Stundum þegar við erum í miðri sögu, ætlum að leggja eitthvað til málanna, eða útskýra eitthvað, kemur fyrir að við munum ekki orðið sem við ætluðum að nota. Því er stolið úr höfðinu á okkur og kemur ekki upp í hugann þó við vitum að við þekkjum það og ættum að muna það.
Það er ekki þannig að okkur skorti orð til að lýsa því sem okkur langar að segja. Við vitum hvert orðið er, við náum því bara ekki út úr kollinum. Hvað er eiginlega í gangi þegar við gleymum orðum? Um þetta er fjallað á vefnum Considerable.com og greinin fylgir hér í lauslegri þýðingu Lifðu núna.
Komið fram á varirnar
Sálfræðilegt hugtak sem lýsir þessu, er á ensku kallað Tip of the tongue, sem á íslensku getur útlagst sem, komið fram á varirnar. Manni finnst orðið alveg að koma, það er rétt ókomið fram á varirnar, en það kemur ekki. Þetta fyrirbæri var fyrst rannsakað á sjöunda áratugnum, og þá kom í ljós að fólk sem fann fyrir þessu var fært um að rifja upp hvaða stafir voru í orðinu, hvaða hljóð og jafnvel þýðingu þess, þó það myndi ekki orðið sjálft. „Svona gleymska ein og sér, er alveg eðlileg“, segir í greininni. Þegar menn gleyma orði, er það á sínum stað, en það er eitthvað sem kemur í veg fyrir að hægt sé að sækja það og segja það.
Orð samsett úr nokkrum þáttum
En hvað skyldi það vera sem gerir að verkum að okkur tekst ekki að muna orðið til fulls? Það er hægt að hugsa sér að orð sé byggt upp af nokkrum þáttum, segir ennfremur í greininni. Það hefur þýðingu og önnur hugtök og myndir tengjast því. Það hefur mismunandi form, það er ýmist borið fram munnlega, eða skrifað á pappír og í því eru atkvæði og ákveðnar áherslur. Það skilur einnig eftir sig leifar í taugakerfinu, eftir því hversu oft og hversu nýlega það hefur verið notað.
Álag og þeyta geta skipt máli
Árangurslaus leit að orðinu gefur stafað af því að okkur tekst ekki að ná utanum alla þessa þætti. Álag, þreyta, eða utanaðkomandi truflun geta valdið því að mönnum tekst ekki að finna orðið. Heyrnarlaust fólk getur jafnvel upplifað það sama, að orðið sé komið „fram á varirnar“ en þeir muna ekki táknið fyrir það. Fólk á öllum aldri getur upplifað það að muna ekki ákveðið orð, en það verður algengara eftir því sem við eldumst.
Fleiri einkenni geta bent til alvarlegra vandamála
Alvarlegri vandamál sem skemma, eða hægja á nauðsynlegum taugaboðum geta einnig valdið því að fólk nær ekki að fiska orðin uppúr minninu. Að vera ekki fær um að muna orð, getur þá verið merki um heilaskaða, sýkingu eða slag, eða um að fólk sé að fá Alzheimer. En í þeim tilvikum ,er þá það að gleyma orðum, einungis eitt af fleiri einkennum. Ef það að gleyma orði stöku sinnum er einungis gleymska og engin önnur einkenni sem fylgja henni, er hún eðlileg.
Orðið rifjast upp
Það að muna ekki orð getur verið óþægilegt, en í flestum tilvikum gengur það fljótt yfir. Orðið rifjast upp og við höldum áfram að tala eins og ekkert hafi í skorist. Rannsókn sem gerð var árið 1991 sýndi að þannig var þetta hjá flestum, þeim tókst fljótlega að rifja orðið upp og gleymskan kom ekki að sök.
Eldra fólk slakar frekar á
Satt best að segja virtist það að gleyma orði, trufla ungt fólk meira. Það beitti alls kyns aðferðum til að þvinga orðið fram, á meðan eldra fólk beið rólegt eftir því að orðið kæmi upp í hugann. Það virðist sem fólk ,sem hefur með tímanum vanist því að það gleymi orðum, eigi auðveldara með að slappa af, því það veit af reynslunni að orðið mun að lokum poppa upp.
Óttast frekar minnistap
En það veldur fólki sem komið er yfir miðjan aldur, annars konar stressi, ef það gleymir orðum. Það er vegna þess að það veltir fyrir sér hvort það geti tengst veikindum. Að það sé að missa minnið eða veikjast. Ýmislegt sem viðkemur minninu daprast með aldrinum, það er rétt, en þetta fyrirbæri að finna ekki orðin þó þau séu komin fram á varirnar, hefur samkvæmt rannsóknum lítið með það að gera. Með öðrum orðum það þýðir ekki að minnið sé að bila, það snýst einfaldlega um gleymsku.