Tengdar greinar

Eru verkir óhjákvæmilegur fylgifiskur ellinnar?

„Þegar ég hugsa til baka minnist ég þess að hafa séð afa minn og ömmu og seinna foreldra mína, fara sér hægt og kvarta undan verkjum. Ég taldi víst að þetta stafaði af því að þau væru gömul. Það væri ástæðan fyrir því að þau yrðu hægari í hreyfingum og hefðu verki í skrokknum“. Þannig hefst grein á vefnum sixtyandme, þar sem fjallað er um verki og aldur. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu og endursögn.

En er virkilega beint samband milli þess að eldast og hafa verki? Það er eðlilegt að spurt sé, ekki síst vegna þess að talið er að um 100 milljónir Bandaríkjamanna þjáist af króniskum verkjum.

Stutta svarið við þessari spurningu er nei, verkir eru ekki hluti af því sjálfsagða ferli að eldast. Króniska verki má yfirleitt rekja til sjúkdóma, meiðsla eða sálrænna og líkamlegra breytinga sem hafa áhrif á vefi líkamans og leiða gjarnan til þess að fólk hættir að hreyfa sig. Það er ekki hægt að kenna aldrinum einum um.

Þegar fólk verður fyrir varanlegum áhrifum af meiðslum eða sjúkdómum sem einhverra hluta vegna skerða hreyfigetuna, er það allt of oft vegna þess að það hefur ekki haft hugsun á að fara strax í þjálfun eða endurhæfingu sem gæti komið líkamanum í sama form og hann var í áður. Ef menn sleppa endurhæfingunni, hleður vandinn utan á sig og getur það með tímanum leitt til enn frekari vandamála.

Hefði þetta fólk fengið almennilega endurhæfingu, þ.e.a.s. þjálfun til að öðlast aftur getuna til að hreyfa ákveðna vöðva og styrkja þá, er líklegt að líkaminn hefði náð sér aftur. Menn hefðu aftur öðlast hæfileikann til að taka þátt í lífinu og verkir hefðu minnkað.

Manneskjan hreyfir sig minna og minna

Hugsið ykkur hversu mikið nútíma tækni hefur dregið úr hreyfingu manneskjunnar. Þetta er stundum kallað stirðnun, vegna þess að það reynir sjaldnast á hreyfigetu mannsins til fulls. Kannanir sýna að hver kynslóð segist upplifa meiri verki, en kynslóðin á undan.

Vandamál í stoðkerfinu eru helsta ástæðan fyrir langvarandi verkjum og örorku meðal eldra fólks. Þau slá út hjartasjúkdóma, slag, lungnasjúkdóma og meiðsli, þegar verkir eru annars vegar. Það er vegna þess að stoðkerfisvandamálin tengjast alls kyns atriðum sem minnka lífsgæði einstaklingsins. Nefna má eftirfarandi aðstæður sem geta orðið til þess að fólk sem er komið yfir miðjan aldur endi í þessari slæmu stöðu:

  • Virkni einstaklingsins minnkar og þar með dregur úr hæfni hans til að hreyfa sig og sinna verkefnum daglegs lífs.
  • Hættan á að detta eykst, sem getur valdið alvarlegum slysum og kallar á tilheyrandi læknismeðferð.
  • Kvíði eykst og fólk fer að upplifa þunglyndi og svefntruflanir.
  • Að lokum má nefna meiri líkur á því að menn þurfi að fara inn á stofnun, eða þarfnist umönnunar fagfólks.

Því miður eru 60% Bandaríkjamanna með stöðuga verki, sem oft eru ekkert meðhöndlaðir, að því er fram kemur í greininni. Þar við bætist að fái fólk meðferð, er það oft lyfjameðferð sem bætir ekki orsökina fyrir verkjunum.

Þekktar aðferðir sem byggjast ekki á lyfjum, eru hreint ekki notaðar við meðferðina, en þær aðferðir hafa sýnt sig auka virkni og sjálfstæði einstaklingsins og auka lífsgæðin almennt.

Þá vill það brenna við í meðferðinni að það farist fyrir að upplýsa fólk um stöðuna og nýjustu aðferðir við að meðhöndla verki.  En það hefur sýnt sig vera áhrifaríkt til þess að ná árangri í meðferð þeirra sem þjást af stöðugum verkjum.

Verkir eru flókið fyrirbæri

Þó margt sé vitað um verki, er enn margt sem er ekki vitað um þá. Það flækir málið að sársauki eða verkir eru ekki einungis viðbrögð líkamans við skaða sem hann verður fyrir heldur marghliða upplifun. Það er margt sem hefur áhrif á hana, svo sem líffræðilegir þættir, sálfræðilegir og  menningarlegir þættir. Þá skiptir heilsa einstaklingsins máli og hvernig hann er andlega á vegi staddur.

Allir þessir þættir og viðbrögð líkamans við þeim, hafa áhrif á það hvernig taugakerfið bregst við sársaukanum. Það hefur sitt að segja um þróun verkjanna, hversu slæmir þeir eru og hversu lengi þeir vara.

Ef sá sem þjáist af verkjum skilur um hvað málið snýst, þá er hann líklegri til að nota aðrar aðferðir en lyf til að ráða bót á þeim, aðferðir sem hafa sýnt að þær geta minnkað verki og jafnvel komið í veg fyrir þá. Skoðum þær aðferðir aðeins nánar.

Aðrar aðferðir en lyf til að slá á verkina

Eitt af því sem hefur áhrif á það hvort hægt er að gera verkina viðráðanlega er hvernig einstaklingurinn upplifir þá. Manneskja sem verður hrædd þega hún fær verki er líkleg til að forðast allt sem getur aukið á þá. Það hefur neikvæðar afleiðingar og leiðir til þess að lífsgæði viðkomandi minnka. Ekki nóg með það heldur getur slíkt viðhorf orðið til þess að verkirnir aukist og skerði þannig hreyfigetuna enn meira.

Ef einstaklingurinn tileinkar sér aftur á móti jákvætt viðhorf til verkjameðferðarinnar, með því að einbeita sér óttalaus að markmiðum sínum í lífinu og meðferðinni má búast við betri árangri. Slíkur einstaklingur hefur augun á því sem hann ætlar sér og því hvernig hann myndi lifa lífinu ef hann væri verkjalaus.

Hann tekur þátt í ýmsu sem hann langar til að gera, nánar tiltekið því sem færir honum ánægju. Rannsóknir sýna að slíkt viðhorf stuðlar að betri svefni, meiri gleði, meiri hreyfingu, betri heilsu og þannig láti menn verkina ekki draga sig niður. Þannig öðlist menn betra líf.

Mikilvægt að fá nægan svefn

Rannsóknir hafa sýnt að ónógur svefn hafi áhrif á næmi manna fyrir sársauka og dragi úr náttúrulegri hæfni heilans til að minnka hann.

Bent er á það í greininni að ónógur svefn hafi greinileg áhrif á verkjaupplifun einstaklingsins næsta dag. En góðu fréttirnar séu þær að með því að drífa sig í líkamlega virkni, megi bæta stefninn.

Aðrar aðferðir við að bæta svefninn séu líkamsþjálfun, það að fara alltaf að sofa á sama tíma, minnka notkun sjónvarps og annarra tækja fyrir svefninn og hafa svalt og dimmt í herberginu. Þá er talið gott fyrir svefninn að forðast áfengi, kaffi og tóbak. Þeir sem fjalla um svefn benda iðulega á þessar leiðir til að bæta svefninn. Með því að nota eitthvað af þeim, eða allar er hægt að bæta svefninn og samkvæmt þessari grein er þetta líka leiðin til að draga úr verkjum.

Hreyfingin allra meina bót

Fyrsta viðbragð fólks við verkjum er oft að minnka hreyfinguna og hvíla sig meira. En staðreyndin er sú að regluleg líkamsþjálfun sem stunduð er samkvæmt ákveðnu kerfi, dregur úr verkjum.

Íslenskar rannsóknir Dr. Janusar Guðlaugssonar sýna einnig áhrifamátt hreyfingar, þegar kemur að því að halda heilsunni sem lengst, þannig að menn geti lifað frjálsu og óháðu lífi fram eftir aldri.

Greinin birtist áður á vef Lifðu núna í febrúar 2022

Ritstjórn október 12, 2022 07:00