“Síðan þá er „Sjófuglinn“ orðinn okkar annað heimili og skútan hefur fleytt okkur vítt og breitt um Norðursjóinn, Kattegat, Eystrasaltið, Keelarskurðinn, Fjónska eyjahafið svo eitthvað sé talið. Ég ætla ekki að segja að þetta hafi verið auðvelt til að byrja með og auðvitað þurfti að gera heilmikið fyrir bátinn áður en við gátum farið að sigla, en  þetta er búið að vera eitt stórt ævintýri og verður stöðugt innihaldsríkara og skemmtilegra. Fyrsta sumarið vorum við sex vikur á sjó, það næsta í tæpa þrjá mánuði og í sumar erum við búin að búa í bátnum í ríflega fjóra mánuði. Við siglum bara að degi til, en leggjumst við bryggju eða bauju á næturnar og stundum stoppum við í fleiri daga á sama stað, allt eftir þvi hvernig vindurinn og andinn í brjóstinu blæs. Við höfum séð órtúlega mikið af fallegum stöðum, ekki síst í sænska skerjagarðinum og kynnst mörgu skemmtilegu fólki og eignast nýja vini. Við erum endalaust þakklát fyrir þá fífldjörfu ákvörðun okkar að gerast sjóarar á efri árum – það er skemmtilegt og krefjandi að takast á við alveg nýjar áskoranir og finna sig eflast við hverja raun. Það flýtur á meðan ekki sekkur!

 

Ritstjórn september 22, 2017 10:36