Bókin Vesturlönd í gíslingu eða harmleikur Mið-Evrópu eftir tékknesta rithöfundinn Milan Kundera inniheldur ávarp sem hann hélt á þingi tékknesta rithöfundasambandsins og ritgerð hans um harmleik Mið-Evrópu. Í báðum þessum ritverkum sínum beinir Milan sjónum sínum að menningarverðmætum Evrópu og hvernig lítil lönd einkum í miðju álfunnar hafa átt undir högg að sækja og viðleitni þeirra til að verja eigin tungumál og menningu.
Milan Kundera upplifði sjálfur yfirgang Rússa gagnvart sinni þjóð og það má auðveldlega tengja það sem hann hefur að segja við ástandið í Úkraínu. Hann bendir á að í sögulegu samhengi sé Evrópa samhangandi heild. Þótt hún skiptist í lönd og landsvæði er ákveðin menning og gildi ríkjandi um hana alla. Þar er vagga frelsis, lýðræðis og mannréttinda. Hann kemur inn á hversu mikilvægt það er fyrir litlar þjóðir að leggja rækt við sínar bókmenntir. Það er undirstaða þess að tungumálið varðveitist, sameiginlegur arfur bæði sögulegur og menningarlegur og ákveðin þjóðareinkenni.
Íslendingar geta sannarlega tengt við þessar vangaveltur hans einkum þegar haft er í huga að lesskilningi íslenskra skólabarna fer hrakandi. Til þess að halda tungumálinu lifandi þarf að skrifa á því og lesa það. Það er líka eitthvað magnað og áhrifamikið við að hugsa um hvernig við tengjumst öll gegnum sameiginlega sögu Evrópu, gegnum þau gildi sem þar hafa orðið til, þróast og varðveist. Það má lesa gegnum línurnar að Milan er mikið niðri fyrir. Hann talar af ástríðu og hrífa fólk með sér.
Menningararfurinn
Milan Kundera er í hópi bestu rithöfunda sem Evrópa hefur alið. Bækur hans lifa höfundinn og boðskapur hans um frelsi og mannréttindi. Hann neitaði því alltaf að hann væri pólitískur en þótt bækur hans lýsi fyrst og fremst kjörum og atburðum í lífi einstaklinga leynist engum að höfundur er að senda pólitísk skilaboð, enda skrifar hann í ritgerðinni um þau verðmæti sem felast í menningu þjóða, almennings en ekki bara einhverrar elítu. Hann rifjar upp atburði á borð við ungversku uppreisnina, Vorið í Prag og umsátrið um Tékkóslóvakíu árið 1968, tilraunir Pólverja til að rísa upp og hrista af sér rússneska hlekki árin 1956, 1968 og 1970 til aðsýna fram á að almenningur skildi og studdi þau öfl sem knúðu þær byltingar. Það er ekki hægt að halda mönnum niðri endalaust. Fyrr eða síðar rísa þeir gegn kúgara sínum og listamenn gegna þar lykilhlutverki.
Skáldin, leikhúsin, kvikmyndagerðarmennirnir og allir aðrir sem leggja fram skapandi krafta sína til að tjá, endurspegla, skoða og ræða um samfélagsástandið eru bæði eldsneytið og vélin sem knýr fólk til að berjast fyrir betra samfélagi. Þessi litla bók Milans Kundera er þess vegna bæði mikilvæg, umhugsunarverð og áríðandi í ljósi þess ástands sem nú er í Evrópu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.