Mjög misjafnt er hversu næmir fyrir formi og litum menn eru og sumir eru ákaflega frumlegir í hugsun. Kermikvörur frá DAYNEW gefa einhvern veginn til kynna að þau séu gerð af manneskju sem hugsar út fyrir boxið. Ávöl formin og fíngerð mynstur eru heillandi og vekja löngun til að kynnast listamanninum. Konan á bakvið DAYNEW heitir Dagný Gylfadóttir. Hún hafði alls ekki ætlað sér að vinna með leir en hafði ódrepandi áhuga myndlist. Spádómur varð til þess að hún skráði sig á námskeið og ánetjaðist strax.
Hvenær fórstu að vinna með keramik og hvers vegna? „Það er gaman að segja frá því að ég ætlaði aldrei að læra keramik. Þegar ég var tólf ára fengum við að vinna með leir í skólanum og ég mótaði skó og litla styttu. Ég var aldrei ánægð með útkomuna og fannst ég mun betri í að teikna. Skóinn reyndi ég að fela úti í horni í glugganum. Mér fannst leirinn óþjáll og langaði bara að læra myndlist. Til þess fór ég á mismunandi námskeið hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur. Fyrst fór ég í teiknun og módelteikningu, vatnslitamálun, og olíumálun hjá Þorra Hringsyni. Það var góður grunnur.
Hins vegar bauð móðir mín, Guðný Jónsdóttir, miðlinum Amy Engilberts eitt sinn í saumaklúbb. Hún tók þær eina og eina inn í herbergið mitt og spáði fyrir þeim. Við mömmu sagðist hún sjá dóttur hennar móta höfuð í leir og það sé barnshöfuð og dóttir hennar eigi að fara að læra keramik. Auk þess sagði hún að hún sæi dótturina fara í langt keramiknám hér heima og einnig erlendis og henni eigi eftir að farnast mjög vel og vinna við þetta í framtíðinni. Mamma segir að hún eigi tvær dætur og viti nú ekki við hvora þetta ætti. Þá segir Amy sendu þær bara báðar á keramiknámskeið. Ég var mjög hissa á þessu þá og trúði því varla, en nú hefur þetta allt ræst. Ég er starfandi keramikhönnuður í dag og rek mitt eigið fyrirtæki DayNew.“
En þetta var ekki það eina sem kom fram í spádómnum hjá Amy. „Síðan segir hún að hún sjái Guðnýju Jónsdóttur langafasystur mína, alnöfnu mömmu,“ heldur Dagný áfram. „Eftir að foreldrar mínir skildu, fluttum við mamma suður og settumst að í húsi sem hún byggði við Sjafnargötu. Þetta er fjögurra hæða hús og þótti tíðindum sæta í Reykjavík í þá daga að kona réðist í slíka framkvæmd. Amy sá að Guðný hafði fylgt bróður mínum í háskólann og sá til að hann spjaraði sig vel í náminu. Eftir þetta kvöld sagði mamma mér að ég verði að prófa keramiknámskeið fyrir hana og nöfnu hennar. En langafi minn var Kjartan Jónsson og bróðir hans og Guðnýjar var Einars Jónsson myndhöggvari. Á heimili Unu Kjartansdóttur, ömmu minnar heitinnar, voru nokkur verk eftir Einar og okkur krökkunum fannst gaman að skoða og renna fingrunum eftir Öldu aldanna.“
Ákvað að láta drauminn rætast
Orð miðilsins létu Dagnýju ekki í fríði og urðu til þess að hún tók stökkið. „Síðan ákveð ég að prófa þetta og skrái mig á leir rennslu námskeið í Myndlistarskólanum í Reykjavík hjá Kolbrúnu Kjarval og það var ekki aftur snúið, þegar ég byrjaði að renna leirinn og móta hann með höndunum fannst mér það dásamlegt, samt erfitt en frábær upplifun að móta með höndunum. Í kjölfarið fór ég svo á nokkur námskeið hjá Steinunni Marteinsdóttir listakonu í Mosfellsbæ sem hvatti mig að fara í meira nám í keramiki.
Þegar hrunið varð árið 2008 var ég að vinna sem tækniteiknari á Arkitektastofunni Arkís og missti vinnuna. Fljótlega fékk ég samt annað starf hjá Arkform vann þar til 2010 þar en stóð þá aftur uppi atvinnulaus. Ég notaði tækifærið og fór í Tækniskólann í 3D teiknihönnun. Eftir það ákvað ég að tími væri til kominn að láta verða að því að gerast keramikhönnuður, láta þann draum loksins rætast og geta starfað við það í fullri vinnu.
Það varð til þess að ég byrjaði á að fara í nám á háskólastigi í Myndlistarskólanum í keramikmótun. Þetta var á árunum 2011 til 2013. En ég lét ekki staðar numið þar og hélt út til Carslile til að læra við University of Cumbria. Carlisle er lítill bær ekki langt frá Glasgow. Þaðan útskrifaðist ég með BA-(hons) gráðu Contemporary Applied Arts. Við fórum saman fimm konur út í nám og ég eignaðist marga góða vini meðan á því stóð. Við studdum hver aðra í okkar vinnu og héldum mikið saman. Fórum saman út að borða og í ferðalög til nágrannaborga og að skoða handverkssýningar, söfn og versla.“
Fékk útrás við leirmótun
Dagný segir að hún eigi það ekki síst fjölskyldu sinni að þakka að hún lét verða af því að taka sig upp og flytja tímabundið til annars lands. „Maðurinn minn, Þorsteinn Þorsteinsson, hvatti mig mikið til að fara út og klára námið. Börnin okkar voru þá á aldrinum níu til sautján ára. Mér fannst mjög erfitt að fara og skilja þau eftir heima, en námið tók tíu mánuði. Þau stóðu sig öll eins og hetjur og studdu mig með ráðum og dáð. Þorsteinn sá um heimilið og það bjargaði öllu að geta talað saman á skype á kvöldin og um helgar. Við vorum líka dugleg að fljúga á milli í heimsóknir. Við leigðum bílaleigubíl og fórum að skoða marga staði í norður Englandi og Skotlandi. Núna er ég í draumastarfinu sem ég elska svo ég er alsæl með að hafa tekið þessa ákvörðun.
Í dag er ég komin með þrjú yndisleg tengdabörn, sem eru mikið hjá okkur er mjög heppin með allt þetta góða fólk í kringum mig. Við segjum krökkunum okkar gjarnan að ekkert er öruggt í lífinu. Þú veist aldrei hvað gerist eftir mánuð. Menn þurfa að lifa í núinu. Ég nota leirinn mikið til að skapa og fá útrás fyrir allar tilfinningar. Leirinn gefur manni svo mikið. Það reynist mér líka vel að fara út að ganga, fá súrefni og hugsa um nýjar hugmyndir.“
Teiknimyndafjöll, sirkustjöld og skopparakringlur
Verkin þín hafa notið mikilla vinsælda, hverju þakkar þú það? „Ég held að léttleikinn og leikurinn í mínum verkum hafi heillað fólk. Innblástur sæki ég t.d. til leikfanga, skemmtilegra forma og mynstra. Ég hef alltaf haft áhuga á að hanna hluti sem eru svolítið svona „happy design“. Útskriftarverkefnið mitt í Englandi voru ljóskúplar úr hálfgegnsæju postulíni og mótaðir í skemmtileg form, frá sirkustjöldum að skopparakringlum. Fólk er líka hrifið að því að heyra hvernig hugmyndir verða til, sérstaklega ef það er saga í kringum hlutinn.
Fyrsta leirverkefnið okkar í Myndlistarskólanum var að handmóta dýr úr leir og við áttum að velja þannig að það lýsti lýsa persónuleikanum okkar hvers fyrir sig. Ég var fljót að átta mig á hvað ég vildi gera og bjó til sebrahest því þeir eru svo skemmtilegir og auðvitað röndóttir. Síðar kom í hugann hvað væri meira gaman og það var sirkussebrahestur í hringekju en ég hef alltaf elskað hringekjur. Ég stakk þess vegna stöng í gegnum sebrahestinn og svo hann væri á smáflugi, líkt og ég sem er stundum á bleiku skýi. Í náminu í Englandi var svo fyrsta ljósið sem ég hannaði var hringekja. Á vinnustofunni er ég alltaf með sebrahesta og einn slíkur fylgir mér á sýningar.
Gullvasarnir mínir hafa verið vinsælir, mig langaði að búa til nýja vasa, byrjaði að hafa formið dropalaga, því dropar og blóm tengjast. Næst ákvað ég að prófa að hafa litina yrjótta á þeim og með smá gyllingu til að fá smá „retro glam“. Ég nota liti frá fimmta áratugnum, eins og páfugls-, ljósbláa og blágræna, bleika, gyllta og milda pastelliti. Núna hef ég notað stetkari liti appelsínugula, rauða og græna. En litapalletta DayNew er sístækkandi. Mynstur eins og tíglar, rendur, sikk sakk, doppur og hringir í hafa alltaf heillað mig. Eins og ein þekkt setning frá DayNew: „Ef röndótt væri litur þá væri það uppáhaldsliturinn minn.““
Munirnir komnir um allan heim
Hvaðan ertu upprunnin? „Ég er fædd í Reykjavík, móðir mín eignaðist mig þegar hún var nýorðin 19 ára,“ segir Dagný. „Við mamma bjuggum fyrsta árið hjá ömmu Unu á Sjafnargötu, en ég flutti þriggja ára til Svíþjóðar með foreldrum mínum. Pabbi fór að læra brúar-, vega- og vatnatæknifræði í Stockholms Tekniska Institute STI. Þar bjuggum við þar til ég var níu ára en fluttum það ár til Akureyrar. Ég var fjórtán ára þegar við komum til Reykjavíkur aftur en síðan ég hef búið síðan á nokkrum stöðum, fyrir utan dvölina í Englandi við nám á árunum 2013-2014.“
Dagný hefur auðheyranlega tengsl víða um heim en munirnir hennar eru enn víðförulli en hún sjálf. Hún er einn eigenda Kaolin gallerís á Skólavörðustíg og vinnur þar nokkra daga í mánuði.
„Það er gefandi að hitta fólk, mikið af ferðamönnum sem koma að versla. Mér finnst spennandi að vita að verkin mín eru komin út um allan heim. Við skráum niður frá hvaða landi fólkið er sem verslar við okkur. Verkin mín eru búin að eignast ný heimili vítt og breitt um veröldina,“ segir hún.

Screenshot
Stækkandi fjallafjölskylda og vinsælir marþonverðlauagripir
Hver hafa stærstu verkefnin verið undanfarið eða helstu ævintýrin?
„Ég er með vinnustofu í Íshúsinu í Hafnarfirði og söluhorn. Undanfarin þrjú ár hefur mér verið boðið að búa til verðlaunagripi fyrir Reykjavíkurmaraþonið og Laugavegshlaupið. Þau vildu endilega bjóða mér að vera með aftur á þessu ári 2025 því þau og keppendur hafa verið svo ánægðir með vasanna. Það var mjög ánægjulegt að taka þátt í þessu og ég er í samstarfi við Hrefnu Hlín um útlit á næstu verðlaunagripum. Þeir hafa verið blómavasar með gulli fyrir Reykjavíkurmaraþonið í þremur stærðum en alls eru framleidd tuttugu og sex stykki.
Fyrir Laugavegs Ultra Maraþon hef ég búið til fjallavasa og fjallaluktir í svörtum, grænum og bláum tónum, sem eru í landslaginu á þessari fallegu hlaupaleið. Þar eru framleidd um fimmtíu stykki, enda keppt í mörgum flokkum. Það var en ákveðið var að hafa frekar íslenska hönnun í stað hefðbundinna málmbikara. Það hefur verið hálfgert maraþon að taka þátt í því og hef ég kynnst mörgu skemmtilegu fólki.
Árið 2023 var maraþonið fjörutíu ára og voru þá varð fyrir valinu sérstakur rauður litur sem er einkennandi litur fyrir Reykjavíkurmaraþonið. Við völdum þennan afmælislit, en ég fann hann í danskri keramik verslun. Danir eru auðvitað svo hrifnir af rauða litnum og hann er þar vinsæll í mörgum blæbrigðum. Það er svo mikill kraftur í rauða litnum.
Í fyrra bjó ég til í fyrsta sinn vasa úr svörtum leir sem var mjög spennandi að vinna með. Vinningshafar sem eru margir erlendir voru ánægðir með og tengdu gripina við Ísland og fannst þeir minna á hraun og svarta sanda. Til mín komu líka margir þátttakendur eftir hlaupið og báðu mig að gera fyrir sig sams konar gripi til minningar um þáttökuna þótt þeir hafi ekki náð verðlaunasæti. Fyrir Laugaveginn, Laugavegur – Ultra maraþon, hef ég verið með fjallavasa og fjallaluktir. Fjöllin eru svo kraftmikill og einkennandi fyrir Ísland og hef ég alltaf heillast af þeim. Ég er líka byrjuð að þróa hvíta og ljósbláa jökla og ísjakalínu sem er að þróast þessa mánuði. Hún verður ný viðbót við fjallalínuna, sem er sí stækkandi fjallafjölskylda.“
Mæðgur vinna saman
Í fjölskyldu Dagnýjar er mjög skapandi fólk og nú er að vaxa upp ný kynslóð með puttann á púlsinum hvað varðar hönnun og tækninýjungar.
„Já, dóttir mín, Eva Sólrún er mjög skapandi. Hún ákvað strax ellefu, tólf ára, þegar ég var úti í Bretalndi í mínu námi, að hún ætlaði að feta í mín fótspor mömmu og fara út í listnám.
Hún er nú að hanna markaðsefni fyrir DAYNEW meðfram námi sínu í hönnunnarskóla í Danmörku, Design School of Kolding. Þar stundar hún nám í grafískri hönnun. Við mæðgur erum að vinna að nýrri og spennandi vörulínu saman og erum núna að skissa upp hugmyndir í páskafríinu upp í bústað.
Þessi vörulínaa verður með nýjum og leikandi formum og öðruvísi litasamsetningum sem höfða til unga fólksins, sem eru að stofna heimili og hafa gaman að leika sér.
Við stefnum á að byrja að gera prótótýpur í sumar, þegar Eva Sólrún verður á Íslandi. Fyrstu hlutirnir verða líklega komnir fyrir næsta sumar. Svo það eru afar spennandi tímar framundan,“ segir Dagný að lokum.
Verkin hennar Dagnýjar eru til sölu í Kaolin Skólavörðustíg, Hrím í Kringlunni og einnig er hægt að líta við hjá henni á vinnustofuna í Íshúsi Hafnarfjarðar Hún stefnir einnig að því að opna vefverslun fyrir DAYNEW. Einnig er hægt er að sjá keramíkið frá DAYNEW á instagram dagny_daynew.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.