Ódýr falleg borg sem kemur á óvart

Tvennum sögum fer af því hvernig Riga, höfuðborg Lettlands varð til. Hins vegar eru menn sammála um að hún byggðist í byrjun tólftu aldar og er mikilvæg hafnar- og verslunarborg enn í dag. Áin Daugava eða Dúna, skiptir borginni í tvennt og hún stendur við minni hennar.

Styttan af Kristap við bakka Dúnu.

Í fyrri sögunni segir af mjög stórum manni, Kristaps, sem ferjaði menn á bakinu frá einum bakka Dúnu til annars. Sumir segja reyndar að hann hafi haft bát í förum. Hann hafði byggt sér kofa á hægri bakkanum og dag nokkurn heyrði hann barnsgrát úr runna á vinstri bakkanum og fór að til að athuga hverju sætti. Hann óð yfir og þar fann hann barnið, illa haldið, skítugt og svangt. Kristap bar barnið yfir þótt með hverju skrefi yrði það þyngra og erfiðara og aðeins með því að nýta síðustu krafta sína náði hann heim til sín.

Hann sinnti svo barninu, þvoði það, gaf að borða og kom því fyrir í rúmi sínu í hlýjum kofanum. Sjálfur sofnaði hann á gólfinu gersamlega örmagna en þegar hann vaknaði morguninn eftir var barnið horfið en þess í stað beið hans poki fullur af gullpeningum. Fyrir þessi auðæfi byggði Kristap borgina. Stytta af Kristap stendur við árbakkann og margir heimsækja hana daglega til að heita á dýrðlinginn sér til heilla bæði á ferðalögum og öðrum uppákomum lífsins

Frelsisminnismerkið í Riga.

Albert biskup ekki vinsæll

Hin sagan heldur því hins vegar fram að þriðji kaþólski biskupinn í borginni, Albert af Riga, hafi stofnað borgina árið 1201. Sagt er að Lettar vilji mun frekar halda í þjóðsöguna af Kristap eða Kristófer sem auðvitað er sankti Kristófer og barnið sem hann bar Jesús kristur sjálfur en að gefa hinum þýska Alberti heiðurinn af því að hafa lagt grunninn að höfuðborg þeirra.

Byggð var auðvitað beggja vegna Dúnu löngu fyrr þótt ekki hafi myndast borg við árósana fyrr en á miðöldum. Þá voru Hansakaupmenn valdamiklir um alla Evrópu og þeir settust að í Riga líka. Það eru þjóðflokkarnir, Lettgallar, Kúrar, Semgallar og Semar sem upphaflega byggðu landið en byggð tók ekki að þéttast né borgir að myndast fyrr en á miðöldum. Um svipað leyti hófst líka kristið trúboð í landinu og rússneska rétttrúnaðarkirkjan hafði náð þar talsverðri útbreiðslu þegar sú kaþólska hóf að koma sér fyrir.

Í dag er Riga hins vegar yndisleg borg, með vinalega íbúa, öll þægindi sem hægt er að hugsa sér, langa og einstaka handverkshefð, spennandi mat og sögu sem ánægjulegt er að kynna sér. Mikill metnaður einkennir alla þjónustu við ferðamenn. Á veitingahúsum er að fá gómsætan mat, spennandi drykki bæði áfenga og óáfenga og miðaldabyggingar gamla miðbæjarins eru stórkostlegar og gaman að skoða, enda á heimsminjaskrá UNESCO. Hinum megin við Dúnu er hins vegar að finna mikið úrval bygginga frá Art Nouveau-tímanum. Þær eru einstaklega vel varðveittar og óskaplega fallegar.

Á Rómantískasta kaffihúsi bæjarins.

Styttur, hús og matur

Um alla borgina er að finna margvísleg listaverk. Minnismerkið um frelsið gnæfir yfir þegar komið er niður í miðbæ og er góður punktur að miða við þegar verið að finna áttirnar í borginni og rata um hana. Hús Svarthöfðanna stendur við Ráðhústorgið. Þar er nú safn en húsið var upphaflega byggt á fjórtándu öld og hýsti Hansakaupmenn. Síðar varð það miðstöð Bræðralags Svarthöfðanna, félagskapar ógiftra kaupmanna, skipaeigenda og útlendinga í Riga. Húsið var sprengt í loft upp af nasistum í seinni heimstyrjöldinni en endurbyggt í fyrri mynd af Lettum eftir stríð. Aðeins nær ánni, neðar á torginu stendur minnismerki um lettnesku riffilskytturnar sem börðust í fyrri heimstyrjöldinni og reyndu að hrinda innrás Þjóðverja. Eftir stríð gengu þeir í rússneska herinn og voru þekktir fyrir hetjudáðir þar. Á miðju torginu stendur hins vegar Rolandsstyttan. Roland þessi var frændi Karlamagnúsar og leiðtogi Franka. Hann þótti strangur en réttlátur leiðtogi.

Enn hefur heimurinn hins vegar ekki uppgötvað þessa perlu við Eystrasaltið og þótt vissulega séu ferðamenn í miðborginni er alls staðar hægt að komast að og auðvelt að njóta alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða. Vefnaður og ullarvinnsla stendur á gömlum merg í Lettlandi og Dagný Hermannsdóttir hefur meðal annars ferðast með íslenskar konur þangað út til að kenna þeim að prjóna lettneska vettlinga. Það var gaman að ganga inn í minjagripaverslunina Senā Klēts og vera þar minnt á þessa löndu sína og hennar hæfileika bæði á sviðum prjónaskapar og sýringar grænmetis. Í versluninni Hobbywool rétt við Rómantískasta kaffihús bæjarins fær svo áhugasamt prjónafólk fyrsta flokks ull, silki og blandað garn. Allt handlitað og einstakt.

Eitt verðmætasta orgel í heimi. Það er í dómkirkjunni í Riga, smíðað árið 1884 í Þýskalandi. Pípurnar eru 6718.

En það er svo ótal margt fleira sem heillar við Riga. Hér eru alls staðar grænir garðar og nokkuð ljóst að menn hafa ekki fallið í verstu gryfjur þéttingar byggðar. Í görðunum eru gosbrunnar og á kvöldin er kveikt á lituðum ljósum í þeim sem gefa þeim ævintýralegan blæ. Og það besta við þetta allt er að borgin er einstaklega ódýr. Hér er hægt að fá gistingu á Radison Blu, fjögurra stjarna, hóteli í miðbænum fyrir 11.000 ISK nóttin. Þriggja rétta máltíð með drykkjum kostar svipað og hamborgari eða samloka á íslenskum veitingastað og allt gómsætt og einstaklega vel fram borið. Það má mæla með mörgum veitingstöðum í borginni, meðal annars Olivia í miðbænum og hinu dásamlega Rómantískasta kaffihúsi bæjarins. Léttir réttir á borð við gómsætar beyglur, salöt og sætar kökur er hvarvetna að finna í miðbænum og eiginlega sama hvern maður velur, allir góðir.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 24, 2024 07:00