Sumir kunna að hafa talið að ættfræðiáhugi væri séríslenskt fyrirbæri en hafi svo verið ættu allir þeir fjölmörgu sjónvarpsþættir sem gerðir hafa verið um leitina að upprunanum um allan heim að hafa fært mönnum heim sanninn um að svo er ekki. Þörfin fyrir að þekkja rætur sínar og sögu forfeðranna virðist sammannleg og dýpka skilning manna á eigin sjálfi þegar þeir hafa kafað ofan í og kannað æviskeið þeirra sem á undan komu.
Þættir um leit nokkurra einstaklinga að uppruna sínum vöktu mikla athygli þegar þeir voru sýndir á Stöð 2. Þar var um að ræða fólk sem hafði verið ættleitt hingað til lands en hóf leit að blóðforeldrum sínum með aðstoð Sigrúnar Óskar Kristjánsdóttur og samverkamanna hennar. Á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum hafa um nokkurra ára skeið verið framleiddir þættir sem gefa frægum einstaklingum færi á að kafa ofan í uppruna sinn og kynnast forfeðrunum. Þessir þættir heita, Who Do You Think You Are? í enskumælandi löndunum og Hvem tror du at du er á Norðurlöndunum.
Sagnfræðingar, ættfræðingar og fleiri setjast yfir ættartré viðkomandi einstaklinga og hjálpa þeim að komast að sögum forfeðranna. Það er einnig hægt að skila inn DNA og fá það sent inn í genabanka sem skilar oft víðtækum og fróðlegum niðurstöðum. Oftast nær er það svo að flestir einstaklingar vita meira um annan anga fjölskyldu sinnar en hinn. Sumir vita meira um föðurfjölskylduna og aðrir móðurættina. Stundum hefur einhver einstaklingur nákominn horfið úr lífi fjölskyldunnar af einhverjum ástæðum. Foreldrar skilja og pabbinn er fjarlægur eftir það eða afinn og amman skildu og þar með fór tengingin við einn anga ættartrésins. Svo eru þeir sem þekkja ekki uppruna sinn og langfeðga vegna þess að reynt var að grafa yfir skömmina sem fylgdi tengslunum.
Skömminni aflétt
Þeldökkir í Bandaríkjunum bjuggu lengi við að finna til skammar vegna uppruna síns og forfeðra sem fluttir höfðu verið nauðugir með þrælaskipum til landsins. Nú hefur þeirri skömm verið aflétt og mjög margir hafa leitað aðstoðar genabanka til þess að komast að því meðal annars frá hvaða Afríkuríki þeir eru upprunnir. Eins þrá margir að fá að kynnast kjörum þeirra sem þræluðu á plantekrunum og finna huggun í að vita eitthvað um líf þeirra. Margt kemur á óvart þegar farið er að skoða það sem vitað er um ævi þessa fólks. Hið sama gildir um Ástrala. Þeir skammast sín ekki lengur fyrir að vera komnir af sakamönnum, enda reynast glæpir margra þeirra sem fluttir voru til nýlendunnar léttvægir.
En hvaðan sem þörfin fyrir upplýsingar sprettur er hún til staðar. Sjálfsmynd fólks er oft nátengd því að kenna sig við staði, vísa til ættareinkenna bæði hvað varðar útlit og skapgerð. Auk þess er spennandi að vita hvort einhver forfeðra manns hafi tekið þátt í sögulegum atburðum, sett svip á samtíma sinn eða verið hversdagshetja af stærri gerðinni.
Vantar púsl í spilið
Ef menn þekkja alls ekki eða aðeins lítillega annan ættlegg sinn er óhjákvæmilegt að það veki forvitni. Að fá í gegnum sérfræðingana sem starfa við þessa sjónvarpsþætti tækifæri til að teygja sig yfir haf tímans og setja sig í spor forfeðranna er eflaust frábær tilfinning. Þangað til menn hafa gert það vantar alltaf púsl í spilið. Nýlega kom í ljós að gen okkar geyma minningar um áföll, ekki bara okkar eigin, heldur einnig foreldra okkar. Þau bera svo auðvitað í sér reynslu fyrri kynslóða og þannig berast til okkar boðaföll langfeðga okkar en einnig þrautseigja þeirra og hæfni til úrvinnslu. Að kafa ofan í eigin fjölskyldusögu, kynnast aðstæðum fyrirrennara sinna hér á jörð getur komið fólki þægilega á óvart en einnig stungið það illilega í bakið. Oft má satt kyrrt liggja sagði fólk hér áður fyrr en ef genin okkar bera í sér minningar frá þessum tíma hví þá ekki að kafa ofan í þá og skynja kannski betur hvaðan eigin kvíði sprettur eða sú tilhneiging að forðast erfiðleikana?
Íslendingar hafa auðvitað sína Íslendingabók og nýlegt viðtal hér á Lifðu núna við þær Sunnu Pam Furstenau og Becky Byerly-Adams kynnti fyrir okkur umfangsmikinn og fróðlegan gagnabanka Icelandic Roots þar sem hægt er að tengja Vestur-Íslendinga við ættingja hér á landi og fræðast heilmikið um þá sem fóru út og ævi þeirra Vesturheimi. Eitt af því sem þar kom fram var einmitt að tengslin rofnuðu þegar fólkið fór. Fordómar þeirra sem eftir sátu réðu þar nokkru um en einnig fjarlægðin. Margir töldu einfaldlega að að þeir ættingjar þeirra sem höfðu flust af landi brott hefðu allir dáið þótt svo væri alls ekki.
Góð leið til að fá yfirsýn
Sagnfræðingar líta á ættfræði og ævisagnaritun sem góða leið til að kafa ofan í tíðaranda tiltekinna tímabila í sögunni. Þeir greina þar áhrif er teygja anga sína fram á svið stærstu atburða nútímans og telja að ef við ekki náum að skilja fortíðina sé engin von til að við náum yfirsýn yfir samtímann. Til að mynda gefa sögur einstaklinga okkur góða mynd af hvernig maðurinn tekst á við náttúruöflin, hugarfar og viðhorf fólks til sjálfs síns og annarra, pólitískt ástand svo sem eins og stéttaskiptingu, efnahagslegar leiðir og viðhorf til utanríkismála. Allt þetta getur verið lykillinn að því að skilja hvers vegna þjóðin sem við tilheyrum hefur kosið að byggja um einmitt það þjóðfélag sem við þekkjum.
Flestir menn hafa þörf fyrir að skilja samtíma sinn, átta sig á hvað réði ákveðnum hugmyndum, stefnum og straumum á hverjum tíma. Það hjálpar okkur að sættast við eigin þátt í því er fram fór og þeirri ábyrgð sem við berum á honum. Yngra fólki finnst mannlegt eðli yfirleitt ekki flókið og auðvelt sé að setja sér markmið og fylgja stefnu sem tryggir að allir draumar rætist. Hinir eldri þekkja og vita að ytri aðstæður blanda sér oft í leikinn og gera óskir manns og hugsýnir að engu.
Íslendingar ættu að nota tækifærið á ættarmótum og tala við elsta fólkið á staðnum, fá það til að segja uppvexti sínum og lífi. Það er aldrei að vita nema merkilegar ævisögur leynist meðal þeirra sem enn lifa og minningar þeirra um þá sem horfnir eru eru verðmætar.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna.