Ekki rífast um uppeldi barnabarnanna

Opin umræða milli foreldra og afa og ömmu, getur forðað því að upp komi ágreiningur þeirra á milli um uppeldi barnabarnanna.

Danmarks Radio er með vef sem heitir Lev nu, eða Lifðu núna og þar er að finna margar áhugaverðar greinar um lífið og tilveruna. Hérna er nýleg grein eftir Britt Esrom um það hvernig hægt er að koma í veg fyrir að ágreiningur rísi vegna barnabarnanna.

Nauðsynlegt að ræða saman

Hversu oft á Soffía að fá að vera hjá afa og ömmu? Er í lagi að gefa henni stóran sælgætispoka, þó það sé ekki nammidagur? Hversu lengi á hún að sitja við matborðið á kvöldmatartíma?

Foreldrar og afar og ömmur hafa oft mismunandi skoðun á því hvernig á að ala barnabörnin upp. Þess vegna kemur stundum upp sú staða að það verður spenna eða ágreiningur um það hvernig best er að standa að uppeldinu.

„Ágreiningur milli foreldra og afa og ömmu, getur risið ef menn tala ekki saman og gera sér þar af leiðandi ekki grein fyrir hver hlutverkaskiptingin er þegar kemur að barnabörnunum“, er haft eftir Helen Lyng Hansen heilsufræðingi og rithöfundi í greininni.

Viðurkennið áhyggjur mömmu

Helen segir að afar og ömmur hafi ævinlega haft tilhneigingu til að skipta sér af uppeldi barnabarnanna. En öfugt við það sem áður var, séu nútímaforeldrar ekki sérlega móttækilegir fyrir ráðleggingum þeirra.

„Það stafar af því að í fyrsta lagi er fólk núna mun eldra þegar það eignast börn, en áður var. Í öðru lagi hafa nútíma foreldrar betri aðgang að upplýsingum og ráðum en fyrri kynslóðir. Þeir geta leitað svara við spurningum sínum á netinu eða í bókum um uppeldismál“, segir hún.

Það getur samt sem áður verið að foreldrarnir séu í vafa, þó svörin séu aðgengileg með nýjustu tækni. Þá getur næsta skrefið verið að snúa sér til afa og ömmu. Þá skiptir að dómi Helen máli, að hlusta og vera opinn. Það sé mikilvægt að skilja vandamálið sem foreldrarnir standi frammi fyrir og taka það alvarlega, alveg sama hvað manni sjálfum finnst. Það er mikilvægt að veita uppbyggilega leiðsögn, en gera sér grein fyrir að ráðin verði kannski ekki notuð.

Kærleikur til barnsins

Þegar ágreiningur um uppeldi barnabarnanna endar með miklum andvörpum og óvarlegum orðaskiptum er mikilvæt að huga að aðalatriðinu“ segir Helen. „Ágreiningurinn snýst nefnilega í grunninn um það, að bæði foreldrar og afar og ömmur vilja barninu einungis það besta. Það er mikilvægt að gleyma því ekki. En það er líka mikilvægt að muna að það eru fyrst og fremst foreldrarnir sem bera ábyrgð á börnunum og rétturinn er þeirra þegar kemur að uppeldi barnsins“.

 

Ritstjórn janúar 6, 2016 15:05