Nýlegar tölur um íbúafjölda á Indlandi er tæpur 1.5 milljarður og nú er landið í fimmta sæti yfir stærstu hagkerfin í heiminum á eftir Kína, Bandaríkjunum, Japan og Þýskalandi. Þeir stefna hraðbyri í að verða búnir að ná þriðja sæti og ekki er talið ólíklegt að þeim muni takast það 2030. Sem dæmi má nefna að í samanburði við Kína, stærsta og fjölmennasta ríki heims, búa Indverjar yfir mun fleira ungu fólki. Þar kemur til harkaleg stefna Kínverja í barneignarmálum um langa hríð á meðan Indverjar hafa leikið lausum hala á því sviði. Þeim hefur því fjölgað gífurleg og á meðan Kínverjar hafa gripið til þess ráðs að láta vélmenni hugsa um eldri borgara á hjúkrunarheimilum eiga Indverjar ekki við það vandamál að stríða. Þeir eiga nægan mannafla.
Væntingarnar og það sem við blasti
Ég vissi fyrir að á Indlandi væri gífurlegur uppgangur og að sögn þeirra sem vissu meira en ég væru þeir á leiðinni fram úr
öðrum stórum ríkjum. Þar í landi var hagvöxtur á síðasta ársfjórðungi 2023 8%, sem er mesti hagvöxtur í stóru hagkerfi, þ.e.a.s. mun meiri en í ESB ríkjunum, Bandaríkjunum eða Kína. Nú voru því mjög áhugaverðir tímar að heimsækja þetta risastóra land.
Íbúafjöldi á Indlandi er tæplega 1.5 milljarðar og í Delhi búa um 20 milljónir. Landið samanstendur af 28 fylkjum og er hvert fyrir sig með þing, ríkisstjórn og forsætisráðherra.
Narendra Modi er síðan yfir alríkinu en hann er 14. forsætisráðherra Indlands. Hann settist í embættið 2014, er sjálfur Hindúi og Múslimar eru þyrnir í hans augum. Hann er mjög umdeildur leiðtogi sem sumir segja að sé snillingur á pólitíska sviðinu og nú standa kosningar fyrir dyrum þar sem Modi er spáð sigri en það verður gífurleg spenna um allan heim þegar
þar að kemur.
Betlið áberandi
Indverjar eru duglegir við að mennta unga fólkið sitt og nú er í gangi prógramm á vegum stjórnvalda sem gerir öllum kleift að fá vinnu og húsnæði, líka þeim sem maðu
r sér betlandi á götum. Þeir hafa hins vegar komist að því að það er hægara sagt en gert að breyta hefðum og venjum í svo fjölmennu landi svo enn verður maður mikið var við bæði börn og fullorðna að betla. Ferðamenn eru beðnir um að gefa betlandi fólki ekki pening en Indverjinn sem fylgdi okkur sagði að það væru ekki bara ferðamenn sem gæfu heldur gerðu Indverjarnir sjálfir það ekki síður. Það er í trúnni þeirra að sé maður góður við náungann í þessu lífi verði manni launar það í því næsta. Svo þessum sið eða ósið verður ekki svo auðveldlega breytt en stjórnvöld vilja breyta.
Indland, alvöru útlönd
Við hjónin notuðum tækifærið og heimsóttum æskuvin eiginmanns míns, Gunnars Hrafnssonar en hann heitir Guðni Bragason og er þar sendiherra núna. Guðni hefur verið staðsettur í Nýju Delhi í þrjú ár og lætur vel af dvöl sinni þar en hann hefur verið búsettur víða um heiminn allt frá því hann var við nám í Þýskalandi ungur maður og síðar á vegum Utanríkisþjónustunnar. Guðni segir að það hafi þó ekki verið fyrr en hann kom til Indlands sem honum þótti hann vera kominn til alvöru útlanda. Löndin, sem hann hafi dvalið í áður hafi meira og minna líkst heimalandinu hvað menningu og menntun heimamanna varðaði en Indland hafi verið eitthvað allt annað.
Í Delhi er víða að sjá hús í byggingu en að sögn heimamanna hafa byggingarnar staðið ókláraðar árum saman. Lögin segja nefnilega að ekki þurfi að byrja að borga fasteignagjöld af húsunum fyrr en eftir að framkvæmdum er lokið og það er því innbyggður hvati í kerfinu að ljúka ekki við verkið. Smám saman hættir fólk svo að sjá að eitthvað mætti betur fara. Við, sem erum öðru vön, sjáum bara draslið sem fylgir því sem virðist vera sleifarlag við að ljúka verkinu. Þetta er eitt af því sem okkur þykir óskiljanlegt við indverskt samfélag. En þetta er þeirra háttur og þrátt fyrir allt gengur Indverjum vel að láta hlutina ganga upp.
Snertifletir við Indland ekki miklir fyrir
Við höfðum ekki þekkt marga Indverja áður en við héldum í ferðalagið þangað en þó höfðu indversk hjón, Preeti og Swathi, leigt hjá okkur um nokkurra ára skeið. Það var óneitanlega merkilegt að kynnast siðum þeirra og hefðum en það fyrsta sem vakti eftirtekt mína var alger höfnun Preeti á kvenréttindum. Það gat ég ekki skilið. Hann ávarpaði mig aldrei og horfði aldrei á mig þegar við umgengumst heldur beindi hann orðum sínum alltaf til Gunnars. Preeti var óþreytandi að segja okkur frá því að hann væri af stétt Brahmina sem er efsta stéttin en stéttirnar eru fjórar og neðstir að eru hinir ósnertanlegu. Swathi væri í stétt neðar. Preeti sagði okkur að faðir hans hefði rekið verktakafyrirtæki á Indlandi en orðið gjaldþrota og þess vegna hafi fjölskyldan flust til Bandaríkjanna.
Kynntist íslenski konu í Bandaríkjunum
Preeti sagði okkur dæmi úr æsku sinni að þegar hann vaknaði á morgnana hafi þjónn beðið tilbúinn með tannburstann og fötin hans við rúmið. Það var því engin von til þess að hann gæti þrifist í okkar heimi þar sem aðrar kröfur eru almennt gerðar til karlmanna. Preeti kynntist fljótlega íslenskri konu í Bandaríkjunum sem varð ófrísk eftir hann. Þau eignuðust son saman og Preeti kom svo á eftir henni hingað til lands. Þau skildu og hann hitti aðra íslenska konu og þau eignuðust saman barn og skildu líka. Þá fór Preeti til Bandaríkjanna og kom aftur til Íslands með indverska konu því hann vildi vera nálægt börnum sínum. Þau leigðu síðan kjallaraíbúðina hjá okkur. Preeti sagði við Gunnar í útskýringum sínum: ,,You know Gunnar, the problem vith Icelandic women is that they don‘t understand me.“ Svo leið smá tími og þá hafði hann heillast af enn einni íslenskri konu og yfirgaf þá indversku. Swathi sagði þá við mig: ,,You know Solla, I never really understood that man,“ og hristi höfuðið.
Indverskar konur rísa upp
Við fórum á magnaða myndlistarsýningu í Delhi þar sem kom saman hópur kvenna að sýna list sína. Sýningin bar yfirskriftina ,,Fair or fury“ og það er ljóst af þeim verkum að indverskar konur hafa vaknað til meðvitundar um rétt sinn. Svo á eftir að koma í ljós við hversu ramman reip er að draga þegar kemur að karllægu samfélagi þeirra en þær hafa sannarlega vaknað.
Trúin grunnur alls og án eyðileggingar verða engar framfarir
Forsætisráðherrann Modi er hindúi en 80% þjóðarinnar aðhyllist hindúatrú, múslimar eru 10-15% og kristnir 1-2 %. Hindúasiður er elstur af algengustu trúarbrögðum nútímans en hægt er að rekja uppruna hans allt til ársins 2.500 f.Kr. Helstu guðir hindúa eru Shiva og Vishnu en Shiva er guð eyðileggingar en Vishnu guð varðveislu. Þegar ég spurði Indverja sem var að leiðsegja okkur hvernig stæði á að þeir dýrkuðu guð eyðileggingar sagði hann að það væri augljóst því án eyðileggingar yrðu engar framfarir. Shiva sendi monsún rigningarnar til dæmis til þeirra einu sinni á ári og þegar þær væru yfirstaðnar gæti uppbygging hafist. Indverjar segja að Shiva hafi litið á Varanasi og séð að borgin væri eins og glitrandi stjarna þar sem allir gætu fengið óskir sínar uppfylltar og það er trú manna enn þann dag í dag. Til þess að lifa af þurfi allir flet til að sofa á og mat að borða því annars getum við ekki lifað. Shiva segir að þeir sem komi til Varanasi muni fá þessar óskir sínar uppfylltar, allir geti treyst því. Það virðist sem það sé metnaður íbúa Varanasi að uppfylla þessar fyrirskipanir Shiva og á göngu okkar um borgina sáum við fjölda manns liggja á götunni og okkur var sagt að þau gætu treyst því að einhver muni gefa þeim að borða. Þau þyrftu ekki að betla heldur muni maturinn koma til þeirra. Íslenska máltækið ,,þetta reddast“ virtist eiga við þarna og merkilegt nokk þá virtist enginn líða skort í Varanasi.
Borg hinna dauðu
Helgasti staður hindúa er hið heilaga Gangesfljót sem rennur frá Himalaja fjöllum og í Bengalflóa. Indverjar trúa því að þeir geti hreinsað sig af syndum sínum með því að baða sig í fljótinu en það rennur til dæmis með fram Varanasi sem er sú borg í heiminum sem hefur verið lengst í stöðugri byggð og er ein helgasta borg þar í landi. Borgin hefur ákveðna sérstöðu þar sem hvergi er boðið upp á kjötrétti. Guðinn Shiva sem stofnað borgina er talinn vera grænkeri. Íbúar borgarinnar hafa því fylgt ströngu grænmetismataræði og er hún fræg fyrir þess konar fæði. Ayurvedísk fræði eru höfð til grundvallar í allri matargerð og ekki má notast við lauk eða hvítlauk þar sem
hráefnið er talið vekja reiði og kvíða innra með manni.
Michelin kokkar víðs vegar um heiminn hafa nú reynt að endurskapa réttina sem finna má í Varanasi og áhugafólk fylgist spennt með.
Auðkýfingar sofa á götum úti Varanasi
Fólk hefur það mismunandi gott í Varanasi en allir virðast sáttir við sitt. Indverjinn sagði okkur að fólkið sem við sáum sofa á götunni væri heimilislaust fólk en gætu líka verið auðkýfingar. Þetta gæti verið fólk sem er búið að finna út að peningar færa þeim ekki hamingju. Það kemur til Varanasi til að leita uppruna síns og finna út hvað skiptir máli í lífinu þegar allt kemur til alls. Það væri ekki allur lúxusinn sem þau gátu keypt fyrir peninga heldur vilja þau núna fylgja straumnum og sætta sig við það sem er og upplifa eins einfalt líf og hugsast getur.
Stríðin orsakast af skilningsleysi
Trú Indverja er svo sterk að auðvitað er það ofar manns skilningi. Við ókum til dæmis fram úr fjölskyldu á mótorhjóli á hraðbrautinni þar sem maðurinn var við sýrið, móðirin sat aftast með ungabarn í fanginu og á milli þeirra sátu tvö börn, u.þ.b. þriggja og fimm ára og enginn var með hjálm. Þegar ég spurði Indverjann hverju þetta sætti sagði hann að það tryðu því allir að þeirra skapadægur væri löngu ákveðinn og þeir litu svo á að líkurnar á að ökumenn myndu keyra á þau væru hverfandi. Nú ef eitthvað gerðist þá væru guðirnir löngu búnir að ákveða að það ætti gerast. Þetta er atriði sem ég gat engan veginn skilið og ekki hægt að ætlast til þess, ekki frekar en margt í okkar trú er ofar þeirra skilningi. Ætli stríðin í heiminum orsakist ekki einmitt af þessu skilningsleysi sem er innbyggt í mannlega tilveru og mismunandi trú okkar á gildin í lífinu.
á hraðbrautum er ekki óalgengt að mæta nokkrum kúm gangandi í hægðum sínum eftir brautinni. Ekki má borða af þeim kjötið og ekki sýna þeim neins konar óvirðingu og ekki stugga við þeim hvar sem þær reika. Þær eru vanar því að fá að vera í friði og ef maður er svo óheppinn að aka á kú þá er fangelsisvist vís. Auðvitað getum við ekki skilið hvernig þetta má vera. En þetta er þeirra trú.
Barnabarn með RS vírus
Óneitanlega litaði ferð okkar Gunnars að þegar við lögðum af stað í ferðalagið voru kvefpestir að ganga á Íslandi og allt okkar fólk var með stíflað nef. Þar á meðal átta mánaða tvíburastelpu sem dóttir okkar á. Þegar við höfðum verið úti í fimm daga fengum við þær fréttir að annar tvíburinn væri kominn á sjúkrahús með súrefni og reyndist hún vera með RS vírus. Þá var ekki gott að vera föst á
Indlandi. Þá varð svo kristaltært hvað það er í lífinu sem skiptir okkur mestu máli og samanburðurinn við betlandi fólkið með ungabörn í fanginu var grátlegur. Ef við byggjum ekki við svo gott heilbrigðiskerfi á Íslandi er ekki víst að litlu tvíburarnir hefðu náð helsu því RS vírus getur verið lífshættulegur fyrir ungabörn.
Ungir Indvejar leita sér menntunar á Vesturlöndum
Indverjar vilja að unga fólkið þeirra sæki sér menntun til annarra landa þar sem það kynnist annars konar samfélögum og menningu og koma með til baka. Þar sem Indverjar eru svo ógnar margir mun taka tíma að gera breytingar sem manni þykir augljóst að hljóti að verða en heimur okkar er svo ólíkur þeirra að maður skyldi varast
að dæma. Og kannski er það ekki Indverjum ekki fyrir bestu að umbylta samfélagi þeirra sem virðist vera í ágætu jafnvægi þrátt fyrir allt.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.
–