Hefur þú einhvern tíma velt fyrir þér hvernig huldukonurnar í þjóðsögunum litu út? Ef svo er áttu erindi á sýningu á verkum Ingbjargar Helgu Ágústsdóttur í Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar eru þær lifandi komnar, glæsilegar konur á íslenskum búningi með dulúðuga rósemd í svipnum sem segir að þær hafi tök á að bæði launa greiða og hefna grimmilega fyrir svik. Ingibjörg Helga lærði fyrst fatahönnun en síðan 2008 hefur viður verið henni efniviður sköpunar og íslensku þjóðsögurnar uppspretta innblásturs.
Hvenær byrjaðir þú að skera út í tré? „Ég byrjaði að skera út fyrir einhverja alvöru árið 2008,“ segir hún. „Þá er ég beðin að senda inn verk á sýningu. Minn bakgrunnur er í raun í textíl en ég hafði alltaf haft áhuga á að vinna í tré þannig að þegar þetta tækifæri kom ákvað ég að láta á þetta reyna og kýla á að prófa þetta. Úr því verður veggverk með vísan í bæði þjóðsögur og búningahefðina. Það fékk það góð viðbrögð að mig langaði að vinna áfram með þetta og þannig vatt þetta upp á sig.“
Átta gerðir íslenskra kvenbúninga
Ingibjörg lærði fatahönnun í London og Kaupmannahöfn en nú er linditré það efni sem hún kýs sér. Hún er með vinnustofu í kjallara gamla verslunarhúss Tang & Riis í Stykkishólmi. Freyjurnar þínar eru íklæddar þjóðbúningum sem þú málar á tréfígúruna. Eru búningarnir réttir og alveg í samræmi við venjur og reglur um íslensku kvenbúningana?
„Já, mitt annað aðaláhugamál er íslensku þjóðbúningarnir svo ég legg mikla áherslu á að þeir séu allir saman réttir.“
Ekki allir gera sér grein fyrir að um þjóðbúninginn gilda mjög ákveðnar reglur eða kannski er það ekki rétta orðið. Hugsanlega er réttara að tala um siðvenjur og mjög mikilvægt er að halda því.
„Það er rétt og ekki allir gera sér grein fyrir hvað við eigum í raun ríka og fjölbreytta búninga og búningahefð. Ég ákvað fyrir nokkrum árum að gaman væri að setja saman sýningu þar sem væru bara búningarnir og þá komst ég að því að þetta eru í raun átta mismunandi gerðir af búningum sem við íslenskar konur getum komið okkur upp og notað. Hvernig þeir eru fer ekkert eftir neinu héraði eða landssvæði eins og í Noregi. Við getum bara ákveðið þetta sjálfar.“
Þú skerð líka út mjög glæsilega og fallega fugla. Eru þeir áhugamál líka?
„Ég byrjaði í raun á að gera veggverk byggð á þjóðsögum og þjóðtrú,“ segir hún. „Þar er hvert verk einstakt og þótt ég hafi unnið með sömu þjóðsöguna oftar en einu sinni er verkið aldrei endurtekið. Fuglarnir hins vegar eru verk sem ég hef gert í fleiri en einu eintaki. Þeir hafa verið mjög vinsælir og það er eins og allir eigi sér sinn uppáhaldsfugl. Íslendingar virðast mjög áhugasamir um fugla.“
Fædd og uppalin í Stykkishólmi
Kannski er ekki undarlegt að fuglarnir hafi heillað okkur eyjaskeggja. Þeir eru frjálsir ferða sinna, geta flogið fyrir eigin vængafli til sólarlanda og svo fáskrúðug er fána Íslands að þeir eru eiginlega einu villtu dýrin sem við getum státað af. En vinnur Ingibjörg Helga eingöngu við listsköpun?
„Já og nei, ég hef unnið við list meðfram annarri vinnu frá árinu 2008 en undanfarin ár hef ég nær eingöngu verið í þessu,“ segir hún. „Ég er fædd og uppalin í Stykkishólmi og hélt síðan suður í skóla og fór erlendis í nám. Ég kem þangað aftur árið 1995 og fór að vinna fjölskyldufyrirtækið, Ágústsson. Fyrirtækið var selt nýverið og nú erum við ganga frá og svoleiðis.“
Fyrstu tvær sýningar Ingibjargar Helgu voru í Norska húsinu í Stykkishólmi en hún hefur sýnt víða um land, m.a. á Minjasafninu á Akureyri, Þjóðminjasafninu og í Árbæjarsafni. Valið á sýningarstöðum kemur ekki á óvart þegar litið er til þess hve þjóðleg verk hennar eru.
„Já, þau passa svolítið vel inn á söfn,“ segir hún hlær. „En eftir að ég kom upp vinnustofunni fyrir vestan hef ég svolítið verið þar að sýna. Það er gaman fyrir fólk að sjá hvernig verkin verða til.“
Búkolla, faðirvorið og Bí, bí og blaka
En hvernig kom það til að þú heillaðist af íslensku þjóðsögunum og fórst að búa til listaverk innblásin af þeim?
„Eins og margir af minni kynslóð var ég svo heppin að alast upp inni á heimili þar sem amma og afi bjuggu líka. Ég var í miklum samskiptum við ömmu mína sem ég er skírð eftir. Mínar elstu og dýrmætustu minningar eru tengdar því þegar við vorum að leika okkur saman. Þá var ég einhver sögupersóna úr íslensku þjóðsögunum og amma lék aðra persónu á móti. Þetta hefur kannski verið svolítið innprentað í mann.
Áratugum seinna þegar ég var sjálf komin með eigin börn vorum við stödd utanlands með son okkar, þá lítinn, og ég var að reyna að svæfa hann. Það gekk eitthvað illa og maður hálfskammast sín fyrir að segja það að maður var vanur að kveikja á teiknimynd en þarna var ég ekki með neina bók að lesa og sjónvarpið bara á þýsku sem hann skildi ekki drengurinn svo ég fór segja honum og rifja upp á sama tíma sögurnar sem amma sagði mér. Sú fyrsta var náttúrlega Búkolla og það varð til þess að Búkolla varð fastur liður í hans æsku. Eftir það var það Búkolla, faðirvorið og Bí, bí og blaka og þar með var drengurinn sofnaður.
Í kjölfarið á þessu fór ég að lesa þjóðsögurnar aftur og finna nýjar og nýjar sögur. Svo var einstaklega gaman þegar maður hélt sýningar að ganga hringinn og segja fólki þær og sýna þeim verkin í leiðinni en þau höfðu flest hreyfanlega fítusa. Það var svo gaman að heyra og sjá hvaða skilaboð og boðskap fólk tók úr sögunum, ekki hvað síst vegna þess að þetta eru bara eins og Grimms-ævintýrin, sögur fyrir fullorðna sem höfðu ákveðið fordæmisgildi. Ég lærði heilmikið og ennþá að læra töluvert á þessu.“
Vasar með sels- eða fuglahaus
Fyrsta verkið sem Ingibjörg gerði og sýndi snerist einmitt um söguna af Búkollu. Þar mátti sjá kúnna og strákinn og allir sem þekkja söguna gátu lesið sig í gegnum það. En eru framundan fleiri sýningar og uppkomur á þessu árin en sýningin í Amtsbókasafninu?
„Sýningin fyrir norðan stendur út júlí og ég mun taka þátt í samsýningu á Dönskum dögum í Stykkishólmi. Það verður samstarfsverkefni. Ég hef einnig verið í samstarfi við Sigríði Erlu Guðmundsdóttur leirlistakonu í Stykkishólmi. Hún þykist vera hætt að vinna en er ennþá að gera ýmislegt sem hana langar að vinna. Hún gerir vasa og ég geri ýmist fugla- eða selshausa ofan á þá. Það eru nokkur slík verk á sýningunni fyrir norðan,“ segir Ingibjörg að lokum en allir sem vettlingi geta valdið ættu að skella sér norður á Akureyri í júlí og skjótast á bókasafnið til að skoða fugla, Freyjur og fleira spennandi úr sagnasjóði listakonunnar.
Vinnustofa Ingibjargar Helgu í Stykkishólmi er ekki með með fasta opnunartíma nema þegar sýningar standa yfir. En hægt er að fá að líta við hjá henni ef menn eiga leið um og hún hefur tök á að opna. Frekari upplýsingar um það má finna á https://bibi.is/.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.