Fræðakaffi um Kynlegt stríð

Á Lifðu núna var fyrir skömmu fjallað um bókina Kynlegt stríð. https://lifdununa.is/grein/stridid-um-likama-kvenna/. Nú er fyrirhugað Fræðakaffi í Borgarbókasafninu Spönginni um þessa merkilegu bók. Hér á eftir fer fréttatilkynning um viðburðinn:

Nýju ljósi varpað á njósnir íslenskra yfirvalda um konur og stúlkur á hernámsárunum.

Á hernámsárunum höfðu margir miklar áhyggjur af samgangi íslenskra kvenna og hermannanna. Yfirvöld njósnuðu um mikinn fjölda stúlkna og fullveðja kvenna sem taldar voru ógna íslenskri menningu og þjóðerni. Umfang njósnanna og hversu langt var gengið í þeim á sér enga hliðstæðu í íslenskri sögu.

Á Fræðakaffi, sem haldið verður á Borgarbókasafninu Spönginni mánudaginn 22. apríl kl. 16:30 – 17:30 segir Bára Baldursdóttir sagnfræðingur frá rannsóknum sínum á þessu efni. Í bók hennar Kynlegt stríð, sem kom út fyrir síðustu jól, er greint frá nýjum upplýsingum sem komu í ljós þegar Bára fékk aðgang að tveimur skjalasöfnum á Þjóðskjalasafni Íslands sem varpa algjörlega nýju ljósi á efnið. Meðal heimilda Báru í rannsóknunum var dagbók hælisins á Kleppjárnsreykjum, þar sem stúlkur voru vistaðar mót vilja sínum til að bæta siðferðisvitund þeirra.

Bára Baldursdóttir hefur um árabil rannsakað samneyti íslenskra kvenna og hermannanna. Bókin Kynlegt stríð var tilnefnd til  Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og hún var einnig tilnefnd til viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna fyrr á þessu ári.

Ókeypis aðgangur er á Fræðakaffi og öll hjartanlega velkomin.

Viðburður á heimasíðu

Viðburður á Facebook

Ritstjórn apríl 19, 2024 10:32