Borg svana og súkkulaðis

Margir kvikmyndaáhugamenn minnast með hlýju kvikmyndarinnar In Bruges með þeim Brendan Gleeson og Colin Farrell í aðalhlutverkum. Í henni flýja tveir launmorðingjar til Brugge eftir misheppnað morð og bíða fyrirmæla. Þótt söguþráðurinn sé spennandi er þó ekki annað hægt en að heillast af borginni sem er í bakgrunni.

Brugge er stærsta borg og höfuðborg Vestur Flandurs eða Flæmingjalandi í Belgíu. Borgin er á heimsminjaskrá UNESCO, enda eru þar ótal vel varðveittar byggingar frá miðöldum. Hún hefur stundum verið kölluð Feneyjar Norðursins því aðalsamgönguæðarnar eru síkin.  Ekki er alveg ljóst hvaðan nafn borgarinnar er komið en líklegast þykir að það sé dregið af fornhollenska orðinu yfir brú.

Ævafornar mannvistarleyfar hafa fundist í borginni og ljóst að þar hefur verið byggð allt frá járnöld. Miðaldir voru blómaskeið borgarinnar og hún óx og dafnaði. Hún stóð á krossgötum verslunarleiða Hansakaupmanna og um hana fóru vörulestir frá Suður-Evrópu á leið sinni til Þýskalands. Þar var einnig mikill ullariðnaður og fataefni frá Brugge víðfræg. Upp úr aldamótunum 1500 hnignaði mjög efnahag borgarinnar en nýtt velmegunartímabíl hófst á síðari helmingi nítjándu aldar.

Í dag er Brugge vinsæll ferðamannastaður einkum vegna gömlu bygginganna í miðbænum. Meðal þeirra þekktustu má nefna Basilíku hins heilaga blóðs, Begulnage, gamla St. John sjúkrahúsið og ráðhúsið. Borgin er lítil en þar búa aðeins um 120.000 manns þegar allt er talið, miðbær og úthverfi. Þar er þó svo margt að sjá að enginn kemst yfir það á einum degi. Þetta er rómantísk borg góðum veitingastöðum og hótelum.  Nokkrir veitingastaðir eru margverðlaunaðir og þar er einn staður með þrjár Michelin-stjörnur, De Karmeliet. De Jonkman er með tvær og A’Qi , Sans Cravat, Den Gooden Harynck og Auberge de Herborist með eina.

Súkkulaði í líki svans

Allt frá miðöldum hafa Brugge-menn einnig framleitt súkkulaði sem þykir með því besta sem Belgía hefur að bjóða en er þó af nógu að taka þar.  Hið frægast er Brugsch Swaentje eða Svanurinn frá Brugge. Molarnir eru mótaðir í líki svans en uppskriftin er algjört leyndarmál en vitað er í þessa ljúfu mola er notað kex sem bakað er í borginni og er sérréttur þessa landssvæðis. Sagan segir að í lok fimmtándu aldar hafi hinn kúgaði almúgi í Brugge risið gegn hinum óvinsæla keisara Macxmilian af Aiusturríki. Uppreisnarmenn tóku hann til fanga og lokuðu inni í  Craenenburg, húsi sem stendur við markaðstorgið. Með honum var  ráðgjafi hans sem ekki var síður hataður og  hann var dæmdur til dauða. Maximilian var neyddur til að horfa á aftökuna. Honum tókst að sleppa og hefndi sín grimmilega með því skipa svo fyrir að allt þar til byggð leggðist af yrði borgin að halda svani á öllum sínum tjörnum og vötnum og kosta uppihald þeirra. Þetta var vegna þess að svanir hafa langa hálsa og nafn ráðgjafans ólánsama var einmitt Lanckhals.

Unnendur súkkulaðis geta svo heimsótt safn tileinkað sögu súkkulaðis og kakós allt frá dögum Mayanna til vorra tíma.  Það eitt ætti að næga til að gera heimsókn til Brugge þess virði.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 10, 2024 08:13