Ný íslensk þýðing á bókinni, Af hverju báðu þau ekki Evans? eftir Agöthu Christie kom út fyrir skömmu. Þetta er ein af hennar bestu bókum og gerðar hafa verið kvikmyndir og sjónvarpsþættir eftir henni. Hvorki Ms Marple né Hercule Poirot koma fyrir í þessari sögu heldur ungt par og þetta er jafnframt ástarsaga.
Þau Bobby Jones, sonur þorpsprestsins, og lafði Frances (Frankie) Derwent fara að rannsaka dauðsfall sem verður í smábænum þeirra. Í fyrstu virðist þetta einfaldlega slys, maður gengur fram af háum kletti í þoku og Bobby kemur fyrstur á vettvang ásamt þorpslækninum. Bobby bíður hjá stórslösuðum manninum meðan læknirinn sækir hjálp. Hann leitar í vösum hans og sér ljósmynd af afar fallegri konu. Rétt áður en maðurinn deyr lítur hann upp og segir: „Af hverju báðu þau ekki Evans?“ Bobby finnst þetta hvorki dularfullt né merkilegt fyrr en kona alls ólík þeirri á myndinni kemur og ber kennsl á látna manninn sem bróður sinn og ljósmyndin sem hann sá virðist horfin. Þegar Bobby er svo byrlað eitur ákveða þau Frankie að þetta þarfnist frekari skoðunar og ævintýri þeirra hefst.
Fléttan í Af hverju báðu þau ekki Evans? er áhugaverð og skemmtileg og nokkrir snúningar teknir á leið að lausninni. Agatha sagði frá því í viðtali að kveikjan að þessari bók hafi verið setning sem hún heyrði í veislu. Tvær konur voru að tala saman á næsta borði við hana en hún hafði ekki fylgst með samræðum þeirra. Allt í einu sagði önnur þeirra: „Af hverju báðu þau ekki Evans?“ og þessi spurning festist í kollinum á rithöfundinum og lét hann ekki í friði fyrr en hann var búin að skapa í kringum hana heila bók.

Agatha Christie með dóttur sinni Rosalind. Það varð seinna ævistarf Rosalind að halda utan um höfundarréttarmál móður sinnar og sonur hennar er nú tekin við og sér um það ríkulega bú sem amma hans lét eftir sig.
Merkur höfundur og áhugaverð manneskja
Agatha Christie er frábær rithöfundur og skrifaði yfir sjötíu bækur um ævina. Hún ferðaðist mikið með seinni manninum sínum Max Mallowan, fornleifafræðingi og dvaldi oft langdvölum með honum við fornleifauppgröft í Egyptalandi og víðar. Þessar ferðir urðu kveikjan að mörgum bóka hennar meðal annarra, Dauðinn á Níl, Morðið í Austurlandahraðlestinni og Morð í Mesópótamíu.
Þótt Agatha sé einkum þekkt fyrir skrif sín vakti ekki síður athygli þegar hún hvarf árið 1926 í kjölfar þess að fyrri maður hennar krafðist skilnaðar. Um svipað leyti dó mamma hennar og svo virðist að þessi áföll hafi orðið Agöthu um megn, í það minnsta tímabundið. Eftir ellefu daga birtist hún aftur og kvaðst þjást af minnisleysi og ekki muna hvar hún hefði verið og hvað hún hefði gert. Þetta atvik úr ævi hennar varð innblástur að kvikmyndinni, Agatha and the Truth of Murder frá árinu 2018 og einnig er það stór hluti af kvikmynd frá árinu 1979, byggðri á ævi hennar sem heitir einfaldlega Agatha.
Margar kenningar hafa verið reifaðar um hvers vegna hún hafi látið sig hverfa og ein þeirra er að hún hafi verið að leggja á ráðin um að myrða sinn ótrúa eiginmann. Svo snjöll þótti Agatha við að skapa flækjur og nánast óleysanleg morð að einhverjum virðist hafa komið það í hug að hún væri sjálf fær um að drepa manneskju. Hálffjarstæðukennt að mati undirritaðrar en vissulega vildi Agatha aldrei tala um þetta tímabil í lífi sínu og í ævisögu hennar er farið hratt yfir sögu þegar kemur að því.
Kafteinn Christie fékk að lifa
Vitað er að hún dvaldi á The Old Swan hótelinu í Harrowgate undir nafninu Mrs. Neele. Annað er óljóst en margir segja hana einfaldlega hafa þurft að syrgja í friði og jafna sig og víst er að við höfum flest upplifað tíma þegar við hefðum helst viljað stíga út úr eigin lífi og fá algjöru hvíld frá því. Þá er áreiðanlega bæði gott og uppbyggilegt að dvelja á hóteli og fá alla þjónustu. Þeir sem hallast að kenningunni um að hún hafi bruggað manni sínum banaráð ættu að hafa í huga að Christie kafteinn fékk að lifa og kona hans fyrrverandi jafnaði sig á skilnaðinum og kynntist Max Mallowan fjórum árum síðar. Hjónaband þeirra var farsælt og varði meðan bæði lifðu.

Agatha Christie með seinni manni sínum Max Mallowan fornleifafræðingi.
Agatha Christie hefur verið kölluð drottning spennusögunnar og víst er að hún var afkastamikil og bækur hennar hafa notið gífurlegra vinsælda um allan heim. Hún fæddist í Torquay 15. september árið 1890 en lést 12. janúar árið 1976. Fyrsta saga hennar The Mysterious Affair at Styles kom út árið 1920 og þar kom fram á sjónarsviðið í fyrsta sinn Belginn sjálfsánægði Hercule Poiroit. Agatha lýsti því seinna yfir í viðtali að ef hún hefði vitað að hún ætti eftir að skrifa þrjátíu bækur um Hercule Poiroit hefði hún gert hann yngri og skemmtilegri. Í síðustu bók sinni Curtain: Poirot‘s Last Case, sem kom út árið 1975 dó Hercule en aðdáendur hennar sættu sig við dauða hans ólíkt lesendum Doyles sem knúðu hann til að reisa Holmes upp frá dauðum.
Hún kynnti okkur einnig piparmeyna Ms Marple sem hafði dýpri skilning en flestir á mannlegu eðli, enda hafði hún eytt ævinni í smáþorpi þar sem skoða má mannlega hegðun í návígi. Um skarpskyggni Ms Marple hefur mikið verið rætt og ritað en aðspurð um hvers vegna konan sú væri svo læs á aðrar manneskjur sagði Agatha að hún væri byggð á aldraðri frænku sinni, konu sem alltaf virtist vita allt um aðra og vendingar í lífi þeirra þótt henni hafi ekkert verið sagt. Svo bætti hún við: „Við erum fæst öll þar sem við erum séð.“ Ferill Agöthu spannaði 56 ár og á þeim tíma skrifaði hún 66 glæpasögur og einnig ferðabækur, ástarsögur og barnabækur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.