Geðveiki eða snilligáfa Zeldu Fitzgerald

Oft er sagt að baki hverju stórmenni standi kona. Í mörgum tilfellum hefur þessi kvenvera í bakgrunninum munað öllu og stuðningur hennar við manninn komið honum þangað sem hann vill fara.  Á hinn bóginn hefur sjaldnast verið spurt hvert gjald hún greiði fyrir sína liðveislu. Stundum fórna þær öllu og fá aldrei að njóta sín.

Zelda Fitzgerald, eiginkona rithöfundarins fræga F. Scott Fitzgeralds, var ímynd alls þess sem glæsilegast og flottast þótti á þriðja og fjórða áratugnum. Sayre-fjölskyldan í borginni Montgomery í Alabama var ein fínasta og ríkasta fjölskyldan í bænum. Þau nutu svo mikillar virðingar að í daglegu tali bæjarbúa voru þau nefnd „konungsfjölskyldan“. Anthony Sayre dómari og kona hans áttu fimm börn og voru komin vel á miðjan aldur þegar það sjötta kom í heiminn. Það var lítil stúlka sem fæddist 24. júlí árið 1900. Hún var nefnd Zelda, ljóshærð og falleg prinsessa sem strax varð eftirlæti móður sinnar. Mikill aldursmunur var á Zeldu og eldri systkinum hennar þannig að í æsku lék hún sér mikið ein. Venjuleg skólaganga átti ekki vel við hana en hún las býsnin öll af bókum.

Þegar Zelda komst á unglingsár rauf hún einangrun sína og varð meðal vinsælustu stúlkna í hópi barna betri borgara í Montgomery. Vinsældir hennar voru ekki eingöngu tilkomnar vegna fegurðar hennar og glæsileika heldur einnig af því að stúlkan var fífldjörf og var alltaf tilbúin að taka þátt í uppátækjum sem foreldrarnir hefðu fordæmt ef þeir hefðu vitað af þeim. Zelda reykti, drakk og keyrði um ein í bíl með hópi af strákum, nokkuð sem siðprúðar stúlkur leyfðu sér ekki á þeim árum.

 „Zelda beið í festum á meðan en svo virðist að hún hafi lítið breytt lífsstíl sínum. Hún skemmti sér á hverju kvöldi og sótti dansleiki í fylgd ungra manna.“

Zelda Fitzgerald átti sér þann draum að verða ballettdansmær.

Ekki allt með felldu

Móðir hennar virðist hafa lokað augunum vandlega fyrir því sem uppáhaldið hennar aðhafðist en hún einbeitti sér þess í stað að því að sauma fallega kjóla handa dótturinni. Þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á voru settar upp æfingabúðir fyrir bandaríska hermenn á leið á vígvöllinn í Evrópu í nágrenni við Montgomery. Skemmtanamöguleikar Zeldu jukust við það um allan helming og hún notfærði sér það óspart. Meðal hermannanna sem þjálfaðir voru í Montgomery var ungur maður nýútskrifaður frá Princeton að nafni Francis Scott Fitzgerald.

Scott var komin af fjölskyldu sem áður hafði talist til yfirstéttar en misst stóran hluta auðs síns og þótt hún lifði ekki við fátækt taldist hún þegar hér var komið sögu eingöngu til neðri millistéttar. Ungi maðurinn var draumlyndur, stoltur og ákafur og hugðist skapa sér nafn sem rithöfundur. Hann heillaðist af ljóshærðu, fallegu ballerínunni sem dansaði fyrir hermennina á skemmtun í sveitaklúbbi Montgomery. Um þetta leyti var Zelda nýorðin átján ára en Scott var tvítugur. Hann kynnti sig fyrir ungu stúlkunni og augljóst var frá upphafi að neistar flugu á milli þeirra.

Hefði Scott ekki verið jafnástfanginn og raun bar vitni hefði hann hugsanlega tekið eftir ýmsum teiknum um að ekki væri allt með felldu í Sayersfjölskyldunni. Til að mynda má nefna að fyrsta kvöldið sem hann borðaði með þeim kom til orðakasts milli Zeldu og föður hennar sem endaði með því að hann elti hana hringinn í kringum borðstofuborðið með hníf á lofti og hótaði að drepa hana. Móðir Zeldu hafði einnig fengið taugaáfall nokkrum árum áður þegar næstelsta barn hennar dó og margt benti til að móðurfjölskyldan væri ekki í mjög góðu jafnvægi því elsta móðursystir Zeldu var geðveik en enginn nefndi það því nafni. Innan fjölskyldunnar var jafnan talað um að aumingja Marjorie væri alltaf lasin.

 „Um þessar mundir er almennt viðurkennt að Zelda hafi átt stóran þátt í að skrifa bestu skáldsögur manns síns.“

Bréfum Zeldu til Scotts var safnað saman í bók og þau gefin út. Þar er að finna sumt af hennar bestu og hjartnæmustu skrifum.

Villt líferni

En Scott var á leið á vígvöllinn og þau trúlofuðu sig með pomp og prakt. Hins vegar var gert vopnahlé árið 1918 og Scott því aldrei sendur í stríðið. Þess í stað hélt hann til New York til að hefja rithöfundarferilinn. Zelda beið í festum á meðan en svo virðist að hún hafi lítið breytt lífsstíl sínum. Hún skemmti sér á hverju kvöldi og sótti dansleiki í fylgd ungra manna. Scott fór að fá efasemdir vegna þessa og það endaði með því að þau slitu trúlofuninni. Zelda brá sér þá nakin í sund með nokkrum af félögum sínum en Scott fór á þriggja vikna drykkjutúr sem endaði þegar áfengisbannið gekk í garð í Bandaríkjunum.

Rithöfundarferill Scotts gekk heldur ekki vel en loks fékk hann vinnu á auglýsingastofu við textagerð og um svipað leyti fékk hann þær fréttir að skáldsaga hans This Side of Paradise yrði tekin til útgáfu. Smásögur hans tóku þá einnig að seljast og Scott vatt bráðan bug að því að útvega sér umboðsmann, sprúttsala og unnustuna aftur. Zelda hafði ekkert á móti því að verða kona vinsæls rithöfundar og hún trúði vinkonu sinni fyrir því að hún sæi bjarta framtíð blasa við sér.

Zelda og Scott giftu sig í St. Patrick’s dómkirkjunni 3. apríl 1920. Parið varð umsvifalaust eitt það heitasta meðal þotuliðsins í New York og Zelda vann sér það til frægðar að verða fyrst kvenna til að stökkva ofan í gosbrunninn á Union Square. Zelda drakk of mikið, skemmti sér of mikið og klæddist kjólum sem voru of stuttir að mati siðferðispostula og fáar aðrar konur þorðu að fara að dæmi hennar. Scott drakk ekki minna en eiginkonan og sjaldnast var hann nema rétt kominn inn úr dyrunum heima hjá þeim þegar hann sofnaði þungum drykkjusvefni.

Zelda og Scott voru yfir sig ástfangin en stundum er ástin ekki nóg.

Skiptu um nafn á dótturinni

Þrátt fyrir ólifnaðinn varð Zelda ófrísk og eignaðist dóttur árið 1921. Litla stúlkan var skírð Patricia en nokkrum dögum síðar breyttu þau nafni hennar í Frances Scott. Fyrstu sex ár ævi hennar kallaði Zelda hana þó Pat en allir aðrir kölluðu barnið Scottie. Móðir hennar gaf eftir að lokum og fór að nefna hana því nafni líka.

Fitzgerald-hjónin héldu til Frakklands eins og margir aðrir bandarískir listamenn á þessum tíma og til er ákaflega áhugaverð lýsing á Zeldu í bók Hemingways Veisla í farangrinum. Þar segir hann að hún hafi verið mjög falleg, gullinbrún á hörund og hárið á henni með stórkostlega fallegum dökkgullnum lit, auk þess hafi hún verið mjög vingjarnleg. Orð Hemingways eru hlý ekki síst í ljósi þess að síðar átti Zelda eftir að kalla hann hommann með hárin á bringunni og ásaka hann um að hafa átt í ástarsambandi við mann sinn.

Zeldu og Scott var á þessum tíma lýst sem hinu gullna pari í bandarísku pressunni en undir fallegu yfirborðinu kraumaði vanlíðanin. Þau rifust stöðugt og voru fræg meðal vina sinna fyrir heiftarleg rifrildi á opinberum stöðum. Hegðun Zeldu sem áður hafði verið talin skemmtilega sérviskuleg tók nú á sig aðra og ógnvænlegri mynd. Samræður hennar við aðra voru samhengislausar og hún varð æ furðulegri. Vinir þeirra og kunningjar sáu þetta, þar á meðal Hemingway og rithöfundurinn John Dos Passos. Scott vildi hins vegar ekkert sjá, enda var hann oftast of fullur til að taka eftir neinu.

„Vinsældir hennar voru ekki eingöngu tilkomnar vegna fegurðar hennar og glæsileika heldur einnig af því að stúlkan var fífldjörf og var alltaf tilbúin að taka þátt í uppátækjum sem foreldrarnir hefðu fordæmt ef þeir hefðu vitað af þeim.“

Zelda Fitzgerald var tákngervingur alls þess sem þótti glæsilegast á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.

Ekki síðri rithöfundur en eiginmaðurinn

Tveimur árum síðar varð Zelda yfir sig hrifin af frönskum herflugmanni. Sambandið varð aldrei meira en gagnkvæm aðdáun en hún bað Scott um skilnað í ástarbrímanum. Flugmaðurinn var hins vegar fljótur að gleyma henni eftir að herinn sendi hann annað. Zelda tók þetta svo nærri sér að hún reyndi að fremja sjálfsmorð. Eftir að hún hafði náð sér fór hún að reyna fyrir sér sem rithöfundur. Um þessar mundir er almennt viðurkennt að Zelda hafi átt stóran þátt í að skrifa bestu skáldsögur manns síns. Scott virðist hins vegar hafa verið hræddur við að hún reyndi þetta og taldi úr henni eins og hann gat og var ætíð afbrýðisamur út í rithöfundarhæfileika konu sinnar. Þegar hún síðar gaf út sjálfsævisögu sína, Save Me the Waltz, hlaut bókin hræðilega dóma, enda hafði Scott ritstýrt henni og vandlega ritskoðað alla áhrifamestu kaflana sem fjölluðu um baráttu hennar við geðklofa.

Þegar rithöfundarferillinn virtist ekki ætla að ganga reyndi hún í örvæntingu að ná aftur upp fyrri snilli sinni við ballettdans. Zelda var á yngri árum efnilegur dansari en um þetta leyti er hún tuttugu og sjö ára gömul og búin að eignast barn. Hver sem er hefði getað sagt henni að þetta væri vonlaust en hún lagði á sig ómælt erfiði sem skilaði litlu. Hún varð einnig veikari og veikari andlega og að lokum kom að því að jafnvel Scott gat ekki litið fram hjá því. Hún var lögð inn á geðsjúkrahús árið 1929 og næstu tvo áratugi dvaldi hún oftar á sjúkrahúsum en utan þeirra. Síðasti fundur þeirra Scotts og Zeldu var í anda samlífs þeirra en Scott fékk leyfi geðlæknis hennar til að taka hana með sér í frí til Kúbu. Þau voru varla komin til Havana þegar Scott var barinn illa eftir að hann reyndi að stöðva hanaat. Hann tók það svo nærri sér að hann fór að drekka sleitulaust. Zelda sá að hverju stefndi og kom sér upp á eigin spýtur aftur á geðsjúkrahúsið.

Hún sagði engum frá hvað hefði gerst og yfir því var Scott mjög hrærður og kallaði hana fallegustu, bestu, blíðustu og yndislegustu persónu sem hann hefði nokkru sinni þekkt. Scott sökk eftir þetta æ dýpra í fen alkólhólismans og dró fram lífið með því að reyna að skrifa kvikmyndahandrit sem ekki gengu vel. Hann dó af völdum drykkju fjörutíu og fjögurra ára gamall. Zeldu var bannað að vera við jarðarförina því læknarinir töldu að hún þyldi það ekki. Átta árum síðar dó hún þegar eldur kviknaði í eldhúsi geðsjúkrahússins sem hún dvaldi á og allir íbúar efstu hæðarinnar, sem var öryggisdeild, urðu eldinum að bráð því þeir komust ekki út.

 

Ritstjórn mars 6, 2025 07:00