Mars – mánuður nýrra tækifæra og uppbyggingar

Nafn Marsmánaðar, þriðja mánaðar ársins, var í rómverska dagatalinu Martius en heitið var dregið af nafni rómverska stríðsguðsins. Mars var svo á hinn bóginn náskyldur gríska guðinum Ares en ólíkur honum að því leyti að Mars var einnig verndari landbúnaðar og nýgræðings. Hann var sonur Júpiters og Júnó. Það er því skemmtileg staðreynd að ár hvert enda mars og júní á sama vikudeginum.

Rómverjar töldu mars vera mánuð nýrra uppgötvana, kannana og nýrrar byrjunar. Líklega er það vegna þess að vorið er farið að láta á sér kræla  víða um heim þótt hér á landi sé enn allra veðra von og engin blóm sjáanleg. Fólk alls staðar fagnar ævinlega vorinu og finnur til feginleika þegar fyrstu grænu sprotarnir gægjast upp úr moldinni, páskaliljur, túlipanar og fleiri laukar taka að blómstra. Í Japan fagna menn því að kirsuberjartrén taka að blómstra um og upp úr 20. mars.

Líklega er þetta ástæða þess að mars var valinn alþjóðlegur mánuður sköpunar og þess vegna hefur árleg íslensk hönnunarhátíð fengið heitið Hönnunarmars. En fólk er hvatt til að láta reyna á sköpunargáfuna í mars og prófa ný hobbí, finna sér áhugamál, efla hæfni sína á ýmsum sviðum og finna nýja ástríðu í lífinu. Þess má geta að þann 7. mars árið 1876 fékk Alexander Graham Bell einkaleyfi á uppfindningu sinni símanum.  Í mars eru vorjafndægur en þá eru dagur og nótt jafnlöng að vori. Mismargir hátíðisdagar eru í mars en í ár ber bolludag upp á 3. mars, sprengidag upp á 4. mars og öskudag upp á 5. mars vegna þess að páskarnir eru seint í ár.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og þann dag ættu allir fagna framförum í jafnréttisbaráttunni, líta yfir farinn veg en jafnframt horfa fram á veginn og leita leið til að bæta úr því sem enn vantar upp á að fullu jafnrétti sé náð. Mjög víða nota konur þennan dag til verðlauna frumkvöðla, konur sem hafa náð langt og verið öðrum frábærar fyrirmyndir og verðlauna baráttukonur fyrir þrautseigju sína og fórnfýsi. Þema dagsins er yfirleitt mismunandi frá ári til árs einmitt til að minna á hversu margvíslegar hliðar jafnréttisbaráttan hefur og hve mikilvægt er að huga að þeim öllum þegar árangur er metinn og staðan tekinn.

Konur víða í heiminum nota þennan dag til að hvetja stjórnvöld í heimalandi sínu til dáða og aðrar nota list sína til að vekja meðbræður sína til umhugsunar um brotalamir annað hvort í nærumhverfinu eða úti í heimi. 8. mars hefur nýst vel til að efla samstöðu meðal kvenna þvert á landamæri og aukið skilning þeirra á kjörum hver annarrar í gegnum fundi, ráðstefnur og fræðsluverkefni sem jafnan eru í gangi þennan dag.

Dagur þagnar

Nyepi nefnist 11. mars á Bali en það er dagur þagnar og ein mikilvægasta hátíð ársins í Indónesíu. Þessi hátíð á sér enga líka neins staðar annars staðar í heiminum kannski vegna þess að fáir geta eða vilja leggja það á sig að þegja heilan dag, stunda hugleiðslu og íhugun. En hugsanlega er það öllum hollt og ef þetta hljómar illa má bæta því við að eftir þögnina fagna menn einlæglega með litríkum veifum, góðum mat og dansi.

Indónesar og Balíbúar þar með taldir trúa því að þögn og hugleiðsla hjálpi mönnum að hreinsa sálina, já hreinlega gera í henni góða vorhreingerningu. Með því að taka dag í þetta geti menn eytt neikvæðri orku og styrkt samband sitt við guðina. Þetta er dagur kyrrðar þar sem menn draga sig í hlé frá erli hversdagsins og njóta þess að vera einir með sjálfum sér, ígrunda eigið líf, skapgerð sína, gerðir, langanir og markmið.

Yfir daginn er alveg bannað að gera nokkuð en að kvöldi Nyepi, halda Balíbúar upp  „Ngrupuk“ en þá fer skrautlega klætt fólk í skrúðgöngur í gegnum bæina og alls konar götuleikarar fara í gegnum dansa og hefðbundnar athafnir til hrekja burtu illa anda. Þessi heilagi dagur er helgaður andlegum málum, friðsæld og samneyti við náttúruna. Balíbúar finna innri ró og nýja tengingu við eigið sjálf. Það er alveg spurning hvort Íslendingar gætu ekki haft gott af að taka upp einn svona dag.

Svo má minna á að indverska Holi hátíðin hefst 25. mars en þá fagna menn litunum og vorinu sem er komið á Indlandi með því að kasta alls konar litadufti hver á annan og smyrja sig í skærum litum. Íslendingar gera þetta í litahlaupinu sem haldið er í ágúst en kannski gætum við leyft okkur einn litríkan dag í mars líka.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 1, 2025 07:00