Tengdar greinar

Stríðið um líkama kvenna

Öldum saman hefur verið reynt að koma böndum á líkama kvenna í karllægu samfélagi. Viðleitni til að stjórna löngunum þeirra, nautn, barneignum og sjálfsmynd er hluti af þessu stríði sem háð hefur verið leynt og ljóst gegn konum af mismiklu ofbeldi. Þetta hatur endurspeglast einstaklega vel í ástandinu svokallaða hér á landi og Bára Baldursdóttir afhjúpar það á skýran og skilmerkilegan hátt í bók sinni, Kynlegt stríð, ástandið í nýju ljósi.

Skjöl sem nýlega voru opnuð í Þjóðskjalasafninu eru ótrúleg. Þar er að finna sannanir fyrir; persónunjósnum, niðurlægingu, kúgun og ofbeldi gagnvart stúlkum og konum sem einhver grunur lék á að væru í tygjum við erlenda hermenn. Í raun er ekki undarlegt að erfingjar Jóhönnu Knudsen er skiluðu þessum skjölum inn hafi krafist þess að þau yrðu ekki gerð opinber fyrr en eftir hálfa öld. Það var ástæða til að skammast sín. Þegar kassarnir voru loks opnaðir kom í ljós að þetta voru opinber gögn, ekki einkaskjöl.

Ísland var hernumið þann 10. maí 1940 og bærinn fylltist af útlendum her. Konur fengu óvænta og nýstárlega athygli og það buðust skemmtanir sem áður höfðu verið fábrotnar og lítt spennandi. Yfirvöld höfðu miklar áhyggjur af samskiptum íslenskra kvenna og hermannanna og í viðleitni sinni til að stemma stigu við þeim sáust þau ekki fyrir. Stundaðar voru umfangsmiklar persónunjósnir og ekki þurfti mikið til að konur væru hreinlega teknar úr umferð eða stimplaðar. Umræðan var einsleit og óvægin. Konurnar voru sagðar lauslátar mellur, föðurlandssvikarar, ógna íslenskri menningu og hreinleika kynstofnsins og fleira og fleira.

Ýtt undir sleggjudóma 

Sett voru bráðabirgðalög og stofnaður svokallaður Ungmennadómur sem dæmdi stúlkur til sveitar- eða hælisvistar. Á Kleppjárnsreykjum var rekið heimili eða fangelsi þar sem stúlkur voru vistaðar til að bæta siðferði þeirra. Bára Baldursdóttir sagnfræðingur hefur lengi rannsakað samneyti íslenskra kvenna og hermanna og þegar hún fékk aðgang að tveimur lykilskjalasöfnum á Þjóðskjalasafni má segja að þar hafi komið fram gögn sem varpa algjörlega nýju ljósi á hvernig aðferðum var beitt og hve hart var gengið fram.

Fræðimönnum var veittur aðgangur að einkaskjalasafni Jóhönnu Knudsen árið 2012. Hún var fyrsta íslenska lögreglukonan og var í forstöðu fyrir eftirlitsnefnd sem rannsakaði samskipti íslenskra kvenna og erlendra hermanna. Sjálf skirrtist hún ekki við að njósna um konur, elta þær og láta svipta þær frelsi sínu. Fjölmiðlar ýttu svo undir sleggjudómana og studdu yfirvöld í raun og sann í viðleitni þeirra til að koma böndum á ástandið svokallaða og hið sama má segja um kirkjuna. Kynlegt stríð er fróðleg bók og sýnir hvernig konur og jafnvel afkomendur þeirra voru stimpluð af samfélaginu og máttu jafnvel sæta útskúfun. Flestir vissu orðið að þetta væri ekki falleg saga en líklega hefur enginn gert sér fyllilega grein fyrir hversu ljót hún er. Bára er tilnefnd til Fjöruverðlauna fyrir þessa bók og það er verðskulduð tilnefning.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 7, 2024 07:00