Ein/n á ferð í útlöndum

Undanfarin ár hefur færst mjög í vöxt að fólk ferðist eitt. Einhleypar manneskjur kjósa að binda sig ekki við vini eða vandamenn heldur fara þangað sem hugur þeirra stendur til án ferðafélaga. Margir segja að þetta sé mun skemmtilegra vegna þess að þeir stjórni algjörlega sjálfir hvenær þeir hafa félagsskap og hvenær ekki og að menn kynnist mun betur heimamönnum eða öðru ferðafólki heldur en þegar ferðast er í hóp.

Ferðalög eru líf og yndi stór hóps manna. Þeir eru glaðir og áhugasamir en þegar gengið er inn á flugvöllinn með ferðatöskuna í eftirdragi og aldrei hamingjusamari en í 30.000 feta hæð. Jafnvel þótt setið sé í þröngu flugvélasæti, engin leið að sofa og ekkert í boði nema óætar rándýrar samlokur. Ástæðan er sú að þessi hópur þegar kominn á áfangastað í huganum. Búið er að gúggla bestu veitingastaðina, merkustu kennileitin og áhugaverða staði utan alfaraleiða. Draumur er að rætast og ævintýri framundan. Flestir eru þó uppteknir af sessunautum, ferðafélaganum, hvernig hefur hann það? Er hann jafnspenntur? Nema þú sért einn þeirra sem kjósa að ferðast einir en sú tegund ferðamennsku er í mjög örum vexti um þessar mundir og margir ferðaþjónustuaðilar farnir að gera beinlínis út á þennan hóp.

Lengi vel var talið algjörlega óhugsandi að konur ferðuðust einar. Þær væru með því að bjóða hættunni heim. Ræningjar og aðrir misindismenn ættu auðvitað greiða leið að varnarlausum konum og nokkuð öruggt að þeir myndu notfæra sér það. Þegar ferðlög komumst í tísku meðal milli- og hástétta Evrópu á nítjándu öld voru karlmenn í miklum meirihluta þeirra sem lögðu land undir fót. En inni á milli voru hugrakkar, framsæknar konur fullar af ævintýraþrá sem neituðu að láta tíðarandann stöðva sig. Isabelle Eberhardt ferðaðist þvert yfir Sahara eyðimörkina dulbúin sem karlamaður og Mary Henrietta Kingsley fór um alla Vestur-Afríku íklædd hvalbeinakorseletti því ekki tjóaði að slá af kröfum um klæðaburð þótt vísindin kölluðu konu til verka. Ef fara á nær okkur í tíma má benda á Nell Stevens en hún skrifaði um reynslu sína af því að búa eina á Falklandseyjum í þrjá mánuði í Bleaker House, Rebecca Solnit skrifaði nokkrar stórgóðar ritgerðir um ferðir sínar og birti í A Field Guide to Getting Lost og Wild by Nature.

Frumkvöðlar og andleg leit

Ótal fleiri slíkar konur mætti nefna m.a. landkönnuðinn Sarah Marquis sem lengst af starfaði fyrir National Geographic og ferðaðist vítt og breitt um veröldina á vegum vinnunnar. Þær eru og hafa alltaf verið á meðal okkar þessar konur. Sumar reknar áfram af vísindalegum áhuga, aðrar þrá upplifun og enn aðrar í leit að sjálfum sér, eins og Elizabeth Gilbert í Borða, biðja, elska og Cheryl Streyed í Villt. Núna þegar konur hafa öðlast vald yfir eigin lífi og fjármunum, þegar þær hafa val um hvenær og hvort þær giftast fer sá hópur kvenna vaxandi sem kýs að fara að dæmi svona frumkvöðla og skipuleggja sín ferðalög sjálfur óháð því hvort einhver annar er á sömu leið.

Þetta þýðir ekki að þær hafi eitthvað á móti því að hafa félaga, alls ekki. Hér er meira um að ræða að vera ekki háður öðrum. Ef það dettur í slíka konu að skella sér í bátsferð um Amazon-fljótið eða í vínsmökkun í Suður-Ameríku bókar hún ferð. Þá þarf ekki að hringja ótal símtöl í von um að einhver vinur hafi áhuga á því sama og fara yfir dagbækur margra misupptekinna manneskja til að finna rétta tímann.

Stundum eru þessir sóló-ferðalangar með smekk fyrir framandi slóðum sem ekki er alveg víst að allir aðrir treysti sér til að heimsækja, það kann einnig að vera að þeir kjósi að ferðast utan óhefðbundinna sumarleyfistíma og í enn öðrum tilfellum er einfaldlega praktískt að fara einn. Sá sem ekki þarf að taka tillit til annarra en sjálfs síns getur gist þar sem honum líkar best, borðað hvar sem honum sýnist og jafnvel hoppað upp í næstu lest og farið til annarrar borgar ef sú sem hann lenti í er ekki eins skemmtileg og hann átti von á. Það fylgir því frelsi að vita að enginn er til hefta þig og allur heimurinn er þér opinn. Auk þess eflir það sjálfstæði og sjálfstraust að finna og vita hversu auðveldlega þú leysir úr öllum þeim vandamálum sem upp koma og að þú getur fundið út úr öllu upp á eigin spýtur.

 

Ævintýri, einn á ferð, ferðalög, fjallganga, fjöllNý kynni hefjast

Auk alls þessa er alltaf sá möguleiki að gefa sig á tal við aðra, stundum aðra einstaklinga en þess á milli hópa fólks. Þannig skapast oft ný vinátta eða ómetanlegar upplýsingar fást um staðinn. Stundum eru menn líka opnari fyrir nýjum uppgötvunum og stíga frekar út fyrir þægindarammann þegar þeir eru einir á ferð. Vinkona mín var ein á ferð í Asíu og gaf sig á tal við nokkrar konur sem biðu eftir áætlunarbíl. Þær sögðust vera á leið á blómasýningu í þorpi í nokkurri fjarlægð. Hún ákvað á staðnum að taka rútuna með þeim og sá ekki eftir því. Nokkru síðar var sama kona á ferð um Ítalíu og var sagt að króatísku eyjarnar væru ævintýralega fallegar. Það þurfti ekki meira, hún fann leið til að heimsækja þær. Ef hún hefði verið á ferð með eiginmanni sínum, börnum og eða vinum í það sinnið hefði þetta verið mun flóknara í framkvæmd. Að lokum má svo benda á að stundum snúast ferðalög um að rækta áhugamál sín. Það er ekki alveg víst að ástvinir þínir hafi sömu ástríðu fyrir golfi, matreiðslu, jóga eða fjallgöngum og þess vegna er stórkostlegt að allir geti notið þess að ferðast þegar þeir vilja og á þann stað sem freistar mest.

 

Hér eru nokkur góð ráð fyrir þá sem ætla að ferðast einir í sumar.

Lestu þér vel til um áfangastaðinn áður en þú leggur af stað

Mennt er ávallt máttur og því meiri þekkingu sem fólk hefur á aðstæðum þess líklegra er að allt fari að óskum.

Skapaðu þér vettvang

Margir sem ferðast einir halda dagbækur að hætti landkönnuða fyrri tíma. Nú á dögum rata þær oft á netið. Þar eru birtar frásagnir af ævintýrum ferðalangsins og myndir. Svona ferðablogg njóta mikilla vinsælda og með því að tengjast fylgjendum sínum í hvert sinn sem bætt er við bloggið getur verið mjög gefandi. Í þessu er einnig falið ákveðið öryggi. Allur heimurinn veit hvar þú ert stödd/staddur daglega eða á nokkurra daga fresti. Það sem þú hefur að segja getur svo gagnast þeim sem feta í fótspor þín.

Vertu viss um að þú viljir í raun ferðast ein

Það hentar ekki öllum að vera einir á ferð. Sumir finna fyrir einmanaleika og ótta. Vertu þess vegna viss um að þú sért undir það búin/n að vera einn. Til að undirbúa tilfinninguna farðu ein/n á söfn, veitingahús og ferðamannastaði í eigin heimalandi áður en þú heldur af stað. Ýmsum reynist vel að hafa með sér bók eða ipad til að kíkja á meðan beðið er eftir matnum eða grípa til ef þeir finna fyrir óþægilegu augnaráði.

Veldu áfangastaðinn vel

Byrjaðu á að fara styttri ferðir og þá til staða þar sem þú býst ekki við miklum vandræðum, þ.e. lönd lík þínu heimalandi og þar sem þú getur gert þig skiljanlega/n. Ef vel tekst til er ekkert mál að láta draumana rætast og skella sér til Nepal, Bólivíu eða Ghana.

Ekki taka hvaða ráðum sem er

Ráðleggingar annarra geta verið gagnlegar en stundum eiga þær alls ekki við í þínu tilfelli. Taktu öll ráð sem gefin eru í góðri trú til yfirvegunar en staðreyndu þau og notaðu þau aðeins þegar þú ert viss um að þau passi þér.

Finndu þinn útgangspunkt

Margt fólk ferðast í ákveðnum tilgangi. Mataráhugi rekur suma áfram, ást á listum og menningu aðra en sumir njóta þess best að reika um og upplifa andrúmsloftið. Finndu þitt þema byrjaðu hverja ferð þar.

Veldu gististaðinn af kostgæfni

Það er alltaf gott að hvílast vel. Auk þess er gott að geta dregið sig í hlé eftir langan dag á ferðalagi og notið þess að slaka á í einrúmi. Ef þú hefur ekkert á móti félagsskap og ýmsum óþægindum sem fylgja því að sofa í herbergi með mörgum öðrum þá bókar þú að sjálfsögðu hostel en ef ekki prófaðu að skoða https://www.slh.com þar er að finna lítil lúxus hótel um allan heim.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn apríl 27, 2025 08:25