Hópurinn þinn – Landsþing KÍ á Ísafirði

Kristín Linda Jónsdóttir

Kristín Linda Jónsdóttir hjá Huglind er sálfræðingur, fyrirlesari og fararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.

Við erum spendýr og höfum því eðlislæga þörf fyrir að tilheyra hópi. Spendýr sem er eitt á rangli er berskjaldaðra fyrir árásum rándýra heldur en það dýr sem nýtur styrks og skjóls hópsins. Þetta á ekki aðeins við á sléttum Afríku heldur líka í lífi okkar nútímamanna á norðurhveli. Öll vitum við til dæmis að það eykur öryggi að ferðast um hálendið með einhverjum og að það er öruggara að vera ekki einn á ferð í miðborg borga um nætur.

Hver er þinn hópur?

Að tilheyra hópi er líka mikilvæg vörn gegn félagslegri fátækt og einmanaleika sem því miður er of algengur í samfélagsgerð hins vestræna heims. Allt bendir til að fyrir marga sé ekki nægjanleg vörn gegn einsemd að ætla sér aðeins að tilheyra fjölskyldu og eiga vini, kunningja. Staðreyndin er sú að töluverður fjöldi fólks á litlar og jafnvel engar fjölskyldur. Margt kemur þar til, systkinahópar telja ekki lengur sjö eða tíu, almennt séð. Fólk flytur víðar en áður um heiminn og býr fjarri ættingjum og margskonar uppbrot og breytingar á fjölskyldum eru tíð. Líf nútímannsins er fjölbreytilegt og allskonar breytingar verða á vinasamböndum og kunningjatengslum.

Félög, klúbbar og kórar

Hér á landi erum við svo lánsöm að við höfum allskonar leiðir til að tilheyra hópi. Ýmiskonar félög klúbbar og kórar starfa víða um land, þar eiga margir sér dýrmætt gull, hópinn sinn.  Ef þú ert einn af þeim sem ekki tilheyrir neinum hópi gæti verið snjallt núna á hausdögum að skoða hug sinn. Gæti það hugsanlega aukið lífsgæði þín, öryggi og velsæld að ganga í einhvern hóp, vera með, tilheyra og opna á ný hlutverk og vináttutengsl?

Ljósmyndari: Silla Páls.

Kvenfélögin hópurinn þinn

Að þessu sinni er kastljósinu beint sérstaklega að íslenskum kvenfélögum enda verður 40. Landsþing Kvenfélagsambands Íslands, KÍ, haldið á Ísafirði dagana 11.-13. október 2024. Á Íslandi starfa nú 143 kvenfélög í 17 héraðssamböndum. Allar konur eru velkomnar í félögin eins og er því betur um ýmis önnur félög og klúbba hér á landi. Kvenfélög hafa látið gott af sér leiða á fjölbreyttan hátt fyrir samfélagið okkar í yfir hundrað ár. Í kvenfélagi hafa margar konur fundið hópinn sinn og innan þeirra hefur blómstrað félagsauður og samkennd sem hefur aukið hamingju og sæld fjölda kvenna. Yfirskrift þingsins á Ísafirði er; Valkyrjur milli fjalls og fjöru, og engin spurning að þar mun ríkja jákvæð og hvetjandi stemming sem blæs þeim sem upplifa orku og gleði í brjóst. Það er dýrmætt að tilheyra slíkum hópi.

Stígðu fram!

Núna á haustdögum er alveg kjörið fyrir þig að stíga fram og inn í hópinn þinn. Finna nýjan hóp og rækta tengslin þar eða taka ríkari þátt og dýpka tengsl og nánd í þeim hópi sem þú ert í nú þegar. Góð félagsleg tengsl koma ekki af sjálfu sér, við þurfum öll að taka meðvitaða ákvörðun um að vera með og rækta félagsleg tengsl. Lífsgæði og heilsa snýst jú um líkamlega heilsu, andlega og félagslega, alla þrjá þættina þarf að rækta svo vel fari.

Kristín Linda Jónsdóttir október 9, 2024 07:00