Fésbók og Linkedin gagnleg tæki í atvinnuleit

Samfélagsmiðlarnir Linkedin og Facebook geta báðir verið mjög gagnlegir þegar eldra fólk er að leita að nýju starfi eða hlutastarfi. Þetta kemur fram í grein á vefnum aarp.com. Fyrir þá sem ekki þekkja Linkedin byggir vefurinn á atvinnutengslum fólks. Vefurinn gerir fólki kleift að tengjast aftur körlum og konum sem það hefur unnið með í gegnum tíðina, jafnvel fyrir áratugum síðan. Ef þú ert komin/n á eftirlaun og ert að spá í hlutastarf eða starf sem verktaki gæti þetta verið góð leið til að finna ný atvinnutækifæri.

 Ræktaðu tengslin

Ræktarsemi við tengslanet í tölvuheimum er bráðnauðsynlegt á vinnumarkaði nútímans. Ástæðan er einfaldlega sú að vinnuveitendur ráða fólk sem þeir þekkja eða þekkja í gegnum sína tengiliði. Ef þú ert til í að biðja fólk beint um aðstoð við atvinnuleitina er líklegra að þú finnir þannig fólk á Facebook. Linkedin virkar helst fyrir þá sem leita að hálauna og stjórnunarstörfum eða fyrir þá sem hafa einhverja tiltekna starfsþjálfun eða menntun. Facebook kemur að gagni hjá þeim sem leita að hlutastarfi, eða fyrir þá sem eru með lítinn einkarekstur og vilja stækka kúnnahópinn.

Góð Facebook ráð

Settu upp góðan prófíl á Facebook Leggðu áherslu á vinnu og menntun, þ.m.t. hvar þú hefur unnið síðast liðin 10—15 ár. Slepptu að minnast á öll störf þar sem þú vannst skemur en hálft ár. Bættu við allri starfsþjálfum og menntun sem aflað hefur verið á síðustu árum. Tengslaupplýsingar  ættu að innihalda slóðir yfir á heimasíðu þína eða blogg ef þú ert með slíkt. Virkt tölvupóstfang skal fylgja með þó svo að fólk kunni einnig að hafa samband við þig beint í gengum fésbókina. Prófaðu að leita á fésbókarsíðum fyrirtækja, það gæti alveg gerst að þú finndir einhverja starfsmenn sem þú þekkir og gætu upplýst þig um atvinnumöguleika hjá fyrirtækinu. Það er líka hægt að skoða vini þeirra sem vinna hjá fyirtækinu, kannski leynist sameiginlegur kunningi þar.

„Lækið“ síður

Fjölmörg fyirtæki bjóða fólki að „líka við“ eða „læka“ fésbókarsíður sínar. Þannig færðu reglulega að frétta hvað er á döfinni hjá viðkomandi fyrirtæki. Ef þú ert með eigin rekstur er upplagt að búa til fésbókarsíðu fyrir reksturinn. Skoðaðu alls kyns hópa á samfélagsmiðlunum. Á fésinu er fjöldi hópa sem tengjast ýmsum atvinnugreinum og hagsmunum þeim tengdum. Flestir þessara hópa eru lokaðir þannig að þú þarft að biðja um aðgang að hópnum sem er yfirleitt einfalt og auðsótt. Innan sumra þessara hópa er oft spurt um sölumenn, iðnaðarmenn eða fólk sem getur tekið að sér verkefni tímabundið.

 

 

 

 

 

Ritstjórn júní 3, 2015 10:05