Tengdar greinar

Helga Möller fyrirsæta

Helga Möller var áberandi fyrirsæta á Íslandi strax á sjöunda áratugnum, enda byrjaði hún fyrirsætuferilinn 15 ára. „Ég var að þessu fram á sextugsaldur, en þá tók ég að mér síðasta verkefnið. Fyrirsætu- og sýningastörfin voru ævinlega aukastörf, alls ekkert aðalatriði, en bara eðlilegur hluti af lífinu“, segir hún og bætir við að þau hafi verið skemmtileg. „Það var góður og glaðvær hópur í kringum þetta og svo buðust alls kyns ferðalög.  Ég fór nokkrum sinnum til Bandaríkjanna til að sýna íslenskan lopa og fyrir vikið hef ég komið til 25 ríkja þar. Við fórum einnig með í opinberar heimsóknir með Vigdísi forseta, líka til að sýna lopa. Þetta var oft mikið ævintýri og skemmtilegt“, segir hún þegar hún rifjar þetta upp. Hún vann líka við fyrirsætustörf á Norðurlöndunum, en bara eitt sumar, því hún er heimakær og hafði ekki hug á að dvelja langdvölum í útlöndum. „Það var ósköp þægilegt að gera þetta í hjáverkum hér heima“, segir hún.

Helga er hætt að vinna og segist hamast við að hafa það gott. Hún hefur sótt námskeið í olíumálun í Myndlistarskóla Kópavogs síðustu fimm vetur og nýtur þess að mála. Hún og maðurinn hennar Benedikt Geirsson njóta þess einnig að dvelja í sumarbústað sem þau eiga í Efstadalsskógi. „Við erum í því að lifa núna“, segir Helga en Benedikt greindist með krabbamein í október síðast liðnum. „Við höfum líka gaman af því að ferðast, ekki síst innanlands“, segir hún, en Benedikt er í vinnu eftir því sem orka og úthald leyfir. ,,Landið okkar er svo fallegt og gaman að kynnast því sem best“.

Aðalstörf Helgu í gegnum tíðina hafa verið á sviði fjölmiðla. Hún var auglýsingastjóri hjá Húsum & híbýlum, sá um uppstillingar fyrir auglýsingamyndatökur, en var líka blaðamaður og skrifaði í blöð eins og Vikuna og Nýtt líf. Hún færði sig svo yfir til Heims sem Benedikt Jóhannesson stýrði og skrifaði fyrir Ský og Frjálsa verslun, ásamt auglýsingastjórn í Atlantica. Eitt sumarið tók hún að sér að vera í afleysingum á Fréttastofu Sjónvarps. Hún segist hafa verið í skemmtilegum og fjölbreyttum störfum alla ævi.  Auk þessara starfa, dansaði hún mikið, t.d. í mörgum sjónvarpsþáttum og varð  Íslandsmeistari í jazzballett.  Hún skrifaði fjórar barnabækur sem heita Puntrófur og pottormar, Leiksystur og labbakútar, Prakkarakrakkar og Við enda regnbogans. Kveikjan að þeim voru sögur frá eigin bernsku sem hún sagði dóttur sinni þegar hún var lítil.

Af öllum þeim störfum sem Helga hefur tekið að sér um dagana, segir hún að best hafi sér þótt móðurhlutverkið. „Það er skemmtilegt en ábyrgðarmikið hlutverk að ala upp barn og ég lagði mig fram um að vera sem allra best mamma, sjá til þess að æskan væri góð og eftirminnileg og hvetja barnið og örva“, segir hún. Dóttir hennar er lærður dansari, hún dansaði með Íslenska dansflokknum hér heima og einnig í Sviss. „Síðan venti hún sínu kvæði í kross og tók masterspróf í mannfræði og starfar nú í Háskóla Íslands“, segir Helga „Hún er klár og skemmtileg og getur allt sem hún vill, eins og ég segi henni alltaf“.

Það vita sennilega ekki margir að Helga er mikill dýravinur. Hún segist sinna því meira núna en á meðan hún var að vinna. „Ég fer og gef kanínunum í borgarlandinu, fuglum og sé tveimur villiköttum fyrir fæði. Fuglarnir uppí bústað eru svo miklir vinir mínir. Ég gef þröstunum þar rúsínur og vínber, auðnutittlingarnir fá sólblómafræ og krummi fær matarafganga, lifrarpylsu og blóðmör. Hann kemur og krunkar hátt þegar hann hirðir það sem ég hef stillt upp á vegg fyrir hann. Mýsnar fá svo möndlur, því ég fer ekki í dýrgreinarálit“, segir hún og hlær við. Þessir snúningar í kringum dýrin eru stundum svolítið bindandi og Helga segir að maðurinn hennar kvarti svolítið yfir þessu, en hún hefur leyst málið með því að fá „afleysingamann“ í dýrafóðrunina þegar þau fara eitthvað í burtu.

Ritstjórn ágúst 7, 2019 06:58