Eins nútímaleg og einstök rafræn samskiptatækni nútímans er hefur hún að einu leyti sent okkur nokkrar aldir aftur í tímann. Tákn og myndmál er farið að skipta mun meira máli en áður og emoji-myndirnar eða tilfinningatákn, lyndistákn eða tjákn eftir því hvaða orð menn kjósa að nota, farin að yfirtaka samskipti okkar ekki ólíkt og gerðist og gekk á miðöldum.
Þegar allur almenningur var ólæs var nauðsynlegt að finna leið til að koma skilaboðum á framfæri á auðskiljanlegan hátt. Þá voru skilti og merki á húsum notuð til að vísa mönnum veginn að skósmiðnum, kránni, þvottakonunni, skraddaranum, saumakonunni og öllum öðrum þjónustufyrirtækjum. Myndir af skó, skeifu, nál, tvinna og fingurbjörg voru beinlínis stundum steyptar á veggi húsa, stundum málaðar og skiltum sem vísuðu veginn var komið fyrir á krossgötum.
Kirkjan fór þessa sömu leið, málverk, steindir gluggar, mósaíkgólf, útskurðarmyndir og fleira gengdi því hlutverki að minna fólk á dýrð guðs og sögur Bíblíunnar. Til verndar gegn illum öflum og hlúa að hinu góða voru þessi tákn endursköpuð í skartgripum, munum og myndverkum á heimilum. Krossinn, fiskurinn, dýrðlingamyndir og grískir stafir eru dæmi um þetta. Hver veit nema að því komi að við förum að gefa vinum emoji-hálsmen, styttur eða myndir til að sýna þeim ást okkar, ánægju og umhyggju?
Aþjóðlegt mál
Mannkynið hefur svo sem aldrei sagt skilið við myndmálið og táknin þótt prenttæknin hafi vissulega gefið rituðu máli byr undir báða vængi. Þörfin fyrir samskipti milli landa og manna úr ólíkum málheimum hafa alltaf verið til staðar. Sameiginleg tákn gegna þar lykilhlutverki. Skjaldarmerki voru hluti af slíku skilaboðakerfi. Fánar og veifur líka. Herir merktu sig með þeim, skip á úthöfunum og aðalsmenn á ferð með fylgdarliði. Litir hafa einnig verið notaðir í sama tilgangi.
En með iðnbyltingunni og vaxandi viðskiptum milli landa og heimshluta óx þörfin fyrir auðlæsilegt skilaboðakerfi. Eitur á flöskum merkt hauskúpu og beinum er ein fyrsta neytendamerkingin. Í dag kveða reglugerðir og lög á um að menn þurfi að merkja framleiðslu sína á ýmsan hátt, gefa til kynna endingu, innihaldsefni og margt fleira. Mjög margt af þessu er gert með táknum. Það fylgir því mikill kostnaður að fá menn til að þýða leiðbeiningar og innihaldslýsingar. Þess vegna eru í viðskiptaheiminum notuð ótal tákn og myndir til að hjálpa neytandanum að átta sig á vörunni. Nánast allir hvar sem þeir eru búsettir kunna að lesa úr þvottaleiðbeiningum á fatnaði. Rafmagnstæki eru einnig merkt ákveðnum alþjóðlegum táknum til að gefa til kynna hvers konar straum þau þola og hvar eigi að tengja hvað. IKEA er svo þekkt fyrir samsetningarleiðbeiningar sínar sem ekki öllum gengur jafn vel að lesa úr.
Sífellt bætist við þetta táknmál eftir því sem fleiri fyrirtæki finna þörfina fyrir að skapa slíkt alþjóðlegt myndletur. Táknin hjálpa bæði við að draga úr kostnaði en einnig við að gera vöruna aðgengilegri öllum.
„Af 3500 þátttakendum í rannsókninni var mikill meirihluti sammála um að emojis gæfu þeim gott tækifæri til að tjá tilfinningar. Þeir töldu auðveldara að gera það með myndum en orðum.“
Við hæfi í öllum samskiptum?
En aftur að lyndistáknum eða tjáknum, til að byrja með voru þau eingöngu notuð í textasamskiptum gegnum síma. Margir voru lengi að prenta skilaboðin á hefðbundinn hátt og þá var gott að geta stytt sér leið með því að skjóta alls konar myndum inn í setningarnar. Broskarlarnir voru aðgengilegastir til að byrja með en heimur tilfinningatáknanna var fljótur að stækka og nú varla til það hugtak, skynjun eða kennd að ekki sé hægt að finna viðeigandi mynd og senda hana áfram. Að auki eru menn farnir að gera sér að leik m.a. í bandarískum spjallþáttum að setja fréttafyrirsagnir í slíkt myndmál og biðja áhorfendur í sal að lesa úr þeim. Erum við hugsanlega að snúa aftur til myndleturs á borð við það sem Egyptar notuðu? Líklega ómögulegt að svara þeirri spurningu eins og sakir standa.
En á jákvæðu nótunum þá sýnir nýleg bandarísk rannsókn að tilfinningatjákn eða tjákn hafa jákvæð áhrif í samskiptum. Til að mynda var algengt að elskendur segðust kunna vel að meta að fá hjörtu, blóm og önnur ljúf tjákn frá ástinni sinni yfir daginn. Það kæmi þeim í betra skap og þegar heim kæmi væri viðkomandi frekar í stuði til að skapa rómantík og nánd. Það kom einnig í ljós að ef broskarli var bætt aftan við annars fremur neikvæð skilaboð dró það úr áhrifunum á viðtakandann. Hann skildi að ekki væri algerlega verið að brjóta hann niður, athugasemdin væri sprottin af góðum hug.
Af 3500 þátttakendum í rannsókninni var mikill meirihluti sammála um að emojis gæfu þeim gott tækifæri til að tjá tilfinningar. Þeir töldu auðveldara að gera það með myndum en orðum. Þeir vildu einnig meina að þeim þætti betra að fá send slík tjákn til baka en orð. Þetta bendir til þess að tilfinningatjákn séu vanmetið samskiptaform og hugsanlega engin ástæða til að stemma stigu við þeim. Nú þegar fólk talast oftar við með textaskilaboðum en augliti til auglitis er virkilega þörf á að senda einhvers konar merki um að þetta sé nú ekki illa meint, að þú sért að gera að gamni þínu fremur en að meina eitthvað bókstaflega.
Varasöm tjákn þótt sakleysileg séu
Í kommentakerfum fjölmiðla sést þessi þörf greinilega. Fólk tekur þar gjarnan óstinnt upp eitt orð rifið úr samhengi og æsir sig óhóflega yfir því. Hið sama á við í einkasamtölum. Hið prentaða mál er alltaf bókstaflegt. Því fylgja ekki bros, blik í auga, blíðleg handarhreyfing eða önnur líkamstjáning sem getur gerbreytt skilningi okkar á setningunni. Lyndistjákn geta þar komið í staðinn og komið í veg fyrir særindi og móðgun.
En eiga þau alltaf við? Sumum eru þau svo handbær og aðgengileg að þeir eru farnir að nota þau í öllum samskiptum. Er í lagi að senda viðskiptavini broskarl? Hvað með skjólstæðing ef þú ert læknir, lögfræðingur, sjúkraþjálfari eða rafvirki? Myndir þú senda yfirmanni þínum rós, kossa, hjörtu eða broskarla? Finnst þér í lagi að svara ókurteisum kúnna með kúk? Þetta eru allt spurningar sem hver verður að svara fyrir sig og vissulega skiptir fyrirtækjamenning þar miklu máli. Er það til að mynda venja að yfirmenn og undirmenn skiptist á textaskilaboðum í síma og þá með öllum þeim möguleikum sem þeim fylgja eða eru samskipti á formlegri nótum á þínum vinnustað? Nú eins hlýtur eðli viðskiptanna eða þjónustunnar að ráða miklu.
En hvort sem menn vinna hvítflibbastörf eða klæðast öryggisfatnaði við sín störf lítur þó út fyrir að emojis eða tilfinningatjákn séu komin til að vera og allir eiga orðið sitt uppáhaldstjákn. Þau verða þá nokkurs konar einkenni þeirrar persónu líkt og handskrifuð undirritun hér forðum. En þau geta líka verið varasöm. Sum senda nefnilega tvíræð skilaboð, þar á meðal er hið sakleysilega eggaldin sem er víst tákn um að sendandinn sé til í kynferðisleg samskipti. Þetta á við um ýmis önnur tjákn og þeir sem eru ekki vel lærðir í tjáknmáli ættu þess vegna að varast að senda slík ef þeir eru ekki alveg vissir um merkinguna.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.