Tengdar greinar

Þjóðsagnapersónur sem gætu hafa verið til

Nú á dögum þarf ekki annað en að slá nafn einstaklings inn í tölvuna og upp koma heilmiklar upplýsingar um æviatriði þeirra. Það er þó ekki langt síðan að hvorki var aðgengilegt né auðvelt að finna út hvar og hvernig fólkið lifði er gisti þessa jörð á undan okkur. Margt er á huldu um stórmenni sögunnar hvað þá minni spámenn. En lítum á nokkrar persónur er allir þekkja og hafa kannski verið til og kannski ekki.

Bardagaprinsessan

Utan Kína þekktu fáir til Mulan þar til Disney gerði teiknimynd um þessa frægu valkyrju. Sagan af Mulan er velþekkt í kínverskum bókmenntum og líklega er hún ungum kínverskum stúlkum viðlíka fyrirmynd og þær Bergþóra Skarphéðinsdóttir á Bergþórshvoli og Auður Vésteinsdóttir úr Gísla sögu Súrsonar. Mulan var dóttir herkóngs er átti í vök að verjast gegn innrásarliði. Hann er veikur og stúlkan klæðist herklæðum og leiðir herinn mót óvinunum og hefur sigur.

Í kínversku skuggaleikhúsi er hún áberandi persóna og til er kvæði um hana er heitir Ballaðan um bardaga Mulan. Traustar sögulegar heimildir um að hún hafi verið til eru hins vegar engar. Sumir vilja meina að hún sé byggð á Wei Huahu, raunverulegri valkyrju eða hermanni í fornöld í Kína. Ekki er hins vegar vita hvort sú kona barðist í karlmannsklæðum né heldur hverra manna hún var. Hvorki skuggaleikhúsið né kvæðið tiltaka hvar Mulan bjó eða hvað faðir hennar hét sem gerir mönnum enn erfiðara en ella að sannreyna söguna.

Til er texti frá árinu átján eftir Krist, Lienü zhuan eða Afburðakonur hins forna Kína, skrifaður af Liu Xiang en þar er að finna yfir 120 ævisögur frægra kvenna og í gegnum tíðina hafa aðrir sagnaritarar tekið við keflinu og bætt við merkum konum. Mulan er ekki þar á meðal. Þótt hún hafi að vísu átt að lifa nokkrum öldum eftir að Liu skrifaði upphaflegu bókina er ólíklegt að sporgöngumenn hans hefðu látið þessa stórstjörnu liggja óbætta hjá garði.

Góðhjartaði þjófurinn

Allir þekkja söguna af Hróa hetti og vita jafnframt að aldrei hefur verið fulljóst hvort hann raunverulega ríkti yfir þjófagengi sínu í Skíriskógi eður ei. Hin unga Maríanna, ástkona hans og stuðningsmaður, er sömuleiðis hulin miklu mykri. Sögurnar um hann urðu til á 13 og 14 öld. Þá voru krossferðirnar í algleymingi og Ríkharður ljónshjarta konungur Englands fór fyrir liði sínu í landinu helga. Heima ríkti bróðir hans Jóhann landlausi án þess að hafa fullt umboð allt þar til bróðir hans dó árið 1199. Jóhann var þekktastur fyrir að missa úr höndum sér flest heröð Englendinga í Frakklandi og standa í ákaflega kostnaðarsömu stríði við Frakka til að reyna að ná þeim aftur.

Á þessum árum bárust fréttir hægt á milli landa og alls konar aðstæður mættu þeim krossförum er sneru aftur. Þeir höfðu í mörgum tilfellum verið taldir af og eignir þeirra, eiginkonur og börn iðulega í höndum annarra. Sagnfræðingar er plægt hafa í gegnum alls konar skjöl telja þó helst að Hrói sé byggður á Fulk FitzWarin, enskum aðalsmanni er barðist gegn Jóhanni kóngi til að endurheimta lönd sín og erfðir.

Kínverski spekingurinn

Trúarheimspeki stórs hóps Kinverja er byggð á skrifum hins merka Konfúsíusar. Hann lagði grunninn að ákveðinni siðfræði og var einkum strangur í kröfum sínum um að menn virtu sannleikann. Nokkuð sem aðdáendur hvítra lyga geta líklega ekki tekið undir með honum. Þar sem þar að auki leikur nokkur vafi á að Konfúsíus hafi yfirleitt verið til ættu menn bara að halla sér af og til þessum saklausu og skaðlausu frávikum frá staðreyndum.

Nokkrir sagnfræðingar hafa haldið fram að Konfúsíus hafi vissulega verið raunverulegur maður en hann hafi verið skírður Lu og stofnsett svokallaðan Ru skóla í kínverskri hugsun. En ýmiss skjöl benda til að þar hafi verið allt annar maður á ferð en hinn strangi siðapostuli. Ef þjóðsagan er sönn var hann uppi á 5 öld eftir Krist og var í senn hugsjónamaður, pólitíkus og hetja. Allar heimildir um hann eru á hinn bóginn svo þversagnakenndar og ótraustar að engin leið er að fullyrða með nokkurri vissu neitt um tilvist hans. Þessi Sókrates Kínverja verður því ævinlega hjúpaður nokkurri þoku en kenningar hans lifa góðu lífi enn þann dag í dag.

Örin og epli á höfði barnsins

Hrói höttur átti að vera lipur bogaskytta en varla hefur hann komist í hálfkvisti við Vilhjálm Tell. Sú svissneska frelsishetja er þekktust fyrir að setja son sinn í bráða lífshættu. Hann var að sögn uppi á 14 öld þegar Hapsborgarættin réði lögum og lofum í Sviss. Ef marka má söguna hafði austurrískur ráðamaður hengt hatt á stöng í bænum Altorf og skipað öllum Svisslendingum er leið áttu um að taka ofan fyrir honum. Dag nokkurn gekk Vilhjálmur þar framhjá ásamt syni sínum og lét vera að kippa húfupottlokinu af höfði sér. Vegna þessarar móðgunar við hattinn skipuðu Austurrískir hermenn honum að skjóta epli af höfði sonar síns úr hundrað og tuttugu skrefa fjarlægð eða vera tekinn af lífi ella. Vilhjálmur reif upp lásboga sinn og skaut, hitti eplið og þeir feðgar héldu á brott. En vegna óhlýðni sinnar við ofríki ráðamanna var Vilhjálmur fengin til að leiða uppreisn gegn Austurríkismönnum og Svisslendingunum tókst að hrekja þá af höndum sér. Seinni tíma sagnfræðingar hafa hins vegar efast mjög um sannleiksgildi þessarar sögu og benda á að hún er mjög svipuð gömlum þjóðsögum frá öðrum löndum.

Herforinginn er heillaði Wall Street

Ein frægasta bók allra tíma um hernaðarlist er án efa The Art of War eða Hernaðarlistinn eftir Sun Tzu. Ef marka má goðsagnir var þessi snjalli herforingi upp í Kína í fornöld og stúderaði allar mögulegar leiðir til að heyja bardaga. Á sama tíma gaf hann einnig góð ráð til að vekja eldmóð og fylgispekt meðal almennra hermanna. Sun Tzu var velþekktur í Kína og kenndur í nokkrum herskólum í heiminum allt þar til hákarlar Wall Street uppgötvuðu hann. Þar varð að einhvers konar stöðutákni að segjast hafa lesið Sun Tzu. Nefna má að Gordon Gekko í kvikmyndinni Wall Street frá 1987 stærir sig af því að hafa stúderað hernaðartækni hans.

Nú á dögum hafa hins vegar verið viðraðar ákveðnar efasemdir um að Sun Tzu hafi verið til í raun og veru. Hvergi finnast skjöl eða heimildir um hann né heldur stafur um uppruna þessarar merku bókar. Hún er eingöngu til á mörgum bambusörkum saumuðum saman og flæktist milli herforingja og annarra er töldu sig hafa þörf fyrir hana. Allt eins víst er að hver og einn hafi bætt við sinni sýn og viðhorfum og að hin einstaka innsýn Sun Tzu í hernaðarlistina sé eingöngu þjóðsaga. Á hinn bóginn er ekki hægt að líta framhjá því að enn er bókin lesin og menn telja sig hafa úr henni góðar lexíur.

Kvenpáfinn er hlaut andstyggileg örlög

Sögusögnin um Jóhönnu páfa eða pope Joan hefur verið lífseig þótt Vatíkanið neiti staðfastlega að nokkur fótur sé fyrir henni. Konan sú var upp árið 855 eftir Krist og á þeim tímum voru konur lítt áberandi á opinberum vettvangi. Hún gekk í klaustur dulbúin sem ungur drengur til að geta lært og gáfur hennar fleyttu henni hratt upp metorðastigann og alla leið í Vatikanið. Þar náði hún svo langt að hún var valin í páfastól en rifin í sundur af æstum múg á götum Rómarborgar er hún féll niður á leið frá messu og ljós var að hún var að fæða barn.

Hræðileg örlög, jú, vissulega en flest bendir til að þetta sé bara saga. Þeir sem trúa henni benda hins vegar á alls konar listaverk og skjöl sem eiga að innihalda vísbendingar um tilvist hennar en lykilorðið hér er vísbendingar. Kaþólska kirkjan hefur hins vegar margoft lýst því yfir að hún sé ekki annað en munnmælasaga og skjöl Vatíkansins, sem eru nákvæm og vel varðveitt, sanni að svo sé.

„Þá riðu hetjur um heröð“

Ef marka má Íslendingasögur voru það engin smámenni er settust að hér á Íslandi og byggðu upp blómlegar sveitir. Afburðamanneskjur á borð við Auði djúpúðgu, Ingjólf Arnarson, Hallveigu Fróðadóttur, Skalla-Grím og Geirmund heljarskinn voru með þeim fyrstu er hingað komu en afkomendur þeirra voru ekki síðri. Guðrún Ósvífursdóttir, Bolli, Kjartan, Gísli Súrsson, Auður Vésteinsdóttir, Njáll Þorgeirsson á  Bergþórshvoli og Bergþóra Skarphéðinsdóttir kona hans, Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda og Hallgerður Höskuldsdóttir langbrók. Í raun væri hægt að telja upp allar hetjur Íslendingasagna. Allt var þetta fólk vel að guði gert, ýmist hvað gáfur og andlegt atgervi varðaði eða íþróttamenn miklir og kappsamt. Hins vegar er hæpið að fullyrða að í langfeðgatali okkar er nú lifum sé þessar hetjur að finna. Við vitum nefnilega alls ekki hvort þær voru raunverulega til eða ekki. Þrjár kenningar eru ríkjandi um tilurð Íslendingasagna nefnilega bókfestukenningin en fylgjendur hennar telja sögurnar höfundarverk ýmissa manna er styðjist önnur rit, heimildir og eigið ímyndunarafl við vinnu sína, sagnfestukenningin er gengur út á að sögurnar séu sannar munnmælasögur er skráðar hafi verið eftir sögumönnum á miðöldum og formfestukenningin en þeir er að henni hallast vilja meina að rithöfundar skrái sögurnar en formföst munnmæli séu meginuppstaðan í efninu er þeir skrá. Víst væri gaman ef hægt væri að fullyrða að hetjur hafi riðið um héröð landsins á þjóðveldisöld en því miður verður seint úr því skorið með fullri vissu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 12, 2024 08:31