Þunglyndi algengt á hjúkrunarheimilum

Samkvæmt rannsóknum er tíðni þunglyndis meðal vistmanna á hjúkrunarheimilum á Íslandi talin 40 til 50 prósent, og er það sambærilegt við það sem gerist í öðrum löndum. Þetta kemur fram í lokaverkefni  Ragnhildar Ægisdóttur, í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Ragnhildur telur að það þörf sé á frekari rannsóknum á þunglyndi eldra fólks, sérstaklega telur hún að þurfi að rannsaka hvort ekki sé hægt að meðhöndla þunglyndi á annan hátt en með lyfjameðferð. Notkun þunglyndislyfja á hjúkrunarheimilum hafi aukist á síðustu árum og eigi það jafnt við um Ísland sem og önnur lönd. Í niðurstöðum verkefnis hennar segir að greining á andlegri heilsu aldraðra geti verið flókin og vandmeðfarin. Erfitt geti verið að greina á milli þunglyndis og sorgar í kjölfar missis. Komið hafi í ljós að greiningarferlið á andlegri líðan aldraðra mætti verða nákvæmara og persónubundnara og taka tillit til  lífssögu viðkomandi einstaklings. Þunglyndisgreining hjá einstaklingi með vitglöp á einverju stigi sé einnig vandmeðfarin.

Ragnhildur telur að þunglyndi og vanlíðan hjá öldruðum, þá sérstaklega á hjúkrunarheimilum sé áhyggjuefni í heilbrigðiskerfinu og veikt fólk þurfi að meðhöndla af alúð og fagkunnáttu. Ekki þurfi endilega að vera samasem merki milli fjárhagslegs kostnaðar og gæði hjúkrunar.

Ritstjórn júlí 21, 2015 10:24