Mannfólkið hefur löngum glímt við andleg þyngsl sem er vel þekkt meðal þeirra sem eldri eru. En nú bregður svo við að unga fólkið okkar er að falla í sömu gryfju. Það segir Eiríkur Örn Arnarson sálfræðingur vera alvarlegt mál því ef rétt væri á málum haldið séu til leiðir til hjálpar.
Eiríkur nam sálfræði í Manchester í Englandi þar sem hann og eiginkona hans, Þórdís Kristmundsdóttir lyfjafræðingur, voru við nám. Þau komu heim 1979 og sama ár hóf Eiríkur störf á nýreistri geðdeild Landspítalans. Í rannsóknum hefur Eiríks lagt áherslu á forvörn þunglyndis meðal ungmenna með aðferðum hugrænnar atferlisfræði. Hann vill grípa ungmennin okkar og snúa neikvæðu hugsanamynstri þeirra í jákvæða átt.
Þunglyndi sem býr um sig snemma á lífsleið er almennt talið alvarlegra en það sem síðar gerir vart við sig. Það gefur því auga leið hversu mikilvægt er að greina einkenni þunglyndis tímanlega og nú hefur Eiríkur og félagi hans, bandaríski sálfræðingurinn Edward Craighead, útbúið námskeið sem aðrar þjóðir hafa ákveðið að taka inn í skólakerfi sitt og byrgja brunninn. Eiríkur heldur áfram að hamra járnið því rannsóknir hans og samstarfsmanna sýna, svo ekki verður um villst, hversu mikilvægt er að greina einkennin snemma.
Orsakar mikla vanlíðan og ber gífurlegan kostnað
,,Spá Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar er að andleg þyngsl verði þungbærasti sjúkdómur heims 2030 og jafnframt sá kostnaðarsamasti,“ segir Eiríkur. ,,Við fengum áhuga á að rannsaka hvort unnt væri spyrna við og hugsanlega koma í veg fyrir þróun þunglyndis. Við sömdum í framhaldi námskeið sem byggði á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar. Sú hugmyndafræði var þá tiltölulega nýlega komin fram en sýnt hafði verið fram á að hún væri árangursrík í meðferð þunglyndis meðal fullorðinna. Þá var lítið farið að beita henni hjá börnum og ungmennum, en ákváðum engu að síður að útbúa námskeið fyrir ungmenni. Rannsóknir höfðu sýnt að helmingur ungmenna, sem væri kominn með mörg einkenni þunglyndis 14-15 ára, fengju fyrstu lotu þunglyndis á táningsaldri. Þá hönnuðum við handbók fyrir námskeið fyrir ungmenni með mörg einkenni þunglyndis en uppfylltu ekki skilmerki fyrir greiningu þess.“
Sumir komu auga á ávinninginn en ekki nógu margir
Eiríkur segir að margir hafi strax séð ávinninginn af því að styðja við rannsóknir sem hann og félagar hans vildu bjóða unglingum til að kanna hver staðan væri hér á landi. ,,Við gerðum svokallaða þreifirannsókn í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi og skólastjórnendur og bæjarfélagið sáu mikilvægið og studdu við bakið á okkur. Þetta varð fyrir vikið heilsteypt námskeið. Að lokinni skimun og greiningu buðum við þátttöku í rannsókn og var þátttakendum raðað af handahófi í tvo hópa þar sem annar hópurinn sat námskeiðið og hinn var til samanburðar. Við skimuðum á haustmisseri og keyrðum námskeiðið á vormisseri og fylgdum báðum hópum eftir í hálft og heilt ár. Námskeiðin fóru fram í sjö sveitarfélögum hér á landi“
Íslenskt hugvit í útrás
„Í ljós kom við eftirfylgd ári eftir námskeið að í samanburðarhópnum voru ungmennin 5 sinnum líklegri til að hafa þróað með sér lotu þunglyndis en hin sem námskeiðið sátu,“ segir Eiríkur. Rannsóknin, sem Eiríkur og Craigthead unnu vakti athygli þegar hún birtist í fagtímaritinu Behaviour Research and Therapy.
Þunglyndi helmingi algengara meðal stúlkna en drengja
Eiríkur segir að það sé einmitt í 9. bekk, þ.e. við 15 ára aldurinn, sem verður veldisaukning í greiningu þunglyndis. ,,Það er þarna sem kynjamunurinn
kemur í ljós og þunglyndið verður helmingi algengara meðal stúlkna en drengja,“ segir hann. ,,Langtímarannsóknir frá Asíu, Evrópu og Bandaríkjunum, þar sem fylgst hafði verið reglulega með börnum frá 11 ára til 21 árs, höfðu leitt í ljós að fram undir 14-15 ára aldur greindist þunglyndi tiltölulega sjaldan, en þá verði miklar breytingar og fer að bera á kynjamuni. Við 18 ára aldur hafa svo 14 – 15% ungmenna þegar uppfyllt greiningaskilmerkifyrir meiriháttar lotu þunglyndis. Vitað er að þunglyndi er þungbært fyrir einstaklinginn,fjölskylduna, vini, vinnuveitendur og þjóðfélagið allt,“ segir Eiríkur.
Vaxandi vandamál í vestrænum samfélögum
Menn velta fyrir sér hvað kunni að valda þessu vaxandi þunglyndi og Eiríkur segir eina orsökina sannarlega vera hormónabreytingar sem eiga sér stað hjá unglingum. ,,Svo eru það kröfur sem gerðar eru varðandi nám og frammistöðu og væntingar um framtíðina. Nú eru auk þess breytingar á þjóðfélaginu og samfélagsmiðlar hafa bæst við og pressan þaðan mikil. Niðurstöður rannsóknum frá ólíkum löndum hafa komist að sömu niðurstöðu, það er að segja að þunglyndi sé helmingi algengara meðal kvenna en karla. Ekki hefur fundist skýringuna á þessu en hins vegar eru sjálfsvíg mun algengara meðal karla.“
Að seinka óheillavænlegri þróun
Eiríkur og samstarfsfólk hans sýndu fram á að hægt væri að seinka þessari þróun og hugsanlega koma í veg fyrir hana. ,,Að mínu mati eru forvarnir mikilvægar en á Íslandi er varið um 1,8 % af fjármagni til heilbrigðismála í forvarnir, svo betur má ef duga skal.“
Þunglyndislyfjanotkun ungmenna þreföld á við Svíþjóð
Í Kastljósi þar sem rætt var um þunglyndislyfjanotkun ungmenna hér á landi kom fram að slík lyfjanotkun væri þreföld hér á landi á við Svíþjóð þar sem hún er mest innan Norðurlandanna. ,,Það sýnir alvarleika málsins og mitt áhugamál hefur verið að byrgja brunninn,“ segir Eiríkur.
Námskeiðið haldið víða en ekki á Íslandi
Eiríkur og samstarfsmenn framkvæmdu rannsókn í sjö sveitarfélögum á Íslandi. Það voru Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Garðabær, Reykjanesbær, Akureyri, Hafnarfjörður og einn skóli í Reykjavík. ,,Það var athyglisvert að árangurinn af námskeiðunum í mismunandi skólum var hliðstæður. Þegar við sendum grein til birtingar í erlendu tímariti var haft á orði að ekki væri víst að niðurstöðurnar væru yfirfæranlegar á önnur þjóðfélög því rannsóknin kæmi frá svo einsleitu þjóðfélagi. Svo vel vildi til að Portúgalar fengu áhuga á verkefninu og endurtóku rannsóknina og fengu nánast sömu niðurstöður og hér. Síðan hefur rannsóknin verið endurtekin í Grikklandi og nú síðast í Svíþjóð þar sem verkefnið hefur fengið byr undir báða vængi,“ segir Eiríkur.
Áhugi á verkefninu erlendis
Eiríkur segir að í dag sé samvinna við Portúgal, Grikkland og Svíþjóð og nýverð hafi komið fyrirspurn frá Utha í Bandaríkjunum.
Hann er bjartsýnn um að Íslendingar sjái ljósið líkt og margar aðrar þjóðir hafi þegar gert og átti sig á nauðsyn þess að byrgja brunninn.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar