Listamaður étur doktorsritgerð sína

Í Svíþjóð hefur um nokkurt skeið staðið um það deilur hvort vísindalegar kröfur virki hamlandi á vissar greinar sem kenndar eru í háskólum, eins og listsköpun. Deilurnar hafa náð svo langt að doktorsnemi, hvers ritgerð var hafnað af dómnefnd, át hreinlega doktorsritgerðina í mótmælaskyni.

Ástæða höfnunar dómnefndar á ritgerðinni var að hún þótti ekki fullnægja þeim akademísku skilyrðum sem gerðar eru til slíkra verka. Athyglin var svo vakin með átinu á ritgerðinni þar sem það var í senn mótmæla- og listgjörningur.

Listamaðurinn, Bogdan Szybers, vildi koma því á framfæri að ekki væri hægt að stunda fræðilega vísindagreiningu á listsköpun – slíkt væri aðeins til að hindra frelsi til listsköpunar. Vísindalegar skorður háskólanna um uppbyggingu doktorsritgerða settu slíkar skorður að þær gætu ekki átt við um listgreinar og listsköpun. Um þetta fjallaði doktorsritgerð Bogdans. Dómnefndin taldi verkið aðeins lýsa annarri hlið málsins en fjallaði ekki um gagnrök. Eftir niðurstöður dómnefndar efndi listamaðurinn til listagjörnings þar sem hann matreiddi ritgerð sína og borðaði hana í viðurvist áhorfenda, eins og áður segir.

Nú snúast deilur skoðanabræðra Bogdans Szyberskis, og andstæðinga hans, um það hvort hægt er að fá rannsóknaniðurstöður þar sem list er skilgreind og flokkuð á einhvern hátt. Ef settar eru slíkar flokkunarreglur og vísindalegar mælistikur á list þá þrengi það að frelsi fólks til listsköpunar og geti beinlínis leitt til opinberra fyrirmæla um gæði listar. Þannig þróist listsköpun ekki heldur festir í niðurnjörvaðar skorður. „Verjið frekar fjármunum í að efla frelsi í listsköpun en í slíkar rannsóknir“, segja þeir sem telja fráleitt að hafna doktorsritgerð listamannsins.

Á móti er bent á að með vísindalegri umfjöllun um list, eins og aðrar greinar, sé verið að miðla aðferðum listsköpunar sem fleiri listamenn geti nýtt sér og þróað áfram á frjálsan hátt. Þannig nýtist m.a. aukin þekking á aðferðum í listsköpun í kennslu og samstarfi listnema, hvort sem er myndlist, tónlist eða öðrum listformum.

Emil B. Karlsson

 

Ritstjórn mars 7, 2025 07:00