Stólar á hreyfingu og rauðvín

Það fylgja því ýmsir kostir að eldast, eins og fram kom í grein hér á Lifðu núna nýlega. En það er eins og með allt annað, því fylgja líka augljósir ókostir, eins og þeir að færni og geta minnkar. Einn viðmælandi Lifðu núna sagði til dæmis „Maður verður að láta af ýmsu sem áður var auðvelt viðfangs“ og annar sagði að takmörkun á líkamlegri getu og meiri veikindi, væru fylgifiskar þess að eldast.

Á sama hátt og kostirnir við að eldast eru margþættir eru gallarnir það líka. Ýmsir líkamlegir kvillar sem maður taldi að aldrei mundu hrella mann, maður yrði nefnilega alltaf sprækur og alheill, fara að gera vart við sig, bæði hjá manni sjálfum og samferðafólkinu. Þetta minnir mann óneitanlega á að það er farið að hausta og óveður geta skollið á hvenær sem er.

Þessi reynsla getur kallað fram kvíða og oft finnur maður meðal vinna sinna að þeir óttast ellina.  Á margan hátt finnst mér það raunsærra viðhorf en að afneita henni eins og sumir gera.

Einn úr hópnum sem rætt var við sagðist sjá ákveðna ókosti við að eldast, þótt það fylgdi að hann kysi fremur að horfa á kostina en ókostina.

Gallarnir eru hins vegar augljósir- minna þrek og þar af leiðandi framtakssemi. Því verður maður að velja vel hvernig maður ver tíma og kröftum. Heilsan er auðvitað lykilatriði og maður verður að vera þakklátur sé hún í góðu lagi hjá manni sjálfum og manns nánustu.

Það var líka bent á að fólk missti hæfnina eða viljann til aðlögunar þegar æviárunum fjölgar, en viðmælendur Lifðu núna bentu líka á fleiri hliðar málsins.

Ég lít ekki á það sem  galla að eldast. Eitt er hins vegar tölfræðilega augljóst: Meiri líkur eru á heilsubresti þegar fram líða stundir. Það veit ég fullvel. Danskur öldrunarlæknir, sem kom til Reykjavíkur í fyrirlestrarferð fyrir nokkru, ráðlagði fólki á efri árum að hreyfa sig, drekka rauðvín (í sæmilegu hófi) og ráða krossgátur. Ég hef ekki komist almennilega upp á krossgátur en stóla á hreyfingu og rauðvín.

Samfélagið setur einstaklinga til hliðar til dæmis varðandi atvinnuþáttöku sagði einn úr hópnum.  Og annar sagði að eftir því sem aldurinn færðist yfir missti fólk færni, kjark og þor til að gera ákveðna hluti sem það hefði alltaf gert. Það hræddist meira hið óþekkta og óvissa. Hann sagði einnig að það væri mikil hætta á að eldra fólk einangraðist og missti samband við umheiminn með aldrinum. En það er líka skemmtilegt hvaða augum menn líta aldurinn, allt eftir því á hvaða aldri þeir eru sjálfir.

Faðir minn lést af völdum hjartaáfalls 56 ára. Mér fannst hann ekki beinlínis gamall þá en að hann væri vissulega kominn vel af léttasta skeiði. Nú erum við fjórir synir hans orðnir 56 ára eða eldri og höfum fyrir löngu skynjað að maðurinn var á besta aldri þegar hann mætti örlögum sínum. Meira að segja 65 ára fólk eru unglömb svo lengi sem það vill sjálft.

Einn  viðmælandanna sem er kominn á eftirlaun sagðist finna fyrir því að hann gæti ekki lengur gert ýmislegt sem hann hristi fram úr erminni áður.

Maður er hættur að geta unnið alls konar verkefni með vinstri höndinni eftir tólf á miðnætti! Og ef maður ætlar að halda boð fer maður að undirbúa með góðum fyrirvara í stað þess að vinda sér út í búð um sexleytið og vera tilbúinn með ljúffengt gestaborð um átta. Þú getur ekki gert eins margt í einu, eiginlega gerir maður bara eitt í einu!

Gleymska er líka fylgifiskur aldurs, reyndar er það kallað að vera utan við sig í mínum hópi, og margir segjast alltaf hafa verið það, bara pínu meira með aldrinum. Það má öllu nafn gefa!

Sjón og heyrn raskast oft en gallinn við skerta heyrn, þrátt fyrir hjálp heyrnartækja, er að erfitt getur verið að fylgjast með samtölum, svo ekki sé talað um leikhús, kvikmyndir og þar fram eftir götunum.

Sumir vilja þá draga sig í hlé sem er slæmt því maður er manns gaman og mikilvægt á efri árum að einangra sig ekki.

Einn galli í viðbót sem margir kvarta yfir og það er að þeim finnst þeir hafa svo óskaplega mikið að gera eftir að þeir hættu að vinna. Þetta er nú reyndar oft sagt til gamans!

Við ljúkum svo þessari litlu umfjöllun um ókostina við að eldast með þessum ummælum.

Það lokast ýmsir kaflar í lífinu við það að eldast og aðferðir við að ná markmiðum breytast. Hreysti og úthald er auðvitað ekki eins mikið og áður og það þarf meira að sinna þessum þáttum. Í þessu samhengi finnst mér verða æ mikilvægara að sjá það sem við höfum en ekki að einblína á það sem var einu sinni hægt að gera. Að sjá glasið sitt sem hálf fullt en ekki hálf tómt. Það er svo sannarlega fullt af möguleikum í lífinu þótt ég fari ekki lengur á skíði eða út að hlaupa.

Hópurinn sem fékk spurningar sendar frá Lifðu núna er þessi: Atli Rúnar Halldórsson, Elín Siggeirsdóttir, Eyþór Elíasson, Margrét Björnsdóttir, Sylvía Guðmundsdóttir,  Valgerður Magnúsdóttir og Þorbjörn Guðmundsson.

Ritstjórn apríl 24, 2018 06:30