Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu ört vaxandi og virkt félag

Félag eldri borgara í Rangárvallasýslu er ört vaxandi og virkt félag. Félagið stóð fyrir fjórum hátíðum á starfsárinu. Góugleði var haldin í mars í Menningarsalnum á Hellu. Kvenfélagið Unnur á Hellu stóð fyrir veitingum sem voru saltkjöt og baunir. Heimatilbúið diskótek stóð fyrir dansi og skemmtinefndin skemmti gestum. 36 sóttu Góugleðina.

Jónsmessuhátíð var haldin í íþróttahúsinu í Þykkvabæ. Kvenfélagið Sigurvon sá um matinn sem var ljúffeng lambasteik með tilheyrandi. Hlynur Snær trúbador og Sæbjörg Eva dóttir hans léku og sungu fyrir dansi. 46 tóku þátt í jónsmessuhátíðinni.

Árshátíðin var svo haldin í október. Hún var vel sótt, rúmlega 80 tóku þátt. Veitt voru verðlaun fyrir besta árangur í pútti, skemmtinefndin annaðist skemmtiatriðin, kvenfélagið Eining í Hvolhreppi töfraði fram frábæran mat og fallega skreyttan sal. Veislustjóri var Ísólfur Gylfi Pálmason og Hlynur Snær trúbador annaðist dansmúsikkina.

Að þessu sinni var jólahlaðborðið haldið í Hvolnum á Hvolsvelli. Stjórnin skreytti salinn, Einar gjaldkeri las jólasögu og frábær maturinn var fenginn hjá Múlakaffi. Met þátttaka var á þessum viðburði þar sem 102 tóku þátt.
Félagið skipulagði þrjár ferðir. Í júníbyrjun var farin dagsferð. Ekið var um Flóa, listasafnið í Forsæti skoðað, snæddur hádegisverður í Þorlákshöfn og lífsgæðakjarninn sem gengur undir nafninu Nían skoðaður. Strandarkirkja skoðuð og að endingu kaffisamsæti í boði Félags eldri borgara Hveragerði.

Þriggja daga ferð á Snæfellsnes í júlí var vel heppnuð. Á degi eitt var hákarlasafnið í Bjarnarhöfn heimsótt, kvöldverður snæddur í Stykkishólmi og gist á Miðhrauni. Á öðrum degi var Snæfellsnesið skoðað með frábærri leiðsögn Svövu Svandísar Guðmundsdóttur. Á þriðja degi var haldið heim á leið með viðkomu í víkingabænum á Eiríksstððum og snæðingi á Hótel Bifröst.

Þriðja ferðin var dagsferð í Þakgil með viðkomu í Reynisfjöru. Í Þakgili voru grillaðar pylsur og notið einstaks landslags. Þórir Kjartanson var leiðsögumaður í Þakgil og þegar ekinn var hringur um Álftaver var Jónas Jónsson með hljóðnemann. Báðir frábærir leiðsögumenn. Á heimleið var komið við í Skógum og snæddur frábær kvöldverður.

Yfir sumartímann var boðið upp á vikulegt pútt á Strandarvelli undir styrkri stjórn Brynju Bergsveinsdóttur og sundleikfimi vikulega á Hellu og Hvolsvelli sem Drífa Nikulásdóttir stjórnaði.

Af verkefnum vetrarins má nefna Boccia tvisvar í viku á Hvolsvelli og Hellu. Vist spiluð vikulega til skiptis í þorpunum, bókaklúbbur, og gömlu dansarnir hálfsmánaðarlega. Hringur, kór eldri borgara æfði vikulega. Ákveðið var að gera hlé á starfsemi bókaklúbbsins vegna lélegrar þátttöku en við erum velkomin að taka þátt í Skruddum, bókaklúbbi sem er á vegum Hérðsbókasafnsins.

Handverk var iðkað tvo daga í viku á vorönn. Guðrún Óskarsdóttir hætti sem leiðbeinandi eftir vorönn. Við þökkum henni fyrir gott og óeigingjarnt starf sem leiðbeinandi. Fækkað hefur í handverkshópnum og því ákveðið að hafa einn

handverksdag í viku í stað tveggja. Brynja Bergsveinsdóttir og Þórunn Sigurðardóttir standa vaktina eins og undanfarin ár. Ester Markúsdóttir kom svo til starfa á miðri haustönn. Að venju var haldinn glæsileg handverkssýning í lok apríl.
Útskurður var vikulega undir styrkri stjórn Hjálmars Ólafssonar. Margrét Tryggvadóttir bauð upp á ókeypis handleiðslu í leiklist, framkomu o.fl. vikulega, tvö námskeið voru haldin í skapandi skrifum sem Harpa Rún Kristjánsdóttir kenndi.

Með bestu kveðju Sigdís Oddsdóttir

 

Ritstjórn mars 30, 2025 07:00