Eldra fólk eyðir miklum tíma eitt

Hefur þú einhvern tímann velt því fyrir þér hvernig afi og amma  eða pabbi og mamma drepa tímann eftir að þau eru hætt að vinna. Bandaríska Vinnumálastofnunin gerði athugun á því fyrir skömmu hvernig fólk á mismunandi  aldri nýtir tíma sinn. Samkvæmt könnuninni eyðir eldra fólk mun meiri tíma eitt en fólk á öðrum aldursskeiðum.

Samkvæmt könnuninni eyðir fólk sem orðið er 55 ára og eldra, sama hvort það er gift eða ekki, stórum hluta dagsins eitt. Sama hvort það var að erindast út í bæ eða horfa á sjónvarpið. Einhleypingar  eyddu um það bil tíu stundum á dag einir, saman borið við 5,5 klukkustundir væru þeir í sambúð eða giftir. Einhleypir eyddu meiri tíma með ættingjum og vinum en þeir sem voru giftir eða í sambúð. Einhleypir eyddu að meðaltali fjórum klukkustundum á dag með vinum og ættingjum en hinir 2,5 klukkustundum.

Þegar þetta er borið saman við fólk á aldrinum 18 til 49 ára kom í ljós að sá hópur eyddi mun minni tíma í eigin félagsskap en þeir sem voru eldri.  Í yngsta aldurshópnum sem enn var í skóla eyddi fólk nánast engum tíma með sjálfu sér. Eftir því sem fólk eltist þess meiri tíma varði það eitt og samskipti þess við aðra minnkuðu.

Í könnuninni var fólk 65 ára og eldra var spurt hvað það væri að gera í frítíma sínum. Þeir sem voru enn á vinnumarkaði eyddu að meðaltali þremur klukkustundum á dag í að horfa á sjónvarp, þeir sem voru hættir að vinna eyddu hins vegar 5 klukkustundum á dag fyrir framan skjáinn.  Sá tími sem fólk notaði í samskipti við aðra annað hvort með því að hitta þá eða ræða við þá í síma var svipaður, sama hvort fólk var að vinna eða ekki, eða um klukkustund á dag. Báðir hóparnir eyddu að meðaltali um klukkustund í lestur á dag og sama tíma í húsverk.

Eldra fólki er hættara við að þróa með sér þunglyndi og einmanaleiki er einn áhættuþáttur þess. Aðrir áhættuþættir eru meðal annars sorg vegna veikinda eða fráfalls vina og ættingja eða eigin sjúkleika. Ef foreldrar, afar eða ömmur eða aðrir nánir ættingjar eru farnir að eyða meiri tíma í að horfa á sjónvarp en vera í samskiptum við vini og ættingja er ef til vill kominn tími til fyrir hina yngri að grípa í taumana. Þunglyndi er ekki eðlilegur fylgifiskur þess að eldast, þess vegna er nauðsynlegt að fylgjast með sínum nánustu og rétta hjálparhönd ef á þarf að halda.

 

Ritstjórn nóvember 3, 2016 15:53